Hvar er öll samstaðan?

Ekki kurteist auðvitað að koma sér upp lesendahóp bara til að varpa svo á hann bombu.  Stórri Bombu.

 

En ég er bara orðin svo reið.  Eins og svo margir auðvitað.  Alls staðar er talað um samstöðu, fólk finnur hana og sýnir.  Borgarafundir og mótmæli þvers og kruss.

 

En því miður er samstaðan bara eitthvað sem viðgengst í stærri hópum og maður sér í sjónvarpinu og les um á netinu.  Í smærri hópum örlar ekki á henni.  Ekki líður langur tími ef slæm staða vina og kunningja er rædd fyrr en einhver kemur með skýringuna.  Undantekningalítið er hana að finna í því að röng ákvörðun hafi verið tekin eða farið hafi verið óvarlega.

 

En hvað var hann að kaupa svona dýran bíl?  Svona dýrt hús? Hvers vegna setti hann alla peningana sína þangað?

 

Gáfaða systirinn vill meina að þetta sé varnarmekanismi.  Við erum öruggari með okkur ef við teljum okkur trú um að viðkomandi geti sjálfum sér um kennt að einhverju leyti.

 

Auðvitað geta það margir.  Ofsalega margir sem þurfa að eiga það við sig að hafa farið of geyst.  En ekki allir.

 

Ég hef nokkrum sinnum lent í fá eftirfarandi svar við spurningunni hvernig fólk hafi það:

 

Ég hef það fínt enda tók ég ekki þátt í góðærinu!

 

og það liggur einhvern veginn í loftinu að staða mín sé slæm vegna þess að það hafi ég gert og það óvarlega.  Ég beri ábyrgð á hvernig er komið fyrir mér vegna þess að ég hafi farið of geyst.

 

Það er alveg hægt að standa hér fyrir utan og ímynda sér að að við séum skuldsett upp fyrir haus.  En það er í alvörunni ekkert náttúrulögmál sem tengir saman fermetrafjölda og slæma skuldastöðu/háar afborganir.  Heldur ekki fermetrafjölda og það að hafa farið óvarlega.

 

Eins og kom fram í fyrstu færslunni hér höfum við áður staðið í þeim sporum að Árni varð atvinnulaus.  Síðan þá hefur verið viðhöfð gífurlega aðhaldssöm fjármálastefna.  Enda fáránlegt að gera ekki ráð fyrir að hið sama gæti gerst aftur, sem það auðvitað gerði.  Eina ástæðan fyrir því að við getum enn greitt reikningana okkar nú næstum 4 mánuðum eftir að Árni varð atvinnulaus er vegna þess að við bjuggum okkur vel undir skellinn.  Eðlilega verð ég því reið þegar gefið er í skyn við mig að við höfum farið óvarlega.

 

Við fengum ekki skell vegna þess að við tókum áhættu eða við létum skrifa á barnum, heldur vegna “óhagstæðra ytri skilyrða” 

 

Oft fylgir á eftir yfirlýsingunni um að viðkomandi hafi ekki tekið þátt í góðærinu:

 

Ég á ekki einu sinni flatskjá!

 

Eins og það sé einhvers konar vottorð upp á að viðkomandi hafi haldið sönsum í vitleysunni.

 

Nú þori ég að fullyrða að langstærstur hluti fólks naut góðs af góðærinu.  Almenningurinn.  Því miður var hópur sem hafði og hefur það virkilega slæmt en meðaljóninn hafði miklu meira á milli handanna en áður.  Ástæðan fyrir því að viðkomandi keypti sér ekki flatskjá hefur því líklega einfaldlega verið sú að hann átti sjónvarp sem virkaði.

 

Merkilegt nefnilega að nokkrir sem ég þekki sem hvað mest hafa talað um að hafa ekki notið góðs af góðærinu fóru reglulega til útlanda, stunduðu mjög dýr sport eða gátu leyft börnunum sínum að vera í tómstundum af dýrari gerðinni.

 

Nú er ég alls ekki að segja að þetta hafi ekki verið í lagi, fólk hafi ekki mátt leyfa sér þetta, það er bara svo kostulegt að heyra það tala um að góðærið hafi ekki komið til þeirra.  Bara vegna þess að það er ennþá með gamla sjónvarpið sitt.

 

Af einhverjum ástæðum varð allt í einu markaður hér fyrir 2 flugfélög, auk þess sem fleiri félög sáu sér tímabundið hag í að fljúga hingað.  Nú hef ég ágætissambönd inn í flugbransann og ég sver að ekki þarf að framvísa kvittun fyrir kaupum á flatskjá með brottfararspjaldinu!

 

Lífsgæðakapphlaupið snérist ekki aðeins um græjur, tól og tæki, flott hús og eggið úr Epal.  Lífsgæðakapphlaupið snérist um að lifa lífinu til fulls og á betri forsendum en áður höfðu þekkst.  Sumir völdu að kaupa sér flatskjái, aðrir ekki og kjánalegt að félag fólks án flatskjáa geti staðið til hliðar með krosslagðar hendur og dæmt okkur hin í sjálfskaparvíti.

 

Það er ótrúlega dónalegt að láta fólki líða eins og það hafi kallað þetta yfir sig sjálft—jafnvel þó það hafi gert það.

 

Annar vinkill á sama mál.  Af hverju er aldrei hægt að ræða val án þess það fylgi með einhverjum tón að valið hafi verið rangt?  Fólk verði að gjöra svo vel að súpa seyðið af sínu vali.

 

Það er val að fara í launalaust leyfi.

 

Við eigum ekki frekar en flestir kristalskúlu—vitum ekki einu sinni hvar þær fást.  Eitt af því sem ég heyri líka reglulega er:

 

Ja menn taka nú ákveðna áhættu ef þeir reka fyrirtæki

 

Auðvitað stöndum við og föllum með því en án þess að ég reyni að slá Árna til riddara sem hinn eina sanna atvinnurekanda og bjargvætt heimilanna þá er það nú einu sinni þannig að einstaklingar fá vinnu hjá þeim sem taka af skarið og stofna fyrirtæki.  Menn sem stofna fyrirtæki eru í þeirri stöðu að skapa öðrum atvinnu.  Njóta að sjálfsögðu margir á meðan vel gengur en sitja líka í því þegar illa gengur.

 

En þið höfðuð það svo gott

 

Ég sé bara enga ástæðu til að samþykkja að við verðskuldum hvernig komið er vegna þess að á tímabili hafi gengið vel og við notið góðs af.

 

Að einu leyti skal ég þó fúslega viðurkenna að við höfum farið óvarlega og við séum í sjálfsskaparvíti.  Við völdum að eignast alltof mörg börn.  Og það er ekki það skynsamlegasta sem hægt er að velja.  Til þess er það of dýrt.  Við og væntanlega Snædis Tinna líka þegar hún áttar sig á þessu, þökkum fyrir það á hverjum degi að við höfum valið að eiga hana áður en heimurinn fór á hvolf því við færum aldrei út í barneignir í dag en gætum ekki hugsað okkur lífið án hennar.

 

Hvers vegna heldur fólk líka að það hafi lausnir fyrir aðra?

 

Ertu viss um að þú getir ekki fengið vinnuna þína aftur?

 

AF hverju fær Árni sér ekki vinnu?

 

Gaman líka þegar smá efa er bætt við

 

FYRST ástandið er svona slæmt af hverju fær Árni sér ekki vinnu?

 

En fólk meinar auðvitað vel það vill bara ekki horfast í augu við ástandið og hefur eins og áður var minnst á, tilhneigingu til að leita skýringa hjá einstaklingnum sjálfum.

 

Vill ekki horfast í augu við þetta eða heyra um þetta.  Ekkert gaman að ekkert gott sé að frétta.  Enda hefur heldur betur fækkað í vinahópnum eða fjölgað í kunningjahópnum eftir því hvernig maður lítur á það.

 

En við viljum heldur ekkert heyra að eftir tæpa 2 mánuði verður allur peningur búinn, allt sparifé öll námslánin.  Við viljum heldur ekkert heyra að við þiggjum aðstoð fólks við að gefa börnunum okkar að borða.  Að þau geti stundað tómstundirnar sínar í vor vegna þess að við sóttum pening til féló.  Við viljum ekkert heyra að jafnvel þó ég fari að vinna breyti það litlu því launin eru litlu hærri en námslánin og eina ástæðan fyrir því að við lifum af þeim í dag er jú rétt—varasjóðurinn!  Hér langar heldur engan að heyra hvernig það nístir mann að innan að segja alltaf nei við börnin sín.  Það er alveg sama hvað maður reynir að hlífa þeim við þessu þau skynja þetta.  Af fullum krafti.  Við hlustum á þau ráðgera framtíðina með því að styðjast við fortíðina, halda að bráðum verði allt í lagi.  En það virðist langt í að allt verði í lagi, sagt er að botninum sé ekki náð.

 

Maður opnar ekki sjónvarp eða útvarp án þess að talað sé um að byggja hið nýja Ísland upp á nýjum gildum.  Mannlegum gildum.  Við eigum að líta inn á við, kasta efnishyggjunni, samkeppninni, finna kraftinn hið innra, nýta hann til að skapa okkur ný tækifæri.  Merkilegt að velta því fyrir sér á meðan fólk talar frómt um þetta að það er allt í vinnu.  Fólk sem er í vinnu getur leyft sér að staldra við og finna kraftinn.  Við hin þurfum að nota alla okkar krafta í að komast í gegnum daginn án þess að missa okkur í áhyggjur af framtíðinni.

 

Spurning hvort það verður ekki auðveldara að finna kraftinn hið innra ef fólk gerir sér far um að sýna þessa samstöðu, sem talað er um, í minni hópum.  Þvinga sig til að líta framhjá því hvort viðkomandi sé, að okkar mati, í sjálfsskaparvíti.  Gefa náunganum tíma, sýna honum stuðning, skilning.  Meira að segja þeim sem eiga flatskjái.

 

Minna sig á að hver einn og einasti einstaklingur tók sínar ákvarðanir út frá þeim forsendum sem hann hafði og taldi gildar.  Ákvarðanir sem í dag eru alveg nógu íþyngjandi í sjálfum sér.

 

Muna eftir að sinna fólkinu okkar, vinum okkar, spyrja hvernig þeir hafi það—jafnvel þótt það sé óþægilegt að heyra svarið.  Muna að vinátta byggir á samkennd, hugulsemi og því að hlusta.

 

Allt sem þarf til að þeim finnist þeir ekki standa einir.

 

 

Ástæðan fyrir því að ég hóf að blogga var sú að ég hélt að með því píndi ég mig til að sjá skondnu hliðarnar á erfiðu ástandi.  Af ofansögðu má sjá að ég er orðin röflandi gömul kerling og það er aldrei fallegt né skemmtilegt.  Ljóst er því að ég er komin eins langt frá upphaflegu markmiði og hægt er.  Með hverri viku hefur orðið erfiðara og erfiðara að finna skemmtilega vinkla á ömurlega stöðu og ef ofangreind færsla er vísir að fleiri slíkum, þá er skynsamlegast að hætta núna.

 

Ef þið eruð ennþá að lesa vil ég þakka ykkur sem hafið komið hér í heimsókn, fylgst með okkur og gefið af ykkur með blíðum orðum í okkar garð.  Hefur gefið okkur ótrúlega mikið að finna frá ykkur hlýjar hugsanir og styrk.  Eins hefur verið ótrúlega gaman að heyra frá öllum sem höfðu samband í gegnum facebookina eða í síma.

 

Ykkur sem á einn eða annan hátt hafið létt undir með okkur munum við aldrei gleyma!

 

Vona að lífið leiki ykkur ljúfum höndum, þið gerið ykkur far um að vera góð hvert við annað en þó sérstaklega börnin ykkar.  Það er það sem skiptir máli.

 

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ Didda.

Mikið er ég sammála þér í þessu með skammsýni fólks. Er alltaf að fá að heyra það álit fólks að það hafi verið algjör vitleysa að taka svona og hinsegin lán. Tíminn hafi verið sá versti. Það hefði átt að vera búið að selja og dekka þannig skuldir og þ.h. Staðan er bara svona í dag og maður gerir bara eins gott úr því og maður getur. Það er alltaf gott að vera vitur eftir á en það breytir ekki ástandinu. Við hjónaleysin vorum líka búin að skoða málið og þetta átti að vera skotelt. Hver átti von á þessu?

Vertu áfram jákvæð, það er svo miklu auðveldara að takast á við lífið þannig. Erfiðleikar verða léttbærari og allir miklu glaðari.

Gangi ykkur sem allra best.

Sjáumst hressar í næsta bekkjarbartýi.

Kv. Ingibjörg Steindórs

Ingibjörg Steindórsdóttir (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 11:38

2 identicon

Didda mín!

Þessi pistill ber ekki þess merki að þú sért gömul röflandi kelling!! Ekki hætta að skrifa, það er ákveðin útrás í því og þú þarft þessa útrás!

Afi minn sagði að maður ætti að gefa jafnmörg ráð og maður þiggur sjálfur og því segi ég: Ekki hlusta á þá sem tala niður til þín á nokkurn hátt, hlustaðu á okkur sem styðjum þig og viljum eingöngu það besta fyrir þig og þína OG!! treystum þér til að velja það sjálf!!

Þú er velgefin kona sem á mikið að gefa og ekkert múður!!

Knús

Diddan sem er stolt af því að teljast til vina þinna! (að eigin mati)

Sigrún Jónsdóttir (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 17:50

3 identicon

Sammála síðasta ræðumanni, ekki hætta að skrifa og leyfa okkur að fylgjast með daglega. Þú ert svo góður penni og kemur með svo frábæra punkta inn í hversdagsleikann....

Kveðja María Björg .... 

María Björg (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 19:18

4 Smámynd: Helga Sigríður Úlfarsdóttir

Plís - það er alveg stranglega bannað að hætta að skrifa - þú ert svo svakalega kómísk og hárbeitt - ég get alltaf stólað á að þú munir kæta og létta mína lund eftir lestur á síðunni þinni - látið þá fara sem fara vilja og hinir sem eftir verða eru sannir vinir............. og það var nú það!!!

Helga Sigríður Úlfarsdóttir, 22.1.2009 kl. 20:01

5 identicon

Frábær lesning Didda mín, datt ekki til hugar að stoppa í miðju kafi. Hlakka til að sjá þig næsta fimmtudag.

Knús og kossar á línuna.

Elsa (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 22:39

6 identicon

´Það hefur verið gott að kíkja á bloggið hjá þér Kristín og miðað við mörg önnur blogg þá er þetta það besta sem skrifað er, þú lýsir svo vel hvernig það er að vera í frjálsu falli og vottar ekki fyrir hatri og reiði hjá þér.Þó að það gangi illa hjá ykkur ertu líka með björtu hliðarnar og það er það sem vantar hjá mörgum öðrum sem blogga,sem kynda undir með hatri og glæpum.Ég er 59 ára gamall maður og bý úti á landi á þrjú uppkomin börn sem að öll eru í vinnu sem betur fer, og á hverjum degi hef ég áhyggjur af afkomu þeirra.ég lifi í von um að það birti til hjá öllum en ég líð ekki undiróður og hatur.Þess vegna von mín að ég fái að sjá hjá þér bloggið áfram þú gleður í það minnsta gamlan mann og ekki gefast upp.Ég sé líka á myndum hjá þér að þú átt falleg börn sem virðast vera á svipuðum aldri og mín barnabörn sem að ég elska  mikið og mun ger allt til að vernda þau fyrir hinu illa en veit líka að sólin mun koma aftur upp.Þarna sérðu að bloggið virkar hjá þér einn gamall maður að opna sig. Kær kveðja Baldur

Baldur (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 23:08

7 identicon

Ég sé það hefur enginn beðið fyrir þér.

Geri það hér með.

Katrín Brynja (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 00:46

8 identicon

Elsku Didda mín það væri synd og skömm ef þú hættir að deila með okkur þínum ótrúlega húmor og þinni skemmtilegu nálgun á hlutina. Hef fylgst með frá upphafi og dáðst að sýn þinni á lífið og tilveruna. Ef fólk gerir sér ekki grein fyrir því hvað þú og þínir eru mikill fjársjóður þá fari þeir og veri!! Knús á ykkur öll

Maja nágranni

Maja nágranni (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 20:39

9 identicon

Elsku Didda. Ég þekki þig ekkert en þó smá vegna þess að maður hefur oft heyrt um Diddu vinkonu þessa frábæru manneskju sem ratar oft rétt orð á munn. Það sannaðist þegar ég fór að lesa bloggið þitt. Kíkti öðru hvoru og alltaf var lund mín léttari eftir lesturinn. Ekki núna og það er í góðu lagi. Hvernig er hægt að vera endalaust sniðugur og kómískur þegar erfiðleikarnir ganga svona nærri manni? Það er ekki hægt að ætlast til þess hvorki af sjálfum sér né öðrum.  Þú ert manneskja og það er gott að geta horfst í augu við hlutina þótt þeir séu ekki þægilegir.

Við tókum þátt í góðærinu. Það lýsti sér þannig hjá okku að við upplifðum það að ná endum saman, að geta borgað okkar skuldir og klætt börnin okkar. Við eigum flatskjá.... eru seld öðruvísi sjónvörp í dag? Held þetta heiti flatskjár amk þetta er allavega þunnt sjónvarp? Ég og maðurinn minn erum bæði það lánsöm að hafa haldið okkar vinnu og getum bætt við okkur vinnu ég fór í 100% og hann vinnur 100% og á laugardögum. Ef við hefum ekki vinnuna væri allt í kaldakolum hjá okkur og við að missa allt. Við erum með góð lán á húsnæðinu okkar og eigum gamla bíla já meira að segja 2. Ef við hefðum misst okkar vinnu já þá værum við eflaust spurð að þessu af hverju við hefðum sett peningana okkar í þetta hús og þessar bíldruslur... Segi eins og þú að ég þakka guði fyrir son okkar sem fæddist 2007 og öll okkar börn en við eigum 5 (1hvort og 3 saman). Hálfgert bull hérna hjá mér sem segir kannski ekkert.  En vonandi fer að birta fljótt til hjá ykkur og að þið séuð það góðir vinir fjölskyldan að þetta sundri ykkur ekki. Mínar bestu óskir um að allt fari að ganga betur sem fyrst.  Ásta.

Ásta Kristín Svavarsdóttir (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 21:48

10 identicon

Langar líka að bæta við að þau lán sem margir "völdu" að taka tóku þau af því að "sérfræðingarnir" í bönkunum ráðlögðu það. Ætti ég leikskólakennarinn að vita betur en sérfræðingurinn í bankanum? Myntkörfulán var það besta og allir voru að taka þau.... auðvitað tók fólk þá þessi lán. Og þeir sem áttu peningabréf í Landsbankanum eru með það uppáskrifað að það sé 0% áhætta!  Fólk má spyrja sig að ýmsu og dæma eins og það vill. Það er alltaf svoleiðis fólk inn á milli sem virðast oft vera meirihlutinn því það bylur hæst í tómri tunnu ef þú skilur hvað ég á við... sbr. mótmælin til dæmis.  Enn og aftur vonandi fer að birta til. Þú ert manneskja sem hefur hreyft við mörgum. Takk fyrir það!

Ásta Kristín Svavarsdóttir (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 21:57

11 identicon

Skaðbrennda kynslóðin. Ég hef stundum haft þau orð uppi varðandi okkar kynslóð. Þetta hefur verið skelfilegt á köflum og mér finnst ömurlegt að horfa upp á fólk í þessari stöðu.... sömu stöðu og ég er í. Já það er sko enginn léttir að vita af því að vinir manns séu í sömu stöðunni. Þetta var allt einvhernveginn að smella saman og allt var loksins farið að ganga þokkalega. Einmitt góðærið fólst í því að endar náðu saman um mánaðarmót og hnúturinn í maganum var að minnka..... en svo var fótum kippt undan manni. Rekstrargrundvöllur fyrirtækisins horfinn og ansi stór biti sem fjölskyldan þurfti að kyngja.... Ég hugsa til ykkar og þekki þennan vonleysistón en.... vonleysið skal ekki ná tökum á manni. Ég veit það að við komusmst út úr þessu þótt maður verði með brunasár á sálinni. Það skal sko enginn ná að buga okkur.

Sigríður María Atladóttir (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 19:00

12 Smámynd: Kristín Bjarnadóttir

Elsku Sigga mín, skaðbrennda kynslóðin er gott.  En ef ég mætti velja þá myndi ég frekar vilja vera 80´s en það er víst orðið of seint.  Við hugsum einnig oft til ykkar, vonum að þetta gangi yfir án stórra brunasára og fallegu börnin ykkar verði sem minnst vör við eitt eða neitt.

Kæra Ásta Kristín, takk fyrir komuna og takk fyrir að kvitta.  Ég er rosalega glöð með vinkilinn sem þú kemur með á þetta mál allt saman.  Þú ert meðvituð um að þótt þið hafið hingað til ekkert verið að spreða hægri vinstri hefðuð þið líklega staðið í þeim sporum að þurfa að verja "lifnað" sem var alls ekkert yfirgengilegur.  Eins líka þetta með að fólk ætlast jafnvel til að almenningur hafi átt að vita betur en sérfræðingarnir.  Takk líka fyrir hlý orð í minn garð

Kæri Baldur, hlýtur að taka á að fylgjast með börnum þínum og barnabörnum fara í gegnum þessa tíma.  Þótt börnin þín séu í vinnu þá er óvissan mikil, ekki síst um framtíð barnabarnanna.  Ekki það sem foreldri og afi óskar fólkinu sínu.  Takk innilega fyrir að fylgjast með okkur og skrifa mér.

Inga, Sigrún, María Björg, Helga, Elsa, Ía og Mæja, takk fyrir hvatninguna, gott að heyra frá ykkur.

Katrín Brynja-styrkur bæna þinna vísar mér leiðina heim.

Kristín Bjarnadóttir, 27.1.2009 kl. 12:47

13 identicon

Elsku hjartans Didda mín.

Ég er búin að fylgjast með þér í nokkra mánuði og get ekki hugsað mér að vera án þín. Ég fylgdi þér í barnæsku og þú mér kæra vinkona. Þú lætur ekki deigan síga, heldur áfram að blogga. Megi englarnir vaka yfir þér og þinni fjölskyldu. 

Kærleiks kveðja Bryndís

Áróra Bryndís (IP-tala skráð) 30.1.2009 kl. 18:12

14 Smámynd: Kristín Bjarnadóttir

Takk elsku besta Bryndís mín, mín gamla vinkona  ótrúlega gaman að sjá að þú kíkir hér við.

Vona að þú hafir það sem allra best.  Við Hrund stefnum á hitting með Ástu og þér fljótlega!

Kristín Bjarnadóttir, 30.1.2009 kl. 19:59

15 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Elsku Didda mín, mikið ofsalega er þetta vel skrifað hjá þér og fullkomlega satt og rétt. Ég var að reyna að koma inn á eitthvað svipað í einni af mínum færslum um daginn, en þér tekst það mikið betur, enda frábær penni og stórskemmtileg. Ég segi eins og margir aðrir hér að ofan, þú mátt alls ekki hætta að blogga, þú ert ein af þeim betri hérna á blogginu, þarft ekki mörg orð til að koma hugsunum þínum til skila.

Ég er svo gjörsamlega sammála þér með samkenndina, sumir nota þetta orð til að slá um sig með, en ég efast um að þeir sömu viti hvað orðið virkilega þýðir.

Ég vona innilega að bjartari tímar séu framundan hjá ykkur fjölskyldunni og hugsa oft til þín. Það er ótrúlega óréttlátt að venjulegt fjölskyldufólk sitji svona í súpunni vegna, eins og þú segir, óhagstæðra ytri skilyrða. Það er þyngra en tárum taki. Ég óska þér og þínum alls hins besta og mun halda áfram að fylgjast með þér, mín kæra.

Lilja G. Bolladóttir, 2.2.2009 kl. 01:03

16 Smámynd: Kristín Bjarnadóttir

Takk elsku Lilja mín.

Kristín Bjarnadóttir, 2.2.2009 kl. 10:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband