Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Bjargræðið

Ég hef engan áhuga á stjórnmálum.  Finnst þau leiðinleg.  Enda finnst mér flest það leiðinlegt sem ég botna ekkert í.

Ég botna til dæmis ekkert í að helmingurinn af VANHÆFri RÍKISSTJÓRN sé allt í einu ofsalega hæf núna.

Né því að sá flokkur sem mest hefur talað um að vita ekkert, hafa ekki fengið neinar upplýsingar, vita hreinlega ekkert hvernig staðan er, sé nú flokkurinn með lausnirnar.

 

Viðspyrnan

Já stundum þarf að ná botninum til að geta spyrnt sér upp aftur.  En ég sé eftir að hafa auglýst botnfall mitt á þessum vettvangi.  Það stjórnaðist af eigingirni og reiði.

 

Rétt er að taka fram að í síðustu færslu talaði ég aðeins fyrir sjálfa mig en ekki í nafni okkar beggja líkt og hingað til.  Árni fer ekki bombuleiðir enda kannski meiri bumba en bomba.

 

En án þess að ég ætli að halda því fram að ég hafi með þessu stungið á þjóðfélagslegt mein þá hefur fjöldi fólks haft samband við mig í framhaldi og haft svipaða sögu að segja.  Finnst auka á álagið að þurfa sífellt að réttlæta stöðu sína og það jafnvel gagnvart sínum nánustu.

 

Þarf jafnvel að verja áhyggjur sínar.  Sé reglulega bent á að þetta sé nú ekki það versta sem geti komið fyrir.  Það séu allir á lífi, við hestaheilsu og ekki á götunni.  Ennþá.

 

Gleymist að öllu hugsandi fólki sem bera ábyrgð á öðrum en sjálfum sér ber skylda til að vera áhyggjufullt.  Aðeins þannig nær það að horfast í augu við stöðuna og mögulega lágmarka skaðann.

 

Auðvelt að segja að maður eigi ekki að láta þetta ná til sín, erfiðara í reynd.

 

Við þurfum að fyrirgefa.  Hvort öðru og ekki síst okkur sjálfum.

 

Fyrirgefa okkur fyrir að taka þessar ákvarðanir, hætta að draga upp að við hefðum átt að átta okkur á þessu eða hinu.  Við tókum öll góðar og gildar ákvarðanir miðað við forsendur og ráðleggingar.  Það stendur.  Auðvelt að vera vitur eftir á.

 

Svo eru alltaf einhverjir sem þurfa að fyrirgefa sjálfum sér fyrir að hafa misst af ballinu.

 

En annars hef ég alltaf lagt mikið upp úr því að standa við það sem ég segi.  En þetta eru skrítnir tímar sem við lifum á, allt er í uppnámi, þar með talin persónuleg gildi fólks.  Ég ætla því að ganga á bak orða minna og hætta við að hætta að blogga.

 

Ég biðst afsökunar á því að hafa tekið reiði mína út á ykkur.  Ykkur sem gefið ykkur tíma til að kíkja hér við.  Er mjög þakklát fyrir öll hlýju orðin hér á síðunni, í símtölum, emailum og á facebookinni.

 

Einhvers staðar heyrði ég að maður tengdist umheiminum með því að deila litlu atriðunum í lífi manns.  Síðustu daga hef ég verið mjög vel tengd.

 

Ég lofa að öskra í kodda næst.

 

Hvar er öll samstaðan?

Ekki kurteist auðvitað að koma sér upp lesendahóp bara til að varpa svo á hann bombu.  Stórri Bombu.

 

En ég er bara orðin svo reið.  Eins og svo margir auðvitað.  Alls staðar er talað um samstöðu, fólk finnur hana og sýnir.  Borgarafundir og mótmæli þvers og kruss.

 

En því miður er samstaðan bara eitthvað sem viðgengst í stærri hópum og maður sér í sjónvarpinu og les um á netinu.  Í smærri hópum örlar ekki á henni.  Ekki líður langur tími ef slæm staða vina og kunningja er rædd fyrr en einhver kemur með skýringuna.  Undantekningalítið er hana að finna í því að röng ákvörðun hafi verið tekin eða farið hafi verið óvarlega.

 

En hvað var hann að kaupa svona dýran bíl?  Svona dýrt hús? Hvers vegna setti hann alla peningana sína þangað?

 

Gáfaða systirinn vill meina að þetta sé varnarmekanismi.  Við erum öruggari með okkur ef við teljum okkur trú um að viðkomandi geti sjálfum sér um kennt að einhverju leyti.

 

Auðvitað geta það margir.  Ofsalega margir sem þurfa að eiga það við sig að hafa farið of geyst.  En ekki allir.

 

Ég hef nokkrum sinnum lent í fá eftirfarandi svar við spurningunni hvernig fólk hafi það:

 

Ég hef það fínt enda tók ég ekki þátt í góðærinu!

 

og það liggur einhvern veginn í loftinu að staða mín sé slæm vegna þess að það hafi ég gert og það óvarlega.  Ég beri ábyrgð á hvernig er komið fyrir mér vegna þess að ég hafi farið of geyst.

 

Það er alveg hægt að standa hér fyrir utan og ímynda sér að að við séum skuldsett upp fyrir haus.  En það er í alvörunni ekkert náttúrulögmál sem tengir saman fermetrafjölda og slæma skuldastöðu/háar afborganir.  Heldur ekki fermetrafjölda og það að hafa farið óvarlega.

 

Eins og kom fram í fyrstu færslunni hér höfum við áður staðið í þeim sporum að Árni varð atvinnulaus.  Síðan þá hefur verið viðhöfð gífurlega aðhaldssöm fjármálastefna.  Enda fáránlegt að gera ekki ráð fyrir að hið sama gæti gerst aftur, sem það auðvitað gerði.  Eina ástæðan fyrir því að við getum enn greitt reikningana okkar nú næstum 4 mánuðum eftir að Árni varð atvinnulaus er vegna þess að við bjuggum okkur vel undir skellinn.  Eðlilega verð ég því reið þegar gefið er í skyn við mig að við höfum farið óvarlega.

 

Við fengum ekki skell vegna þess að við tókum áhættu eða við létum skrifa á barnum, heldur vegna “óhagstæðra ytri skilyrða” 

 

Oft fylgir á eftir yfirlýsingunni um að viðkomandi hafi ekki tekið þátt í góðærinu:

 

Ég á ekki einu sinni flatskjá!

 

Eins og það sé einhvers konar vottorð upp á að viðkomandi hafi haldið sönsum í vitleysunni.

 

Nú þori ég að fullyrða að langstærstur hluti fólks naut góðs af góðærinu.  Almenningurinn.  Því miður var hópur sem hafði og hefur það virkilega slæmt en meðaljóninn hafði miklu meira á milli handanna en áður.  Ástæðan fyrir því að viðkomandi keypti sér ekki flatskjá hefur því líklega einfaldlega verið sú að hann átti sjónvarp sem virkaði.

 

Merkilegt nefnilega að nokkrir sem ég þekki sem hvað mest hafa talað um að hafa ekki notið góðs af góðærinu fóru reglulega til útlanda, stunduðu mjög dýr sport eða gátu leyft börnunum sínum að vera í tómstundum af dýrari gerðinni.

 

Nú er ég alls ekki að segja að þetta hafi ekki verið í lagi, fólk hafi ekki mátt leyfa sér þetta, það er bara svo kostulegt að heyra það tala um að góðærið hafi ekki komið til þeirra.  Bara vegna þess að það er ennþá með gamla sjónvarpið sitt.

 

Af einhverjum ástæðum varð allt í einu markaður hér fyrir 2 flugfélög, auk þess sem fleiri félög sáu sér tímabundið hag í að fljúga hingað.  Nú hef ég ágætissambönd inn í flugbransann og ég sver að ekki þarf að framvísa kvittun fyrir kaupum á flatskjá með brottfararspjaldinu!

 

Lífsgæðakapphlaupið snérist ekki aðeins um græjur, tól og tæki, flott hús og eggið úr Epal.  Lífsgæðakapphlaupið snérist um að lifa lífinu til fulls og á betri forsendum en áður höfðu þekkst.  Sumir völdu að kaupa sér flatskjái, aðrir ekki og kjánalegt að félag fólks án flatskjáa geti staðið til hliðar með krosslagðar hendur og dæmt okkur hin í sjálfskaparvíti.

 

Það er ótrúlega dónalegt að láta fólki líða eins og það hafi kallað þetta yfir sig sjálft—jafnvel þó það hafi gert það.

 

Annar vinkill á sama mál.  Af hverju er aldrei hægt að ræða val án þess það fylgi með einhverjum tón að valið hafi verið rangt?  Fólk verði að gjöra svo vel að súpa seyðið af sínu vali.

 

Það er val að fara í launalaust leyfi.

 

Við eigum ekki frekar en flestir kristalskúlu—vitum ekki einu sinni hvar þær fást.  Eitt af því sem ég heyri líka reglulega er:

 

Ja menn taka nú ákveðna áhættu ef þeir reka fyrirtæki

 

Auðvitað stöndum við og föllum með því en án þess að ég reyni að slá Árna til riddara sem hinn eina sanna atvinnurekanda og bjargvætt heimilanna þá er það nú einu sinni þannig að einstaklingar fá vinnu hjá þeim sem taka af skarið og stofna fyrirtæki.  Menn sem stofna fyrirtæki eru í þeirri stöðu að skapa öðrum atvinnu.  Njóta að sjálfsögðu margir á meðan vel gengur en sitja líka í því þegar illa gengur.

 

En þið höfðuð það svo gott

 

Ég sé bara enga ástæðu til að samþykkja að við verðskuldum hvernig komið er vegna þess að á tímabili hafi gengið vel og við notið góðs af.

 

Að einu leyti skal ég þó fúslega viðurkenna að við höfum farið óvarlega og við séum í sjálfsskaparvíti.  Við völdum að eignast alltof mörg börn.  Og það er ekki það skynsamlegasta sem hægt er að velja.  Til þess er það of dýrt.  Við og væntanlega Snædis Tinna líka þegar hún áttar sig á þessu, þökkum fyrir það á hverjum degi að við höfum valið að eiga hana áður en heimurinn fór á hvolf því við færum aldrei út í barneignir í dag en gætum ekki hugsað okkur lífið án hennar.

 

Hvers vegna heldur fólk líka að það hafi lausnir fyrir aðra?

 

Ertu viss um að þú getir ekki fengið vinnuna þína aftur?

 

AF hverju fær Árni sér ekki vinnu?

 

Gaman líka þegar smá efa er bætt við

 

FYRST ástandið er svona slæmt af hverju fær Árni sér ekki vinnu?

 

En fólk meinar auðvitað vel það vill bara ekki horfast í augu við ástandið og hefur eins og áður var minnst á, tilhneigingu til að leita skýringa hjá einstaklingnum sjálfum.

 

Vill ekki horfast í augu við þetta eða heyra um þetta.  Ekkert gaman að ekkert gott sé að frétta.  Enda hefur heldur betur fækkað í vinahópnum eða fjölgað í kunningjahópnum eftir því hvernig maður lítur á það.

 

En við viljum heldur ekkert heyra að eftir tæpa 2 mánuði verður allur peningur búinn, allt sparifé öll námslánin.  Við viljum heldur ekkert heyra að við þiggjum aðstoð fólks við að gefa börnunum okkar að borða.  Að þau geti stundað tómstundirnar sínar í vor vegna þess að við sóttum pening til féló.  Við viljum ekkert heyra að jafnvel þó ég fari að vinna breyti það litlu því launin eru litlu hærri en námslánin og eina ástæðan fyrir því að við lifum af þeim í dag er jú rétt—varasjóðurinn!  Hér langar heldur engan að heyra hvernig það nístir mann að innan að segja alltaf nei við börnin sín.  Það er alveg sama hvað maður reynir að hlífa þeim við þessu þau skynja þetta.  Af fullum krafti.  Við hlustum á þau ráðgera framtíðina með því að styðjast við fortíðina, halda að bráðum verði allt í lagi.  En það virðist langt í að allt verði í lagi, sagt er að botninum sé ekki náð.

 

Maður opnar ekki sjónvarp eða útvarp án þess að talað sé um að byggja hið nýja Ísland upp á nýjum gildum.  Mannlegum gildum.  Við eigum að líta inn á við, kasta efnishyggjunni, samkeppninni, finna kraftinn hið innra, nýta hann til að skapa okkur ný tækifæri.  Merkilegt að velta því fyrir sér á meðan fólk talar frómt um þetta að það er allt í vinnu.  Fólk sem er í vinnu getur leyft sér að staldra við og finna kraftinn.  Við hin þurfum að nota alla okkar krafta í að komast í gegnum daginn án þess að missa okkur í áhyggjur af framtíðinni.

 

Spurning hvort það verður ekki auðveldara að finna kraftinn hið innra ef fólk gerir sér far um að sýna þessa samstöðu, sem talað er um, í minni hópum.  Þvinga sig til að líta framhjá því hvort viðkomandi sé, að okkar mati, í sjálfsskaparvíti.  Gefa náunganum tíma, sýna honum stuðning, skilning.  Meira að segja þeim sem eiga flatskjái.

 

Minna sig á að hver einn og einasti einstaklingur tók sínar ákvarðanir út frá þeim forsendum sem hann hafði og taldi gildar.  Ákvarðanir sem í dag eru alveg nógu íþyngjandi í sjálfum sér.

 

Muna eftir að sinna fólkinu okkar, vinum okkar, spyrja hvernig þeir hafi það—jafnvel þótt það sé óþægilegt að heyra svarið.  Muna að vinátta byggir á samkennd, hugulsemi og því að hlusta.

 

Allt sem þarf til að þeim finnist þeir ekki standa einir.

 

 

Ástæðan fyrir því að ég hóf að blogga var sú að ég hélt að með því píndi ég mig til að sjá skondnu hliðarnar á erfiðu ástandi.  Af ofansögðu má sjá að ég er orðin röflandi gömul kerling og það er aldrei fallegt né skemmtilegt.  Ljóst er því að ég er komin eins langt frá upphaflegu markmiði og hægt er.  Með hverri viku hefur orðið erfiðara og erfiðara að finna skemmtilega vinkla á ömurlega stöðu og ef ofangreind færsla er vísir að fleiri slíkum, þá er skynsamlegast að hætta núna.

 

Ef þið eruð ennþá að lesa vil ég þakka ykkur sem hafið komið hér í heimsókn, fylgst með okkur og gefið af ykkur með blíðum orðum í okkar garð.  Hefur gefið okkur ótrúlega mikið að finna frá ykkur hlýjar hugsanir og styrk.  Eins hefur verið ótrúlega gaman að heyra frá öllum sem höfðu samband í gegnum facebookina eða í síma.

 

Ykkur sem á einn eða annan hátt hafið létt undir með okkur munum við aldrei gleyma!

 

Vona að lífið leiki ykkur ljúfum höndum, þið gerið ykkur far um að vera góð hvert við annað en þó sérstaklega börnin ykkar.  Það er það sem skiptir máli.

 

 

Getum við fengið að fara á klósettið?

Við búum í sveit í bæ.  Í náttúruparadís innan bæjarmarka.  Hér er mikið dýralíf, flestir eiga hesta og hunda þó við eigum auðvitað bara börn.  Fuglalíf hér er svo fjölskrúðugt að fyrsta sumarið áttum við bágt með að sofa.

 

Við blinduðumst svo af kaupgleði við komuna hingað að við létum okkur í léttu rúmi liggja að ekki væri enn búið að malbika eða leggja hingað vísi að holræsakerfi.  Eitthvað blaður um að við værum á eignarlandi bóndans truflaði okkur heldur ekki neitt.

 

Holað var niður bráðabirgðarotþró og talað um að þess yrði ekki lengur að bíða en 2-3 ár þar til allt væri orðið eins og hjá öðrum í bæjarfélaginu.

 

En svo liðu auðvitað þessi 2-3 ár og nú rúmum fjórum árum síðar bólar auðvitað ekkert malbikunargræjum né neinu sem með góðum vilja mætti kalla holræsakerfi.

 

Það kom nefnilega upp úr kafinu að þótt við teldumst til íbúa bæjarins og borguðum þangað okkar skatta og skyldur þá teljumst við ekki fullgildir íbúar enda á eignarlandi bóndans og borgum þangað okkar lóðaleigu og deilur eru upp um hvort bærinn eða bóndinn eigi að greiða fyrir framkvæmdirnar.  En bærinn var samt svo almennilegur að lofa að tæma rotþróna á tveggja ára fresti meðan ekki er hægt að komast að samkomulagi.

 

Sem hefði auðvitað dugað hefðu þeir ekki sett niður sumarbústaðarrotþró.  Sumarbústaðarrotþró fyrir hús af stærri gerðinni og 6 manns.  Eða 4 eiginlega, Snædis Tinna er ennþá með bleyju og ég er flugfreyja.

 

Þegar þetta kom í ljós brást bærinn skjótt við og tæmdi þróna eftir þörfum enda almennt álitið eðlilegt að fólk geti farið á klósettið heima hjá sér.

 

En svo skall kreppan á og allt sem áður þótt eðlilegt og sjálfsagt er það ekki lengur.  Bærinn þarf að spara og nú man enginn eftir að hafa heyrt minnst á að við fengjum losun umfram tveggja ára samninginn.

 

Blessaður sumarbústaðarrotþróarræfillinn er nú orðinn fullur með tilheyrandi blúp blúp hljóðum og ekki nema eitt og hálft ár í næstu tæmingu á kostnað bæjarins!  Ef þörf er á tæmingu fyrr greiðum við það úr eigin vasa, sem ætti að vera létt og löðurmannslegt enda vasarnir fullir af 35.000 köllum.

 

Það er því ljóst að sundlaugarnar verða stundaðar af kappi, börnin beðin um að fara á klóið áður en þau koma heim úr skólanum og ef þú sem lest þetta ert á leiðinni í heimsókn, léttu þá á þér áður en þú kemur!

 

En yfir í annað, mér þykir vænt um íslenskuna.  Ég hef áhuga á íslensku og finnst mjög gaman að velta orðum og orðasamböndum fyrir mér og finnst unun að hlusta á fólk sem er vel máli farið.  En stundum svíkur hún mig.  Stundum á hún ekki orð við hæfi.  Íslenskan er auðvitað eldgamalt mál og á stundum svolítið bágt með að vera hip og kúl.

Ekki það að það þurfi alltaf allt að vera hip og kúl en var í alvöru ekki hægt að finna betra slagorð en "VANHÆF RÍKISSTJÓRN?"

 


Brúin yfir bilið

Yndisleg hjón okkur tengd buðust til að borga skólamatinn fyrir Bryndís Ingu og Bjarna Björgvin.  Við erum mjög þakklát og fegin.  Fegin vegna þess að Bjarna Björgvini (7) gengur illa að ráða við frelsið sem fylgir því að vera með nesti og kemur það ítrekað ósnert tilbaka með tilheyrandi þyngdartapi.

Leikskólinn hóf í dag að bjóða upp á hafragraut í morgunmat en hingað til hefur verið boðið upp á ávaxtastund en reiknað með að börnin borði morgunmatinn heima.  Frábært þegar fólk, fyrirtæki, stofnanir taka til sinna ráða.

Svo eru námslánin komin í hús, ná vonandi að brúa bilið þar til ég fæ vinnu.


Gengið um

Lenti á spjalli við tvær níu ára í haust.  Spjölluðum um daginn og veginn en svo barst talið að því hvar pabbar þeirra ynnu.

 

Pabbi annarar er flugmaður og pabbi hinnar viðskiptafræðingur.  En svo spurði ég hvað stjúppabbinn gerði.

 

“Hann er öryggisvörður í Kringlunni!” svarar hún bæði mjög hratt og mjög lágt.  Lítur svo á vinkonuna sem bætir við: “gengur um Kringluna allan daginn!”  Svo springa þær úr hlátri.  Springa úr hlátri yfir að einhver geti unnið við að ganga um Kringluna allan daginn.

 

Níu ára gamlar voru þær búnar að raða atvinnum í einhvers konar goggunarröð.  Alveg eins og við hin eldri gerum.  Sumar vinnur þykja fínni en aðrar.

 

Nú mæla flugmenn, viðskiptafræðingar, verktakar og iðnaðarmenn göturnar.  Rata jafnvel inn í Kringluna.

 

Ganga þar um eins og öryggisvörðurinn.

 

Nú er munurinn bara sá að öryggisvörðurinn er í vinnunni.


Hugurinn ber okkur hálfa leið

Eftir sannkallaða heilabrotahelgi ákváðum við að það sem við þyrftum væri hugarfarsbreyting.

Hvolfa öllu, hugsa málin upp á nýtt.

Árni er því farinn í skóla.

Ekki farinn í skóla á meðan hann leitar að vinnu eða á meðan kreppan gengur yfir.

Hann fór bara í nám.  Si svona.

Auðvitað er hann ekki hættur að leita sér að vinnu, langt í frá en í stað þess að öll orka fari í endalausar áhyggjur af því hvar hann fái vinnu fer hún í að stunda nám.

Snýst um að færa fókusinn.  Blanda þetta neikvæða góðum slurk af þessu jákvæða.

Enda ótrúlega ánægður skóladrengur sem gekk út með nestið sitt og glósubókina í morgun, spenntur að takast á við nýja hluti.

Eins höfum við ákveðið að útrýma orðinu ástand.

Hér er ekkert ástand, ekki efnahags, vinnumarkaðs, heims né kreppu.  Orðinu ástand fylgir stöðnum og við ætlum ekki að standa kyrr.

Föst í kreppunni.

Við ætlum að ganga í gegnum kreppuna, efnahagsþrengingarnar, slæmt tímabil.  Nota orð og orðasambönd sem fela í sér hreyfingu.

Orð sem minna á að þetta tekur enda.

Sjálfsblekking?  Já já.

Það hefur bara svo mikið að segja hvernig maður hugsar hlutina og ef okkur líður betur með það að Árni sé að leita sér að vinnu með skóla í staðinn fyrir að hann sé í skóla á meðan hann fær ekki vinnu, þá er það allt í lagi.

Við erum bara svo glöð að hafa smá plan.

Og það er gott að sjá Árna brosa.

 

 


Miði er möguleiki

Farseðillinn liggur á eldhúsborðinu en við erum að guggna á að nota hann.  Enda ekkert víst að Árni fái vinnu þó hann fari þarna út.

 

Erfitt að taka ákvarðanir þegar óvissan er svona mikil og jafnvel þó maður feli líf sitt í góðar hendur þá þarf maður alltaf að vesenast aðeins með puttana í þessu sjálfur.

 

Búin að fara hring eftir hring með forsendur gripnar úr lausu lofti.

 

Í dag eru ellefu ár síðan ég kolféll fyrir Árna.

 

Hann náði mér með stundvísi og góðu minni.  Lýsti í smáatriðum hvernig ég var klædd þegar hann sá mig fyrst og hringdi á slaginu þegar hann sagðist ætla að hringja.

 

Seinna kom auðvitað í ljós að hann gleymir flestu sem hann er beðinn um og leit skakkt á klukkuna þennan dag.

 

Ég þóttist líka hafa bilaðan áhuga á stjórnmálum og hlustaði af athygli þegar hann útskýrði fyrir mér hugtök og heiti í hagfræði.

 

Við sáum það sem við vildum sjá og tókum ákvörðun út frá hæpnum forsendum.

 

Fylgdum tilfinningunni sem sagði okkur að við ættum að vera saman.

 

Fylgjum sömu tilfinningu núna.

 

Grísinn sem hoppar ekki yfir hliðið

Sumir dagar minna á konugreyið sem komst ekki heim um kvöldið.

 

Kötturinn vildi ekki drepa rottuna sem vildi ekki naga kaðalinn sem vildi ekki hengja slátrarann sem vildi ekki slátra nautinu sem vildi ekki drekka lækinn sem vildi ekki slökkva eldinn sem vildi ekki brenna stafinn sem vildi ekki slá hundinn sem vildi ekki bíta grísinn sem vildi ekki hoppa yfir hliðið.

 

Vinnumálastofnun týndi skattkortinu mínu sem sendi það því ekki til féló sem sendi það því ekki til vinnumálastofnunnar sem sendi þó skattkort Árna en gleymdi svo að senda það tilbaka til Vinnumálastofnunnar sem varð til þess að það var dreginn af okkur skattur þrátt fyrir uppsafnaðann persónuafslátt sem þýddi símtöl og tilvísanir við hóp fólks sem hafði jafnvel aldrei komið í vinnuna í dag sem leiddi mig áfram að gjaldkera sem talaði ekki íslensku sem gaf mér samband aftur við starfsmann sem kom aldrei í vinnuna í dag.  Og engin finnast skattkortin.

 

Í leiðinni komumst við að því að námslánaumsóknin týndist í bankanum og þegar hún loks fannst og átti að faxa hana bilaði faxtæki bankans.

 

Bankinn tók svo líka tvær afborganir í einu útaf reikningnum.

 

Undirrituð eru því fullbókuð á morgun.

 

Þurfum að lyfta grís yfir hlið.

 

Logið á haustönn

Fór í dag að fá staðfestingu á skólavist í því skyni að fá endurgreidd leikskólagjöld.

 

Starfsmaður þjónustunnar tekur sér penna og miða í hönd og spyr mig:”Hverju laugstu í haust?”

 

Þegar ég svara engu spyr hún aftur:”Hverju laugstu?  Ég þarf að vita hverju þú laugst!”

 

Þegar ég enn svara engu verður hún óþolinmóð og bætir við:”Ég þarf að fá að vita hverju þú laugst-ekki veit ég það!”

 

Ég var að fara að svara að ég hefði ekki hugmynd um það heldur, að ég gerði mér far um að vera heiðarleg og teldi mig hafa komið hreint fram gagnvart stofnuninni þegar vinkona mín blandar sér í málið.

 

Á meðan þær töluðu um einkunnaskil úr prófum og hvaða áföngum væri lokið rann upp fyrir mér ljós.

 

Starfsmaðurinn hafði sagt:”hverju laukstu í haust!”

 

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband