Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Everything is Amazing and nobody is happy

Ágætis áminning og auðvitað bráðfyndið........

 


Heima og að heiman

Skrapp aðeins út í morgun.  Ég vakti Bjarna (8) sem var ennþá sofandi og sagði honum hvert ég væri að fara og hvað ég yrði lengi.

Þegar ég kom heim var miði á hurðinni.

Hvar varst þú?

Ef ég verð ekki heima þá er ég hjá Birki en ef ég verð heima þá er ég heima.


Botninn dottinn úr þessu?

Færslufæðin undanfarið úskýrist af því að ég hef verið í mestu vandræðum með hvað eigi að gera við reisubókina.

 

Yfirlýstur tilgangur var að veita innsýn inn í líf venjulegrar fjölskyldu í óvenjulegum aðstæðum en þar sem við bæði höfum fengið vinnu hefur hversdagsleikinn tekið við.

 

Ef það orð á við. Við, ekkert frekar en aðrar fjölskyldur á Íslandi, teljumst seint venjuleg fjölskylda í venjulegum aðstæðum því venjulegar aðstæður verða líklega aldrei venjulegar eins og þær voru skilgreindar hér áður fyrr.

 

Ég á því við að lífið gengur sinn vanagang á þann hátt að við náum endum saman og við mætum í okkar vinnu, skóla og tómstundir.  Það óvanalega er að við, líkt og svo margar aðrar íslenskar fjölskyldur lifum fyrir einn mánuð í einu.  Með snöruna um hálsinn.

 

Ljótt að segja það en það er satt.

 

Árni er búinn að fá vinnu jú og þótt það verk sé á vegum Reykjavíkurborgar, sem hlýtur að teljast öruggur framkvæmdaraðili þá stendur það og fellur með því hvort lífeyrissjóðina langar að lána fé til framkvæmdanna.

 

Enginn veit svo hvernig flugbransinn kemur til með að þróast á árinu þótt maður voni það besta. Getur svínaflensan takk fyrir beðið þar til betur stendur á?

 

Verkefnið sem efnahagsástandið bar á borð fyrir okkur í vetur er leyst eins vel og hægt var en framtíðin er ótrygg og óráðin.  Hlutirnir breytast dag frá degi og maður hefur ekki hugmynd um hvort maður getur staðið við skuldbindingarnar. Við tókum auðvitað lán í vetur til að lifa veturinn af, hækkuðum þar með greiðslubyrðina og höfum ekki hugmynd um hvort við ráðum við að borga af öllu saman.

 

En gat nú verið að um leið og hversdagsleikinn eða hvað maður á að kalla þetta ástand sem fólk býr við í dag tekur við, byrjar maður að röfla yfir hlutum sem hafa ekki snert mann í allan vetur?  Hlutum eins og lekum gluggum.  Sem er reyndar ágætis röflefni enda telur maður sig yfirleitt vera að kaupa vind- og vatnsþétta eign.

 

Ekki það að maður geri baun í því núna.  Fer varla að eyða krónu í viðhald.  Ekki þegar maður veit ekki hvernig þetta endar. 

 

Muniði þegar maður þóttist geta planað hlutina? Virðist eilífð síðan.

 

Get því ekki sagt að við séum komi í gegnum erfiðleikana en ég þori að segja að við séum millilent.

 

En þess vegna veit ég ekki alveg hvað ég á að gera við reisubókina.

 

Flestir eru betri en ég í að taka púlsinn á þjóðmálunum og áhugi lítill á því hjá mér þótt ég viðurkenni að mann klæjar í puttana að ýta á “blogga um frétt” þegar maður les að hakk hafi hækkað um 67% síðan í febrúar eða að skuldir ríkis og sveitarfélaga séu meiri en áður var haldið.  Svo ég tali nú ekki um þegar því er bætt við daginn eftir að staða heimilanna sé betri en talið var.

 

Skyldi þó ekki vera að til standi að aflýsa skjaldborg heimilanna?

 

Krúttlegar sögur af börnunum mínum eiga svo frekar heima á barnalandi og þótt af nægu væri að taka úr vinnunni er ég hreint ekki viss um að ég mætti deila því öllu með ykkur.

 

Svo hvað á ég að gera?

 

Langar ekki að hætta þótt ég hafi lítið að segja akkúrat núna, því á bak við hverja sagða sögu er önnur ósögð og vona ég að ég geti einhvern tíma sagt ykkur hana.

 

Langar því til að halda reisubókinni opinni þótt lítið verði um færslur í bili.

 

Var spurð um daginn hvort það hefði hjálpa okkur eitthvað að opna svona fyrir hvernig staðan var á okkur í vetur og við því er einfalt svar. Þið sem hafið komið hér við og hlegið og grátið með okkur í gegnum þetta hafið auðveldað okkur að takast á við þetta. Sú aflausn sem felst í því að skrifa sig frá hlutunum getur svo aldrei verið neitt annað en góð.

 

Þótt fáir hafi kvittað-þannig-höfum við fundið og auðvitað séð á heimsóknartölunum að miklu fleiri hugsa til okkar og fylgjast með okkur.  Og það er á hreinu að sá styrkur sem þið senduð okkur skilaði sér.  Klárt mál.

 

Helsti lærdómur vetrarins er að í erfiðum aðstæðum sýnir fólkið í kringum mann sitt rétta andlit. Svo margir hafa reynst okkur svo ótrúlega vel. Merkilegt að uppgötva hvað það þýðir að búa í samfélagi.

 

Upplifa að fólk, án umhugsunar léttir undir með náunganum, náunganum sem það jafnvel þekkir lítið. Veitir hjálp þar sem hjálpar er þörf, telur það ekki eftir sér, vill ekkert í staðinn og veit að margt smátt gerir eitt stórt.

 

En við vorum mjög heppin því við sögðum frá. Fólk verður auðvitað að velja sína leið en ég finn svo til með fólki sem ber þessar byrðar eitt án þess að biðja samfélagið um að bera þær með sér.

 

En það gleddi mig mjög mikið ef okkar saga hefur hjálpað öðrum í vetur til að finnast þeir ekki standa í þessu einir. Það verður ekki of oft sagt að við tókum öll góðar og gildar ákvarðanir miðað við þær forsendur sem voru uppi fyrir mestu efnahagslegu hamfarir sögunnar.

 

Hægist því hér um í bili en hver veit kannski verða hér bráðlega krassandi sögur af baráttu við bankana, uppboði og gjaldþrotaferli.  Auðvitað óskar maður þess ekki en ég hefði þá að minnsta kosti eitthvað til að skrifa um ekki satt?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband