Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Dansað eftir bók

Ég á í ástar/haturssambandi við bókasöfn. Ég elska að fara með börnin mín í barnadeildina, eiga þar góða stund, fletta bókum og taka þær bestu heim.

En ég hata bókasöfn þegar ég þarf að finna efni fyrir mig.  Þær bækur sem ég hef tilefni til að leita að eru nefnilega ALDREI inni.  Bækur út um allt, í réttri röð, í réttri hillu.  Nema þær sem mig vantar!

Og þar sem ég er mjög dugleg við að telja mér trú um einhver ástæða sé fyrir því að akkúrat mínar bækur eru ekki inni kemst ég fljótt að þeirri niðurstöðu að ekki aðeins séu bækurnar á rangri hillu, heldur líka ég.

Röng manneskja á röngum stað í röngu námi leitandi að rangri bók.

Fór á bókasafnið í dag og það var sama sagan, bók sem sannarlega var merkt í Gegni “í hillu” var auðvitað ekkert í hillu.

Yfir mig heltist venjubundinn efi og vanmáttur.  Ég á ekki heima á bókasafninu, bókasafn er fyrir aðra gerð af fólki, fólki sem veit að hverju það leitar, og hvar það finnur það.  Fólk sem bækurnar bíða eftir “í hillu”.

Á leiðinni út rak ég augun í svarið.  Ég á ekki heima á bókasafninu.  Ég á gjörsamlega ekkert sameiginlegt með fólki sem sækir slíkan stað.

Ég á ekkert sameiginlegt með fólki sem heldur að það geti lært magadans af bókinni “How to Bellydance”


Litningalottóið

Ég er brennimerkt pabba mínum.  Við erum það lík að það fer ekki á milli mála, þekki fólk pabba á annað borð, hvers dóttir ég er.

 

Sumir spyrja hvort ég sé Bjarnadóttir, aðrir spyrja beint út í fréttir af pabba og enn aðrir kynna sig bara og biðja fyrir kveðju heim.

 

Fyrst var ég voða upptekin af því að spyrja hvernig fólk kveikti en þá var yfirleitt horft góðlátlega á mig og sagt:” ÞIÐ ERUÐ ALVEG EINS!”

Ég er hætt að spyrja.  Nenni ekki að heyra það einu sinni enn að ég líti út eins og 63 ára gamall karl.


Brotið á Árna

Við Bryndís (9) fórum í IKEA í gær að kaupa jólapappír utan um gjafirnar til Svíþjóðarfólksins.

 

Skrítið að kaupa sænskan jólapappír til að senda til Svíþjóðar.

 

Maturinn er kominn á borðið þegar við komum heim.  Eftir matinn fer Árni út með ruslið en þegar hann kemur inn aftur heyrist lítill smellur.  Lítill smellur sem verður samt svo risastór-vegna afleiðinganna.

 

Getum enn heyrt hann í huganum.

 

Hann og niðurbældar stunurnar í Árna sem tókst einstaklega vel upp með að bíta á jaxlinn.

   

Ýmsir aðilar í þjóðfélaginu hafa undanfarið skorast undan ábyrgð á gjörðum sínum.

 

En ekki ég.

 

Ég viðurkenni það.

 

Ég henti kæruleysislega frá mér sænska jólapappírnum í forstofunni.

 

Ég braut á rétti Árna til að ganga hindrunarlaust um heimili sitt.

 

Ég braut á Árna litlu tána.


Nám er vinna

Skrítið hvernig hlutirnir þróast.  Mig hefur langað í nám í mörg ár.  Fann aldrei neitt sem mig langaði að læra en ákvað á endanum að drífa mig bara samt.

 

Ætlaði að taka þetta bara rólega, sjá hvernig gengi.  En allt í einu er námsmaðurinn undir gífurlegri pressu sem eina fyrirvinna heimilisins.  Skiptir öllu máli að ná til að fá námslánin.

 

Samkvæmt framfærslutöflu miðað við 3 börn, ekki er gert ráð fyrir að námsmenn eigi 4 börn, ættum við að fá 800000 í lán fyrir haustönnina, sem er frábært.  Þori varla að trúa því ennþá, enda ekki búið að afgreiða lánið og ekki búið að ná prófunum.

 

En það myndi hjálpa heilmikið til.

 

Árni er kominn með vinnu við 2 hús eftir áramót.  Frábært og æðislegt en virkar frekar ósennilegt að af verði ekki satt?  En við vonum það besta.

 

Bryndís (9) er búin að vera hvumpinn upp á síðkastið.  Fyrst velti ég fyrir mér hvort hún væri að ganga inn í gelgjuna alltof snemma en svo finnst mér líklegra að ástandið sé að ná til hennar.  Við höfum auðvitað reynt að hlífa þeim við þessu öllu en hún hefur alltaf verið ótrúlega dugleg í að lesa í líðan okkar og ósögð orð.

 

Auðvitað verður hún vör við breytingu þótt við látum eins og allt sé í himnalagi.  Er ekkert vön því að pabbi hennar sé heima allan daginn og getur alveg sagt sér sjálf að ef hann er ekki í vinnu fær hann engin laun.

 

Eins líka hlýtur að hafa áhrif að ef hún stingur upp á einhverju sem kostar peninga er svarið alltaf nei.  Ekki nei ekki núna eða nei seinna.  Bara NEI.  Og þótt mig langi ekki að viðurkenna það fylgir svarinu eflaust einhver tilfinning, eitthvað vonleysi, einhver leiði sem er óvenjulegur og hún áttar sig á.

 

Spurning um að taka upp á því á gamals aldri að lofa upp í ermina á sér, ýta hlutunum á undan sér og vona að uppástungurnar gleymist.

 

Takk annars öll fyrir að lesa okkur og kvitta, gott að fá kveðjur frá ykkur öllum.

  

 


Með rass-báðum megin!

Við erum búin að hlæja svo mikið upp á síðkastið.  Hlæja að þessum gullmolum sem börnin manns sleppa út þegar minnst varir.

 

Ákvað að deila þessu með ykkur svo þið getið líka hlegið, þótt ekki væri nema að því hvað börnin okkar eru vitlaus.

 

Bjarni (7) kom heim úr skólanum áðan og sagðist vera hálfviti.  Hvers vegna? Jú ef maður er Alvitur þá er maður Alviti og hann veit u.þ.b. helminginn að því sem hægt er að vita í heiminum og er því Hálfviti.

 

Spurður að því hvort hann sé viss um að hann viti helminginn taldi hann upp að í Kína væru nokkrir á klósettinu, í Bandaríkjunum væru hermenn að fá sér bjór, í Ástralíu væri fólk sofandi........og svona hélt þetta lengi áfram.  Líklega þar til hann hafði sannfært mig um að hann væri Hálfviti.

 

Var nú ansi nálægt hefðbundinni skilgreiningu á orðinu þegar við tókum út smákökurnar um helgina og spurði hvort hann mætti fá sér eina.  Hann var beðinn um að bíða því þær væru of heitar en hann kunni nú ráð við því.

 

Hann setti á sig ofnhanskana!

 

Umhugsunartíminn eftir að hann var spurður hvort hann héldi ekki að hann brenndi sig í munninum var ca. 3 sekúndum of langur. 

Hann er mjög áhugasamur um skólagöngu móður sinnar og finnst hún dugleg.  Kom að mér um daginn þar sem las í lesHEFTINU í Þroskasálfræðinni.  Spurði svo seinna hvort ég væri enn að lesa í Þroskaheftinu.

 

Við Snorri (3) fórum svo í sund í gær og í sturtunni er hann eitthvað meira hugsi en venjulega.  Enda kom spurningin:„Hvað gerðir þú við tippið þitt mamma?”

 

Eftir hefðbundna útskýringu og upprifjun á líkamspörtum stelpna og stráka var hann enn hugsi.  Gengur hringinn í kring, skoðar og skoðar og úrskurðar svo:

 

„þú ert bara með rass……..báðum megin!”

  

Meira en að segja upp Stöð 2

Við veltum því oft fyrir okkur hversu slæm kreppan verði, hversu mikil áhrif hún komi til með að hafa á okkur og hversu lengi.

 

Talað er um að þetta sé mesta efnahagslægð síðan í kreppunni miklu 1930.  Þá stóð fólk í röðum eftir mat og atvinnuleysi var gífurlegt.  Nú þegar hafa fjölmargir misst vinnuna og útlit fyrir að mun fleiri fylgi á eftir en einhvern veginn getum við ekki í myndað okkur að almenningur á Íslandi komi til með að standa í röð eftir mat þótt það sé auðvitað raunveruleiki fólks á alltof mörgum stöðum í heiminum.

 

Hér á Íslandi hljóta að vera til úrræði til að koma í veg fyrir að fólk svelti.

 

Fyrirséður er vöruskortur en við veltum fyrir okkur hvar línan liggur?

 

Hvað þýðir djúp efnahagskreppa í nútímasamfélagi?  Hvað kemur illa við fólk í dag? Hvers getum við ekki verið án?

 

Heimurinn hefur breyst svo mikið að í dag eru hlutir sem raunverulega flokkast undir lúxusvöru nauðsynjavara.  Flestir fara ekki fet án farsímans, berjast þarf við fráhvarfseinkenni þegar tölvan bilar og strætó er tekinn til að gera eitthvað öðruvísi með krökkunum.  Á þessu heimili er iðulega keyrt sérstaklega út í sjoppu ef gleymst hefur að kaupa Diet Coke!  Enda ekki sjens að lifa kvöldið af án þess.

 

Við erum af þeirri kynslóð þar sem allir eiga allt sem þeir mögulega þurfa og miklu meira en það.  Við vitum ekki hvað skortur er.

 

Hvað kemur til með að standa í sögubókum framtíðarinnar?

 

Var vöruskortur það mikill í landinu að fólk neyddist til að þrífa klósettið án niðursturtanlegu Harpic-klútanna!”

 

Eða kemur fólk til með að standa í röð eftir einhverju sem skiptir meira máli?

 

Undanfarin ár höfum við og vinir okkar stækkað við okkur húsnæði og hlaðið niður börnum.  Við höfum lifað tímabil þar sem sýna þarf forsjá og fyrirhyggju.  En fólk hefur haft það mikið á milli handanna að sparsemin náði varla mikið lengra en að segja upp stöð 2 og mogganum.  Ónotaða líkamsræktarkortið hélt áfram að tikka og heimilisfólk fann lítinn mun.  Þannig.

 

En nú þarf að ganga lengra en áður.

 

Við erum búin að skera niður allt sem hægt er en það dugir ekki til.

 

Lítur allt út fyrir að börnin okkar fari á mis við meira en Sveppa á morgnana um helgar.

 

Góð kona benti mér á að hafa samband við Hönd í hönd.  Mér fannst lítið mál að hringja þangað, bara svona til að tékka á hlutunum.  Hitti á vinalegan mann sem andvarpaði bara yfir stöðu hringjandans.  Skrítið hvað ástandið á okkur varð raunverulegra við að draga það saman fyrir mann út í bæ.

 

Hann benti mér á að hafa samband við Félagsþjónustu Kópavogs.

 

Fyrstu viðbrögð voru auðvitað bara djöfuls rugl er þetta í manninum!  Neikvæðnin streymdi fram.  Var maðurinn að grínast, það er bara fólk í vandræðum sem leitar til féló!  Við erum ekki þannig fólk!

 

En við erum það bara víst!  Við erum fólk í vandræðum.

 

Og ef takmarkið er að börnin okkar verði lítið sem ekkert vör við ástandið, þá erum við fólk sem leitar til Féló.

 

Það þarf líka að skera niður stoltið.

 

Ég tók því á mig rögg og hringdi í Féló.

Úr farsímanum.

 


Verslað í heimabyggð, rétt fyrir utan bæinn

Það er bannað að skoða nema þú kaupir

Ha já

Ætlarðu að fá spilin?  þau kosta 750

Nei var bara að skoða

Ætlaðir þú að fá venjuleg spil?

Nei nei

Rasp 99 kr?

Nei takk, bara mjólk

Hefurðu komið hingað áður?

Nei aldrei

Hvernig líst þér á búðina?

Vel, fín búð

Þá skaltu láta vita, hrósa skal líkt og lasta

 

Búðin var næstum farin á hausinn um daginn

Er það mér að kenna?

Ég hef ekki séð þig hérna áður

Nei það er rétt

Ég er ekki með númerið

Hvaða númer?

númerið til að hringja í til að hrósa

ég hlýt að finna út úr því

viltu miðann?

Nei takk

 

Hann krumpar miðann saman.  Harkalega.

 

má ég fá að sjá peninginn?

Ég vann í sjoppu með menntó.  Iðulega komu þar inn lítil sæt kríli sem horfðu stórum augum á allt góðgætið.

 

Sum þorðu að tala meðan önnur bara bentu.

 

En öll langaði í.

 

Eitt lítið kríli benti og benti og ég tróð og tróð  í poka.  Lagði og lagði saman í hausnum, tveir hlaupkallar, tvær gúmmisnuddur, 3 sleikjóar.

 

Þegar krílinu fannst komið nóg og bar sig eftir pokanum kom í ljós að það hafði ekki hugmynd um eðlilega verslunarhætti.

 

Góndi bara á þessa konu sem sleppti ekki pokanum.

 

Var auðvitað ekki með pening.  Vissi varla hvað það var.

 

Þetta gerðist bara einu sinni.  Eftir þetta spurði ég alltaf: “ má ég fá að sjá peninginn?” áður en ég byrjaði að telja í pokann.

 

Árni, í sjálfspíningarkasti, sendi fyrirspurn á kínverskt fyrirtæki um verð á járnavélum. 

 

Svarið kom um hæl.  Stutt lýsing á vélununum, verðupplýsingar og eitthvað vesen með EC merkingu.

 

Svo stóð:  “No offense, but due to the economy situation in Iceland, can we deal by T/T (wire transfer) instead of L/C?  30% down payment and remaining balance before shipment all by wire transfers, can yo accept our payment term?”

 

Má ég fá að sjá peninginn?


t.d í júní

Úr fréttablaðinu 11.nóv. ‘08

 

EFNAHAGSMÁL Nokkur áhætta er

fólgin í því að frysta afborganir

af erlendum íbúðalánum strax,

enda ekki hægt að útiloka að

krónan verði enn veikari en hún

er nú þegar frystingu lýkur.

Algengt er að frysting gildi í

fjóra mánuði. Útfærslan er

misjöfn milli banka. „Þetta er

viss áhætta,“ segir Edda Rós

Karlsdóttir, hagfræðingur hjá

Landsbankanum. „En mikilvægast

er að þeir sem taka ákvörðun

um að frysta lán haldi áfram að

leggja til hliðar sem nemur

afborgun af láninu, til dæmis í

júní, þegar ástandið á gjaldmiðlinum

var eðlilegra.“ –

 

Gott að það er einhver sem bendir fólki á að sýna nú smá fyrirhyggju og leggja til hliðar sem nemur afborgun af láninu, til dæmis í júní.

 

Gott að það er einhver sem bendir fólki á að eyða ekki öllu í sjálft sig heldur leggja til hliðar sem nemur afborgun af láninu, til dæmis í júní.

 

Gott að það er einhver sem bendir fólki á að það er ekki viturlegt að taka áhættu með peninga heldur leggja til hliðar sem nemur afborgun af láninu, til dæmis í júní.

 

Við þurfum að frysta okkar lán af einni ástæðu aðeins.  Við sjáum ekki fram á að eiga fyrir þeim.

 

Þótt það sé í júní.

 


Laus allan daginn

Ég röfla oft.  Of oft auðvitað.

En nota það því það virkar. 

Hef í gegnum árin röflað reglulega undan draslinu í bílskúrnum.  Röflið beinist að Árna því einhvern veginn hefur það lent á honum að sjá um hann.

Í dag þurfti ég ekkert að röfla.  Hann fór bara út í bílskúr og tók til.

Því í dag hafði hann ekkert betra að gera.

Eitthvað segir mér að jólaljósin sem aldrei komust út í fyrra sökum anna, verði með þeim fyrstu til að lýsa upp hverfið í ár.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband