Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Engill í mjög svo skemmtilegri mannsmynd

Oft heyrt að innan um okkur venjulega fólkið gangi englar í mannsmynd.  Aldrei velt því sérstaklega fyrir mér enda aldrei hitt neinn fyrr en í dag.

Hefði auðvitað átt að vera búin að átta mig á þessu fyrir löngu.  Þótt ekki væri nema fyrir himneskan húmorinn.

Vildi gefa okkur flís.  Flís sem í okkar augum er bjálki.

Við erum orðlaus. Vissum ekki að við ættum sérstakan stað í hjarta hennar en þar þarf greinilega ekki sérstakan stað.  Hennar stóra hjarta rúmar alla.

Hrædd um að ég hafi ekki þakkað henni nógsamlega.

Í fyrsta skipti í margar vikur hlakkaði ég til að fara út í búð.  Laus við helluna yfir brjóstinu.

Á leiðinni úr búðinni skáluðum við Snorri(3) fyrir góðu fólki sem af kærleika gefur með sér.

Í svala.  Hann appelsínu, ég epla.

 

Kreppunni gefið langt nef

Jól fjölskyldunnar voru fullkomnlega frábær.  Fyrstu jól Snædísar Tinnu ( 9 mán.) og eiginlega Snorra (3) líka.  Fyrstu jólin þar sem hann skildi allt, tók fullan þátt í öllu og smitaði þar af leiðandi alla af bullandi jólagleði.

 

Ég fór í jólaköttinn en er samt hér enn.  Annað hvort er ég því farin að þrána eða málið er að ef maður kaupir sér ógeðslega dýran kjól á árinu dugir það til að halda dýrinu frá.

 

Verslunarferðin sem farin var áður en tilveran fór á hvolf bjargaði svo börnunum frá kettinum og gjafaflóðinu.  Góssið hafði beðið í nokkra mánuði stillt í töskunum og bar góðan keim af góðærinu.

 

Sem við vorum ofsalega fegin.  Það hefur það mikið í lífi Bryndísar Ingu (9) og Bjarna Björgvins (7) breyst að það var gott að upplifa dag þar sem allt var eins og það var vant að vera.  Þau eru því miður farin að taka vel eftir að hlutirnir eru langt í frá eins og þeir voru og tala um hvað þau langar að gera þegar kreppan er búin eða næst þegar við eigum pening.  Láta okkur svo fá það óþvegið þegar við sínum álíka óráðsíu eins og stinga upp á að fara að gefa öndunum brauð.  Skilja ekkert í okkur að láta okkur detta til hugar að henda mat út í tjörn.

 

Það eina sem bar vott um breyttar aðstæður var jólamaturinn.  Kannski vorum við þau einu sem lentum í þessu og ég vona það.  Vínberin voru gul og lin, kartöflurnar trénaðar og fóru í mauk við skrælingu, eplin brún að innan eða urðu það á meðan þau biðu eftir að komast í salatið.  Við höfum venjulega keypt Nóatúnhamborgarhrygg en núna gripum við Ali hamborgarhrygg á 30% afslætti í Bónus.  Ekkert á pakkningunni benti til að við værum að kaupa ógeðslegt kjöt.  En við hefðum auðvitað átt að segja okkur það sjálf að það er ekkert gefins.  Síst af öllu jólasteik.

 

Fyrsta skipti sem afgangar eru ekki borðaðir í hádeginu á jóladag heldur hent út í garð fyrir krumma.

 

Las um daginn að verðbólga mældist 18%.  Miðað við hvað vörugæði hafa breyst er maður að kaupa mun verri vöru á mun hærra verði og því hlýtur verðbólgan að vera í raun mun meiri.

 

Að lokum langar okkur að benda þeim, sem ekki tóku eftir, á atvinnuauglýsingasíðuna í Fréttablaðinu í morgun.  Auðvitað eru jól og lítið um að vera en það er ein auglýsing á einni síðu. EIN.


Gleðileg jól!

IMG_9241 jólakort 2008

 Kæru vinir gleðileg jól og farsælt komandi ár.

Takk fyrir samveruna á árinu.


Lögregluheimsókn

Á þessum árstíma hefur dyrabjallan venjulega varla stoppað fyrir jólagjafasendingum frá hinum ýmsu fyrirtækjum sem Árni hefur verið í viðskiptum við.

Vínflöskur, flugustangir, flísteppi, konfekt og ostakörfur.

En nú sendir enginn neitt.  Nokkurs konar staðfesting á því að Árni er úr leik.

En í gær var loks dinglað.  Árni spenntist upp og flýtti sér eins og lítið jólabarn að hurðinni.

Þegar hann opnar fyllist húsið af himnesku ljósi. En er við náum loks í lotningu að bera hönd fyrir augu áttum við okkur á að hvorki er kominn heilagur andi né englakór í hans nafni.

Fyrir utan stendur lögreglan í fullum skrúða.

Er ekki nóg að þeir séu búnir að taka fyrirtækið, bílinn og símann?  Þarf líka að taka Árna upp í skuld?

Svona rétt fyrir jólin?

Ég geri mér grein fyrir að æsku barna minna er lokið.  Ekkert barn getur jafnað sig á að sjá föður sinn leiddann burt í járnum á Þorláksmessu.

En í því biður lögreglumaðurinn um Bjarna Björgvin(7).

Veit ekki hvort það var flóðlýsingin frá lögreglubílnum eða sjokkið yfir að Árni væri farinn upp í skuld sem létu mig kalla á Bjarna án þess að spyrja neins.

Hann kemur valhoppandi þessi elska, eins hjartahreinn og hugsast getur.

Og vondi maðurinn, sem var kominn til að rústa fjölskyldunni í laganna nafni, réttir honum pakka og óskar honum til hamingju.

Bjarni hafði unnið verðlaun í jólagetraun lögreglunnar.


Lumma, lumma, lumm.

Fjöldi óska hefur borist um að birta norsku lummuuppskriftina í stað þess að lúra á henni eins og gulli.

Erfitt hefur reynst að finna almennilega lummuuppskrift og það þrátt fyrir leit á helstu leitarvélum.

Þessi uppskrift barst til landsins með Eidefólkinu en er endurbætt af ömmu minni.

Þar sem Árni er ennþá sofandi og ég kann ekkert á Excel verður þetta sett upp í WORD.

Lummur.

1/2 kg. Hveiti

2 tsk. Lyftiduft

1/2 tsk. Hjartarsalt

100 g sykur

3/4-1 L mjólk

1 egg

Tólg eða pönnufeiti. ( hér gefur höfundur leyfi til að taka mið af nútímanum og nota ólífuolíu.)

Hjartarsaltinu, lyftiduftinu og sykrinum blandað saman við hveitið.  Vætt í með mjólkinni, egginu bætt úti og hrært vel.  Látið með skeið á heita fituga pönnu og bakað þar til gyllt.

Við borðum þetta svo með sykri eða smjöri og sírópi.


Persónuleikaruglingur?

Árni hefur verið óskipulagði aðilinn í sambandinu.  Hlutirnir oftast bara gerðir eftir hendinni.  Oft með tilheyrandi pirringi frú fullkomnunaráráttu.

Ekki lengur.  Ég fékk eftirfarandi innkaupalista afhentan í dag.  

 

 Jólainnkaup 2008
    
 Niðursuðuvörur  
 Maís4Dósir
 Rauðkál2Dósir
 Grænar baunir3Dósir
    
 Grænmetiskælir  
 Kartöflur4kg
 Laukur6stk
 Sellerí1stk
 Epli rauð6stk
 Vínber græn1poki
 Egg1pakki
    
 Mjólkurkælir  
 Rjómi2Lítrar
 Sýrður rjómi4stk
 Skinka1pakki
 Mjólk4Fernur
    
 Gos og nammi  
 Coke Zero24Lítrar
 Appelsín8Lítrar
 Malt9Lítrar
 Nammi  
 Snakk  
    
 Bökunarvörur  
 Piparkorn svört1stk
 Rifsberjahlaup1krukka
 Pönnukökusíróp2flöskur
 Saxaðar möndlur200gr
 Möndlur1poki
 Suðusúkkulaði1pakki
    
 Annað  
 Cocoa puffs2kassar
 Ís2Lítrar
 Íssósa1stk
 Örbylgjupopp2kassar
 Instant Pasta4stk
 Kirsuberjasósa  
 Rauðvín  
 

Möndlugjöf

 
  
 Hef aldrei á ævi minni séð jafnfullkominn innkaupalista.

Ekki aðeins er hann settur upp í Excel, heldur vörum raðað eftir flokkum og staðsetningu í búð.  Einnig er tekið fram í hvaða formi varan á að vera svo maður kaupi nú ekki óvart suðusúkkulaði í flösku eða egg í poka.

Er það þetta sem gerist þegar fólk er búið að vera saman of lengi?  Blandast persónuleikar fólks?  Með skelfilegum afleiðingum?

En hvað segir það um mig að mig dauðlangar að benda honum á að það sé venjulega settur punktur á eftir skammstöfunum?

Við verðum að fara að finna okkur eitthvað að gera!    

 


Sóðasveinki

Bryndís er brjáluð.

 

Börnin gáfu Skyrgámi að venju skyr í nótt, enda sveinninn kominn langt að og svangur.

 

Og líkt og áður sóðaði hann allt út, gluggana, skóna og kinnina á Snorra.

 

En Bryndís kann ekki lengur að meta svona sóðaskap.  Enda orðin eldri og veit hvaða vinna liggur að baki hreinu herbergi.

 

Sver er hún gefur sóðanum ekki skyr að ári.


Bjargað fyrir horn

Í nóvember tókum við ákvörðun um að segja upp skólamatnum.  Safnast þegar saman kemur og þótt þetta sé niðurgreitt þá er þetta þó dýrara að senda börnin með nesti.  Enda betri matur.

En næringarsjónarmið fara því miður forgörðum þegar telja þarf krónurnar.

Í gær beygði Bryndís af.  Á matseðli dagsins í dag er nefnilega jólamatur með öllu tilheyrandi.  Jólastemning hjá öllum skólafélögunum.

Varla hægt að sitja hjá með ómerkilegt nesti.

Á nokkrum sekúndum tókst okkur að finna heimasíma framkvæmdastjóra skólamatar.is og hringdum í hana.  Á matartíma.  Venjulega mjög dónalegt en í þessu tilfelli frekar kostulegt.

Hún tók beiðni okkar afskaplega vel.

Tvö glöð börn fóru því full tilhlökkunnar í skólann í morgun.

Fundinn!

Snillingurinn sem ég leitaði að um daginn sást síðast í Póllandi 24.ágúst.

http://www.youtube.com/watch?v=pNqmZKTnFlk&feature=related 

Á þessu pólska melodífestivali má einnig sjá nákvæmar eftirlíkingar af skvísunum hans Roberts Palmers í Addicted to love.  Hver hafði hugmynd um að þær væru enn töff?

Fyrirgefið mér, ég bara varð að finna hann.

Man vel eftir myndbandinu og skrítið að nú er líf mitt nánast eins og söguhetjunnar. Fyrir utan að maðurinn hennar er með vinnu.

http://www.youtube.com/watch?v=dvJbUykTchc

 

Jernbindere í Norge eller armerere í Sverige?

Árni er byrjaður að leita sér að vinnu úti.

Horfir hýru auga til Svíþjóðar og Noregs en helst langar hann að við flytjum til Chile.

Svo mikill er áhuginn að hann er bæði búinn að ná í fæðingarvottorð barnanna á spænsku og redda mér vinnu hjá Chile Air.

Gamlir vinir hans frá skiptinemaárunum eru boðnir og búnir að hjálpa flóttafólkinu og eru m.a.s búnir að heimsækja áhugaverðan kaþólskan skóla í Árnanafni.

Ég kafna við tilhugsunina.  Bæði úr hlátri, því ég get ekki ímyndað mér að bjóða farþega velkomna um borð í Tjillí Air en einnig af kvíða.  Sé ekki fyrir mér að standa ein í þessu lengst út í buska.

En Árni segir að við stöndum hvort eð er ein í þessu hér heima.  Og það er mikið til í því.  Hér lemja engir afar og ömmur á hurðina og við erum nánast í afmælissambandi við systkini Árna.  Systir mín býr af einhverjum ástæðum í Svíþjóð og bróðir minn býr samkvæmt Facebook í Los Angeles.  Sem gæti allt eins verið satt miðað við hvað við sjáum af honum.

Svona er þetta auðvitað hjá flestum.  Það hafa allir nóg með sitt.

En kannski er vissan um að við gætum leitað til þeirra nóg.  Nóg til þess að það hljómar mun betur í mínum eyrum að hann fari einn.  Þrátt fyrir að það væri ömurlegt.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband