Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Klippt

Fór síðast í klippingu í júní.

Árni hefur síðan þá tekið að sér að breyta gráum hárum í ljós með lit úr apótekinu.

Þó nokkrar útlitskröfur eru gerðar í vinnunni og fór ég því í morgun á hárgreiðslustofuna Salahár þar sem klipping kostar aðeins 4000 krónur.

Var nýkomin heim þegar krakkarnir koma úr skólanum.

Bjarni (8) gengur inn, sér mig og segir vvvvváááááá hvað þú ert flott!

Og Bryndís (9) bætir við þú ert eins flott og þú varst einu sinni!

Þá spyr Bjarni var ég lifandi þá?


Sjálfsbjargarviðleitni eða gullgrafarar?

Einhverjir sem huggu í síðustu setninguna í síðustu færslu.

Já hvað átti ég eiginlega við?

Bara það að það eru alltaf einhverjir sem hugsa meira um eigin hagsmuni en heildarinnar.

Ætli við gerum það ekki öll reglulega.  Þegar á reynir?

Forsendur breytast og hagur minn og hagur heildarinnar fer misvel saman.

Eitt dæmi um þetta er að kaupa íslenska vöru.  Þegar ég á pening reyni ég að kaupa íslenska vöru en um leið og verðið er það sem skiptir öllu kaupi ég bara það sem er ódýrast.

Þessir sögulegu tímar sem við lifum á hafa auðvitað stillt ansi mörgum upp við vegg og erfitt fyrir fólk að taka ákvörðun um hvað er rétt.  Er rétt að hugsa um eigin hag, til að redda sér eða er rétt að hugsa um hag heildarinnar?

Og þegar aðstæður eru þetta erfiðar þá stendur fólk frammi fyrir því að þurfa að velja á milli einhvers veigameira en hvort það kaupir euroshopper kjötbollur eða Goða.

Dæmi eru um að fólk skrái sig atvinnulaust en vinni svo svarta vinnu.

Dæmi eru um að útflytjendur komi ekki með gjaldeyrinn heim, auk þess sem einstaklingar fari úr landi með gjaldeyri, kaupi íslenskar krónur á útsölu og hirði mismuninn.

En hvað á fólk að gera?  Hversu langt á fólk að ganga í að hugsa um velferð samfélagsins ef það sér ekki fram úr eigin fjármálaflækju?

Er hægt að fara fram á það?

En hvar eru mörkin á milli sjálfsbjargarviðleitni og græðgi?

Að lokum, það hefur áður komið hér fram að ég hef ekki hundsvit á stjórnmálum en reyni þó að fylgjast með.

Mér fannst stórkostlegt að sjá Jóhönnu Sigurðardóttir í ræðustól við lok landsfundar þar sem hún myndaði eilítið skökkum útréttum örmum sigurmerkið.

Kann ekkert skilgreininguna á jafnaðarhugsjóninni utanbókar en ég hnaut um þetta:

“Hagsmunir okkar og hugsjónir snúast um að sækja fram, til meiri jafnaðar, sanngirni og réttlætis fyrir okkar fólk. Stefna okkar er skýr við viljum innsigla sáttmála við þjóðina um ný gildi á traustum grunni jafnaðarstefnunnar.”

Okkar fólk?  Eins gott að skrá sig í Samfylkinguna!

 


að finna tækifærin

Nú er minna en vika þar til ég byrja aftur að vinna og spenningur farinn að gera vart við sig.

Mikið óskaplega er ég ánægð með fyrirtækið mitt!  Svo ánægð með skilaboðin sem það sendir okkur öllum.

Í kreppunni felast líka tækifæri og það fann það og greip það.

Vona að ákvörðun Icelandair verði öðrum fyrirtækjum hvatning, þau ákveði að láta slag standa þótt óvissan sé enn mikil.

Krafturinn kemur líka með vorinu.

Við höfum öll svolítið haldið niðrí okkur andanum í vetur og beðið þess sem verða vill en nú látum við hendur standa fram úr ermum og vinnum saman.

Nema auðvitað þessi einstöku sem gleyma að þeir eru hluti af heild og grafa undan batanum.

 

Samantekt á aðgerðum ráðuneytanna

Kvartandi sem ég endalaust er gaf ég mér tíma til að lesa 39 blaðsíðna “Samantekt ráðuneyta á aðgerðum vegna falls bankanna og áhrifa þess á efnahagslífið” sem var birt á Island.is í gær.

Samantektin er rosalega flott og margt talið upp sem gert hefur verið.  En kaffilyktin fór þó að stíga frá tölvuskjánum við endalausar upptalningar á starfshópum, stýrihópum og nefndum.

Nú er ég svo sem ekki buguð af fundarsetum í gegnum árin en hef þó setið nógu marga skemmtilega fundi til að gera mér grein fyrir að maður er manns gaman og að oft er erfitt að halda sig við efnið.

Vona bara að hóparnir og nefndirnar vinni hratt og vel að brýnum og þörfum verkefnum sem á endanum skila sér til okkar.

Hef bara áhyggjur af því hvað þetta kostar.

Auðvitað þarf að vanda sig, gera hluti vel og fara eftir lögum og reglum.

En.

Fékk í gær sent 2 blaðsíðna bréf um að fjármálaráðherra hafi skipað umsjónaraðila fyrir íslenska lífeyrissjóðinn og bla bla bla.  Renndi í gegnum bréfið og fleygði því.

Ég hef ekki grænan grun um meðlimafjölda í íslenska lífeyrissjóðnum en segjum að þeir væru bara 1000.  Það kostar 70 krónur að póstleggja sem þýðir að sendingarkostnaður var 70.000 kr! Eflaust eru mun fleiri í þessum lífeyrissjóði og upphæðin því hærri.

Var ekki nóg að birta þessa tilkynningu bara á heimsíðu fjármálaráðuneytisins eða á heimasíðu íslenska lífeyrissjóðsins?  Jafnvel báðum til að vera grand.

Röfl yfir smámunum?  70.000 er nánast matarkostnaður fjölskyldunnar og dygði fyrir tómstundum barnanna á vorönn!  Hvað ætli mörg svona bréf með upplýsingum sem flestum er sama um hafi verið send undanfarið?

Sinnum 70?

Kannski bar þeim lagaleg skylda að upplýsa mig sem meðlim en þetta á bara ekki við í dag.  Ég fer fram á það við stofnanir og sérstaklega stofnanir ríkisins að spara í þessum efnum því safnast þegar saman kemur, eins og allir vita.

En loks að plagginu.

Sumt hafði ég áður heyrt eins og með frestun nauðungarsölu og niðurfellingu á skuldajöfnun barnabóta en annað kom mjög á óvart.

Komst að því að:

Í lok október 2008 skipaði félags- og tryggingamálaráðherra hóp sérfræðinga til að skoða leiðir til aðbregðast við vanda lántakenda vegna verðtryggingar. Hópurinn lagði til að tekin yrði upp greiðslujöfnunfasteignaveðlána til einstaklinga til að mæta vaxandi greiðslubyrði verðtryggðra lána samhliðaminnkandi kaupmætti. Þetta var gert með lagabreytingu í nóvember." 

“Heimildir Íbúðalánasjóðs til að koma til móts við lántakendur í greiðsluvanda hafa verið rýmkaðar oginnheimtuaðgerðir stofnunarinnar mildaðar. Til nýrra úrræða telst heimild sem leyfir afturköllunnauðungarsölu gegn greiðslu þriðjungs vanskila í stað helmings vanskila áður. Þá var rýmingarferliuppboðsíbúða lengt úr einum mánuði í þrjá. Heimildir til greiðslufrestunar vegna sölutregðu á eldri íbúðhafa verið rýmkaðar. Þessar heimildir koma til viðbótar eldri úrræðum Íbúðalánasjóðs til að mæta fólki ígreiðsluvanda, svo sem um skuldbreytingu vanskila, lengingu lána og frystingu afborgana (af höfuðstól,verðbótum og vöxtum) um allt að þrjú ár.”

“Með breytingu á lögum um húsnæðismál sem samþykkt var á Alþingi í desember 2008 var heimilað aðlengja lánstíma lána vegna greiðsluerfiðleika í allt að 30 ár í stað 15 ára og hámarkslánstími hjá sjóðnumer lengdur úr 55 árum í 70 ár. Lenging hámarkslánstíma í 70 ár er gerð til að tryggja að allir geti nýtt sérheimild til skuldbreytingar láns í 30 ár.”

Þetta er ótrúlega flott!   Greiðslujöfnun verðtryggðra lána, alfrysting á lánum í 3 ár, greiðsluerfiðleikalán í 30 ár og 70 ára hámarkslánstími.

Auðvitað borga lántakendur lánin sín skrilljónfallt tilbaka ef það nýtir sér þenna aukna lánstíma en þetta er þó að minnsta kosti valkostur sem leið út úr vandanum.  Kannski er jafnvel uppgreiðslumöguleiki í boði?

En.

Um miðjan október 2008 beindi ríkisstjórnin tilmælum til fjármálastofnana að bjóða fólki ígreiðsluerfiðleikum sömu úrræði og bjóðast viðskiptavinum Íbúðalánasjóðs.”

Virðist ekki sem þessum tilmælum hafi verið tekið.  Að minnsta kosti er ekkert af þessu í boði hjá okkar lánastofnunum.

Áttaði mig ekki á að björgunaraðgerðir heimilanna ættu bara við um heimili sem hefðu tekið lán hjá ÍLS.

En þá er spurningin getur ÍLS keypt lánin mín?

“Íbúðalánasjóði hefur verið veitt heimild til að kaupa skuldabréf fjármálafyrirtækja sem tryggð eru meðveði í íbúðarhúsnæði hér á landi að því tilskildu að kaupin séu til þess fallin að tryggja öryggi lána áíbúðalánamarkaði og hagsmuni lántakenda. Heimildin á jafnt við um lán í íslenskum krónum ogerlendum gjaldmiðlum en sem stendur hafa ekki verið teknar ákvarðanir um yfirtöku sjóðsins áerlendum lánum.”

Hvað haldið þið?


Fasteign eða heimili?

Komið hálft ár síðan heimilið varð tekjulaust.  Ótrúlega góð tilfinning að hafa náð hingað án stórra áfalla.

Hefðum auðvitað aldrei getað það nema með góðri hjálp.

Stefnum í eina átt núna og erum farin að kveðja í huganum.

Ótrúleg aðlögunarhæfnin sem maðurinn býr yfir, finnum hvernig við erum farin að slíta tilfinningatengslin og undirbúa breytingarnar.

Suma daga tel ég sjálfri mér meira að segja trú um að ég verði fegin að fara héðan, einblíni á gallana og leiðindin við að eiga steypuhjall!  Hlakka til einfaldara lífs með minna viðhaldi og minni pirringi.

Aðra daga get ég ekki ýtt minningum frá mér.

Sé börnin mín í gegnum árin á ýmsum stöðum í húsinu.

Hér bættust þau yngri í hópinn, hér voru þau skírð og tóku fyrstu skrefin sín.

Hér lærðu þau stóru að lesa, hvernig maður er góður vinur og hvað skiptir máli.

Hér hefur fjölskyldan elskað, hlegið, dansað og greinilega tapað líka.

Þessa daga er steypuhjallurinn heimili!


Stund minninganna

Eftir nokkar mínútur er ár síðan við eignuðumst Snædísi Tinnu.  Hvað tíminn líður hratt!  Og hve margt hefur breyst.

Þið þekkið þetta eflaust.  Þekkið hvernig maður fer í huganum aftur um þetta eina ár, lifir aftur kraftaverkadaginn.

Lítur á klukkuna og man hvar maður var staddur í ferlinu.

Upplifir aftur í huganum einstaka stund.

Hef allt þetta ár verið meyr yfir áföngum í lífi litlu konunnar.  Því þó þeir marki upphaf, marka þeir einnig endalok.

Endalok ákveðins kafla í mínu lífi.

Allt sem gerist í fyrsta skipti hjá henni, gerist í síðasta skipti hjá mér.

Síðasta fyrsta brosið, síðustu fyrstu skrefin, síðasta skipti sem einhver segir í fyrsta skipti mamma.

Á morgun höldum við upp á síðasta fyrsta afmælisdaginn.


kafað ofan í kok

Fór með ¾ barna í sund í kvöld í yndislegu veðri.  Jafnast fátt á við að sitja í fimbulkulda í heitum potti í faðmi barnanna.

Finnst alltaf jafn töfrandi að fara í sund á vetrarkvöldum.  Rómantískt jafnvel.

Og það fannst parinu við hliðina á okkur líka.  Var varla komið ofan í fyrr en hún sest klofvega ofan á hann og þau taka til við laugarmetið í keleríi.

Því miður ekki í fyrsta skipti sem við verðum vitni að svona löguðu og skiptir þá engu hvort um sé að ræða dag eða kvöld, Ísland eða sólarströnd.

Myndi fólk undir einhverju öðrum kringumstæðum gera þetta?  Hefði hún sest ofan á hann og sleikt hann að innan í afgreiðslunni?

Það er staður og stund fyrir allt.

Það er enginn svo yfirkominn af tilfinningum að hann geti ekki hamið sig innan um annað fólk.  Svo ég tali nú ekki um börn.

Ef þetta væri í lagi þá gerðu þetta fleiri.

 

Lagt til hliðar

Bryndís (9) fór að segja mér í gær hvað vinkonur hennar ættu mikinn pening.

Ein ætti xxx þúsund, ein xxx þúsund og ein xxx þúsund.  Útskýrði svo fyrir mér að foreldrar þeirra legðu mánaðarlega inn á reikning fyrir þær eða hefðu læst einhverja upphæð inn á bók til 18 ára aldurs.

Allt hennar fas gaf til kynna hve miklar fréttir hún væri að segja mér og hvað henni finndist þessir foreldrar sniðugir.

Mikið var ég fegin að við ákváðum á sínum tíma að segja börnunum okkar ekki að við legðum mánaðarlega peninga til hliðar í þeirra nafni.

Veit ekki alveg hvernig ég hefði útskýrt að fyrst hefði Peningamarkaðssjóðurinn tekið 30% og við síðan notað restina í mat og reikninga.

 

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband