Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Af gömlum gildum

Hékk á því í vetur að það eina jákvæða við ástandið væri að nú gæfist tækifæri til að dusta rykið af gömlum og góðum gildum sem týndust einhvers staðar í góðærinu.

 

Hafði oft pirrað mig á að börn í dag fengju allt og þá strax og erfitt væri að setja einhvers staðar mörk.  Það var einhvern veginn gert ráð fyrir að allir ættu allt.  Man hvað ég var hissa þegar ég frétti að sökum hve bekkur í grunnskóla hafði verið duglegur máttu þau koma með ipodana sína daginn eftir í skólann.

 

Var orðið jafn sjálfsagt að eiga ipod eins og pennaveski?

 

Foreldrar mínir byggðu húsið sitt frá grunni, unnu eins og skepnur og uppskáru eins og þau sáðu.  Verðbólga var mikil á þeim tíma og við höfðum lítið á milli handanna.  Þegar maður hækkaði var saumað neðan á buxurnar manns, maður lærði að leita að ódýrasta verðinu þegar maður fór út í búð og ég sver að tannburstinn minn var soðinn eftir að ég missti hann einu sinni ofan í klósettið.

 

Hef oft reyndar velt því fyrir mér hvers konar tannburstunarofbeldi var í gangi á mínu heimili.

 

En svona voru hlutirnir á þeim tíma og maður lærði nyt-, nægju- og sparsemi. 

 

En eins jákvætt eins og það nú er að börn í dag læri þessi gildi þá hef ég oft undanfarið velt fyrir mér hvar línan liggur.  Hvort lærdómurinn fari ekki fyrir lítið þegar aðstæðurnar eru eins og þær hafa verið í vetur?  Hvort þau missi ekki af því hvað er gott að kunna að spara þegar þau tengja það einungis við að heimilið varð tekjulaust?

 

Hvort þessi kríli sem finna kvíða foreldra sinna á hverjum degi læri nokkuð annað en að vera hrædd?

 

Bryndís Inga varð tíu ára í dag.  Áttum yndislegan dag í hópi vina og ættingja.  Síminn hennar var tekinn ófrjálsri hendi um daginn og var ósk hennar að fá peninga í afmælisgjöf til að kaupa nýjan. Áður en hún fór að sofa taldi hún og taldi og fann út himinlifandi að hún gæti keypt símann sem hana langar í.

 

En stuttu eftir að hún fer að sofa læðist hún niður og laumar til mín bréfi. Í bréfinu voru afmælispeningarnir hennar og miði þar sem hún segist elska mig og þetta hjálpi vonandi eitthvað.........


20.maí 1972

Kom til mín farþegi í gær og sagði: the other stewardess, with the blond hair and pointy ponytail-she´s younger than you-I´ve met her before, what is her name?

 

Auðvitað var ekki nóg að nefna að hún væri ljóshærð með tagl.  Auðvitað varð að nefna það að hún væri yngri öðruvísi hefði ég auðvitað aldrei fattað við hverja hann átti.

 

Og hún var bara 5 árum yngri en ég. En svona augljóslega yngri.

 

Á afmæli í dag.  Þurfti ekkert að heyra þetta.


Erda satt?

Brá í vikunni þegar ég einhvers staðar las að það væri ekki á hreinu um hvað Is it True? fjallar. Brá vegna þess að í mínum huga var það borðleggjandi.

 

Ég hélt að lagið fjallaði um efnahagshrunið og hvernig þjóðin hefði vaknað upp af draumi.

 

Lagið er fullt af tilvísunum, þar er vísað í rumours eða allar skýrslurnar sem spáðu fyrir um hrunið en enginn tók mark á,  friend er Bretland og beiting hryðjuverkalaganna og augljós eru falling out of a perfect dream og will I wake from this pain?

 

En svona er ég mikill kjáni.

 

Kom mér líka mjög á óvart að ekki er til íslenskur texti við lagið.  Við höfum í vor sungið viðlagið hástöfum á íslensku og það er kannski rétt fyrst laginu er spáð sigri að skella þýðingunni með ef einhver vill nýta sér hana.

 

erda satt (erda satt)

erda búið

varsu kastað á glæ

varsda þú (varsda þú)

það var ekki sagt mér

bankarnir væru hausnum á

 

ágætt er að draga á-ið aðeins til að tengja við þjóðina og sársaukann.

 

Að lokum fann ég lítinn vin sem minnir mig af einhverjum ástæðum á fyrrum Seðlabankastjóra.

 

Áfram Ísland.

 

Hefnd litla mannsins

Held því oft fram að ég sé ekkert reið út af öllu þessu sem gengið hefur á í vetur.  Reiði sé lamandi tilfinning sem hindri mann í að gera sitt besta.

 

Við Snorri (3) fórum í bankann áðan og á borðinu sat þessi fína nammiskál full af girnilegum brjóstsykri.  Hann teygir fram lúkuna og ég segi af gömlum vana bara einn!  En þegar hann langar í meira gerist eitthvað.

 

Það blossaði upp í mér reiðin og mér fannst út í hött að setja hámark á hvað 3 ára drengur, sem átti einu sinni peninga í þessum banka, sem búið var að leggja reglulega til hliðar fyrir hann frá fæðingu, gæti fengið mikinn brjóstsykur.

 

Ég horfði því á hann taka fulla lúku og sagði ekki orð.

 

Mundi svo eftir Bryndísi og Bjarna og að þau hefðu líka átt fullt af peningum í þessum banka.

 

Gjaldkerinn þurfti á þessum tímapunkti að bregða sér frá og á meðan notuðum við tækifærið og tæmdum skálina í vasana á úlpunni hans Snorra.

 

Sátum svo bæði alsaklaus og hefðum flautað ef við kynnum.

 

Á leiðinni út í bíl rann æðið af mér er ég gerði mér grein fyrir að ég hafði kennt syni mínum að ræna banka.

 

En mikið hrikalega var þetta góður brjóstsykur.

 

Fleira fólk með frumkvæði?

Hitti gamla vinkonu mína í sundi um helgina.  Sú er ótrúlega huguð og ég er ótrúlega stolt af henni.

Hún stofnaði nefnilega fyrirtæki á þessum síðustu og æ þið vitið. Hún byrjaði með 3 milljónir í eigið fé.  Lengri tíma tók en áætlað var að opna og því lágu millurnar óhreyfðar í einhverja mánuði inn á bók.  Hún hefur staðgreitt allt og stendur óaðfinnanlega að málum.

Henni datt til hugar að nefna það við bankann hvort hún gæti mögulega seinna fengið 50.000 yfirdrátt ef eitthvað óvænt kæmi upp. En bara ef.

Svarið var: Við hjálpum ekki nýjum fyrirtækjum! Hjálpum?  Í hvaða stöðu telur bankinn sig vera? Getur hjálp einhvern tíma borið 20% vexti? Hrokafullt svo ekki sé meira sagt og í engum takti við orð Steingríms og Jóhönnu rétt fyrir kosningar.  Eflaust sögðu þau fleiri en ég man þau svo vel frá þeim, enda horfir maður til þeirra í von um úrlausnir.

Þau sögðu: stjórnmálamenn búa ekki til störf það er fólkið í landinu sem það gerir.

Má ég gera smá kröfu um samræmi hérna? Það er ætlast til að fólkið í landinu, fólk eins og þessi kunningjakona mín taki sig til og skapi sér og vonandi fleirum störf án þess að eiga kost á lánsfé, hér var ég næstum búin að skrifa hjálp, til dæmis til að brúa bil milli innkaupa og sölu.

Ég hef áður minnst hér á það óréttlæti sem verktökum er sýnt með því að greiðsluaðlögunarúrræðið stendur þeim ekki til boða og þetta litla dæmi bætir gráu á svart. (http://www.althingi.is/altext/136/s/0845.html)

Stjórnmálamenn vonast eftir fólki sem hefur kjark til að taka áhættu við verstu aðstæður sögunnar, kraft til að ýta pikkföstum hjólum atvinnulífsins upp úr skítnum og greinilega fulla vasa af peningum.

Við horfum líka til þessa fólks. Vonum að það skapi okkur og okkar atvinnu.

En getum við í alvöru farið fram á það að einhver taki þessa áhættu? Án hjálpar frá Ríkisbönkunum? Og getum við farið fram á það við fólk að það gefi frá sér neyðarúrræði ef allt fer á versta veg?

Er það svolítið eins og að hvetja einhvern til að setjast upp í bremsulausan bíl og vona að hann drepist ekki?


Próftími

Próf á mánudag og miðvikudag.  Úff! Spyr sjálfa mig aðra hvora mínútu hvort þetta sé þess virði.  Eins og þetta hefur verið gaman í vetur þá er aldrei gaman þegar kemur að prófum.

En þetta á auðvitað ekki að vera bara gaman, þetta verður að vera erfitt líka þótt ekki sé nema bara til að upplifa feginleikann þegar þau eru búin.

Ólýsanleg tilfinning sem fylgdi því annars að fá útborguð laun!  Get eiginlega ekki lýst því.  Búin að hringja nokkrum sinnum í bankasímann bara til að heyra fallegu karlmannsröddina segja mér hver staðan á reikningnum mínum sé.

Reikna og reikna í huganum og reyni að ráðgera framtíðina til að koma sem best undir okkur fótunum á ný.

Enda er nokkuð skrítið að maður láti hugann reika frá námsefninu?  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband