Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Að stela öskudeginum

Fjölskyldan brá sér úr bænum síðustu helgi.  Yfirlýstar ástæður voru vetrarfrí barnanna og þörf fyrir tilbreytingu.  Dulda ástæðan var sú að hafa öskudaginn af börnunum.  Ekki það þetta er frábær dagur í alla staði þegar börnin eru í leikskóla en þetta vesen með að ganga á milli staða til að betla nammi finnst mér hinn mesti ósiður.  Finn svo til með þessu eftirvæntingafullu greyjum, lufsast um í hvaða veðri sem er og við misjafnar undirtektir.

Svo er ástæðan líka e.t.v sú að ég hef staðað á bak við búðarborðið í sjoppu á öskudegi og það er eitthvað sem ég óska engum og fæ mig því ekki til að gera neinum.  Meðvirkni-já mætti segja mér það.

En það kemur í hausinn á manni að vera svona ófyrirleitinn.  Heiti potturinn virkaði ekki, uppþvottavélin dó, Bjarni (8) var veikur nánast allan tímann og svo veiktist Snædís Tinna (1).

Eftir tvær andvökunætur lögðum við mæðgur land undir fót og keyrðum í næsta bæjarfélag.  Skautandi í glerhálku á okkar annars yndislega SUV sem ég hef aldrei náð hvað þýðir en áttaði mig á í þessari ferð að þýddi Senn Utan Vegs og símalausar þar sem síminn gafst upp eftir hálftíma.

Á svipuðum stað þar sem maður getur nánast valið um út í hvaða á maður vill renna.

Á undan okkur inn á heilsugæslustöðina rúlluðu svo sjúkraflutingamenn börum með slösuðum manni sem hafði farið út af á svipuðum slóðum og leið okkar lá.

Ég var í svo miklu uppnámi yfir að þurfa að leggja í heimferðina við sömu aðstæður að samtal mitt við lækninn var súrrealískt.  Hann spyr hvað barnið hafi verið með mikinn hita um morguninn og ég svara að ég hafi ekki mælt hana heldur rokið af stað.  Hann spyr þá hvernig ég viti að hún hafi verið með hita!  Skellir svo mæli í eyrað á henni og fær út að ekki aðeins sé hún hitalaus heldur nánast með köldu barasta.

Þar með var málið afgreitt.  Enginn hiti kom fram á mælum og þar með amaði ekkert að barninu.  Við höfum lagt í þessa hættuför til einskis.

Ég kom því ekkert að að ég hefði gefið henni stíl áður en við lögðum af stað, að hún hefði verið brennandi heit, glaseygð og grátið nánast stanslaust.

Ekki laust við að mig langaði bara að keyra heim í stað þess að keyra aftur í bústaðinn-segja þeim hinum bara að taka rútuna heim.  Þessa sem kemur í sumar.

En þetta fær maður fyrir að reyna að ræna börnin öskudeginum.

Enda vorum við með svo mikið samviskubit að við keyptum alltof mikið nammi í Bónus á leiðinni heim, skelltum þeim í búninga og máluðum þau í framan.

Gott ef við erum svo ekki með hugmyndir um að opna sjoppu fyrir næsta öskudag.

 

 


Árni á leið í fimleika

Árni fékk tímabundna vinnu í dag.  Leysir af rekstrarstjóra Gerplu fimleikafélags í tvo mánuði.

Óborganlegur svipurinn á krökkunum þegar við sögðum þeim að pabbi þeirra væri að fara að vinna í Gerplu.  Voru virkilega hissa á að einhverjum dytti til hugar að ráða pabba þeirra sem fimleikaþjálfara, sérstaklega eftir að hann svo eftirminnilega ristarbraut sig á jólasýningu félagsins um árið.

Við erum ótrúlega ánægð og glöð með þetta og erum félaginu óendanlega þakklát fyrir að hugsa til okkar.

 


Hinn hinn skemmtilegi!

Mamma, hinn er skemmtilegur!

Hinn hver?

Hann hinn!

Hvaða hinn?

Ekki hinn heldur hinn heldur hinn heldur hinn heldur HINN.  Hann er skemmtilegur!!!

Á morgun er hinn hjá fjölskyldunni, en meira um það á morgun.


Fryst fyrir finna.

Fjölskyldan fékk fréttamann frá finnska sjónvarpinu í heimsókn í gær.  Hvers vegna?  Jú ef maður byrjar að barma sér í sjónvarpi virðist það vinda upp á sig.

Karrí þessi vinnur fyrir sjónvarpsstöðina MTV3 (nei ekki þá MTV) og fer á öll helstu stríðs-og hamfarasvæðin.  Afganistan, Gazaströndina, Vatnsendablettinn.

Viðtalið fór fram á ensku og gekk vel.  Enskan varð mitt móðurmál allt þar til ég var orðin of örugg, talaði of hratt og fór allt í einu að útskýra lánafrystingu!  Heilinn bremsaði en á meðan hann hugsaði hvernig í ósköpunum lánafrysting væri á ensku heyrði ég sjálfa mig segja:” freezing the loans!”  og bætti svo við hinu íslenska alútskýrandi:”you know.”

Greinilegt var að þetta átti að vera dramatískt innslag um ástandið á Íslandi.  Hann stökk út í slagviðrið og tók myndir af fjölskyldunni drekkandi djús, inn um skítugar rigningarrúðurnar.  Myndaði Amazonfljótið sem rennur hér á milli hálfkláraðra lóðanna og kórónaði svo meistaraverkið með því að taka upp hvininn í vindinum.

Svo settumst við á gólfið og púsluðum saman, svona eins og íslenskar fjölskyldur gera svo mikið.  Bryndís Inga teygði sig eftir púsli inn í skáp og það var auðvitað engin tilviljun að það var púsl af Íslandi, reyndar Larsengerð, framleitt í Noregi.

Er hægt að hafa þetta meira Hollywood?  Þarna situr á gólfinu tæknilega gjaldþrota fjölskyldan flötum beinum og raðar saman litlum brotum af Íslandi.

Karrí kallinn féll í sömu gildru og (jón s.) um daginn og dáðist að ikealjósunum, sérstaklega auðvitað eldhúsljósinu sem hann taldi vera hið sanna Le Klint.  Ljósrofarnir urðu þó ekki tilefni umræðna að þessu sinni enda maðurinn á staðnum og gat því greint á milli plasts og glers.

Merkilegt að hitta mann sem hefur farið svo víða og við spurðum hann spjörunum úr.  Hann og sérlega skemmtileg aðstoðarkona hans enduðu líka á að eyða hér hálfum deginum.

Kreppan hefur þó að minnsta kosti gefið okkur frábæran dag og viðkynningu við skemmtilegt fólk sem ekkert erindi átti við mann áður.

 

Sóttkví

Ef við fylgdumst almennt ekki með tímanum, dögunum eða mánuðunum gætum við samt ár hvert auðveldlega sagt okkur að það væri febrúar.

Febrúar er veikindamánuðurinn.  Mánuðurinn þar sem börnin hvert á eftir öðru falla fyrir því sem gengur þá stundina.

3/4 eru nú annað hvort veik eða að stíga upp úr veikindum og 3 gerðir að lyfjum í gangi sem eykur flækjustig heimilisins, sem almennt er frekar hátt.  Enda stakk Árni snuði upp í Bryndísi Ingu (9) í gær.

Við hin eldri stöndum pestirnar yfirleitt af okkur en  nú erum við bæði komin með í magann.

En bara yfir náminu.  Stór verkefni framundan sem lítill tími hefur gefist til að sinna meðfram venjulegum lestri, verkefnavinnu, heimilishaldi og veikindum barna.

Hef aldrei áður stundað nám fyrir peninga.

Eykur pressuna og pínuna til muna.

 

Endalok sýndarheimsins?

Fórum í gærkvöldi í mjög ánægjulegt matarboð.

Sérstaklega ánægjulegt því þótt aðstæður gesta væru mjög misjafnar, ræddu þeir stöðu sína hispurslaust.  Enginn talaði stöðu sína upp og raunar ekki niður heldur.

Spurning hvort við höfum upplifað heimsenda.  Hvort tími sýndarheimsins sé liðinn?

Fólk tali núna um hlutina eins og þeir eru í stað þess hvernig þeir gætu verið eða ættu að vera.

Fólk sé hætt að reyna að vera eitthvað annað en það er.

En kannski var þetta bara svona hreint og beint fólk.

Mynd ársins og bréf fjölskyldu í vanda.

Fréttamynd ársins að mati World Press Photo var birt á mbl.is í dag.

Rosaleg mynd.

Maður getur bara ímyndað sér hvað hefur gengið á, fram að þessum tímapunkti.

http://mbl.is/mm/folk/frettir/2009/02/13/bestu_frettamyndirnar_valdar/

Svo langar mig til að benda ykkur á bréf frá hjónum í vanda sem birtist í dag á visi.is.

http://visir.is/article/20090213/FRETTIR01/978435176

Mjög vel skrifað bréf sem segir allt sem segja þarf.

Okkar allra vegna verður eitthvað að fara að gerast.


Afmæli Bjarna Björgvins

Bjarni Björgvin varð 8 ára í dag.

 

Það sem var ólíkt með þessu afmæli og öðrum sem við áður höfum haldið er að allir komu með eitthvað með sér.

 

Tvöföld ánægja, því í stað þess að eyða deginum í bakstur og brauðréttagerð, bökuðum við bara eina köku og gátum því nýtt tímann saman.

 

Oft fundist leiðinlegt hvernig barnið sem allt á að snúast um týnist í undirbúningnum.

 

Sem betur fer er búið að leysa rotþróarmálið og gátu gestir því æi þið vitið.  Kom bíll hér óvænt og tæmdi, hvers vegna vitum við ekki.  Á sama tíma hvarf líka greiðsluseðillinn sem hangið hefur inni í heimabankanum.

 

Kannski þykir eftir allt eðlilegt að komast á klósettið í Kópavogi?

 

 


TAKK!

Kæru vinir, ég auglýsti um daginn eftir samstöðu.  Hún er fundin!

Þykir vænt um að þið gáfuð ykkur tíma til að skrifa hér á síðuna.  Mjög gaman og gott að lesa frá ykkur athugasemdirnar og sumar bráðfyndnar í ofanálag.  Eins hefur verið gott að heyra frá ykkur hinum með öðrum hætti.

Langar til að biðja ykkur um að sýna áfram þessa samstöðu.  Sýna hana fólkinu í kringum ykkur, það er fullt af fólki í vandræðum en segir ekki endilega frá því.  Fólk sem nær ekki að borga reikningana sína, heldur bara niðrí sér andanum og bíður þess sem verða vill.

Og umfram allt ekki dæma fólk.

Það litu langflestir til beggja hliða áður en þeir gengu yfir í góðærið og þar var ekkert að sjá, ekkert sem varaði fólk við þessu.

Hættum að draga upp að fólk hefði átt að vita betur.  Það skiptir engu máli í dag.  Það sem skiptir máli er að fólk fái tækifæri til að koma undir sig fótunum á ný.  Sem er auðveldara ef það er ekki fellt niður aftur með dómhörku.

Set inn tenginu fyrir ykkur sem sáuð þetta ekki.

Gott að vita af ykkur öllum þarna úti.

 

Gott þegar virkilega er tekið á málunum

Horfðum á beina útsendingu frá Alþingi í dag.  Veit ekki við hverju við bjuggumst en þó ekki þessu.

Er þetta fólk á gulu eða grænu deildinni?

Þjóðfélagið brennur, fyrirtæki og einstaklingar ramba á barmi gjaldþrots og á meðan er heilu dögunum eytt í sandkassanum.

Tragekómídía.

Tragekómídía sem breytist í farsa þegar Jóhanna fór að fikta í farsímanum sínum.

Eða var þetta ipod?

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband