Getum við fengið að fara á klósettið?

Við búum í sveit í bæ.  Í náttúruparadís innan bæjarmarka.  Hér er mikið dýralíf, flestir eiga hesta og hunda þó við eigum auðvitað bara börn.  Fuglalíf hér er svo fjölskrúðugt að fyrsta sumarið áttum við bágt með að sofa.

 

Við blinduðumst svo af kaupgleði við komuna hingað að við létum okkur í léttu rúmi liggja að ekki væri enn búið að malbika eða leggja hingað vísi að holræsakerfi.  Eitthvað blaður um að við værum á eignarlandi bóndans truflaði okkur heldur ekki neitt.

 

Holað var niður bráðabirgðarotþró og talað um að þess yrði ekki lengur að bíða en 2-3 ár þar til allt væri orðið eins og hjá öðrum í bæjarfélaginu.

 

En svo liðu auðvitað þessi 2-3 ár og nú rúmum fjórum árum síðar bólar auðvitað ekkert malbikunargræjum né neinu sem með góðum vilja mætti kalla holræsakerfi.

 

Það kom nefnilega upp úr kafinu að þótt við teldumst til íbúa bæjarins og borguðum þangað okkar skatta og skyldur þá teljumst við ekki fullgildir íbúar enda á eignarlandi bóndans og borgum þangað okkar lóðaleigu og deilur eru upp um hvort bærinn eða bóndinn eigi að greiða fyrir framkvæmdirnar.  En bærinn var samt svo almennilegur að lofa að tæma rotþróna á tveggja ára fresti meðan ekki er hægt að komast að samkomulagi.

 

Sem hefði auðvitað dugað hefðu þeir ekki sett niður sumarbústaðarrotþró.  Sumarbústaðarrotþró fyrir hús af stærri gerðinni og 6 manns.  Eða 4 eiginlega, Snædis Tinna er ennþá með bleyju og ég er flugfreyja.

 

Þegar þetta kom í ljós brást bærinn skjótt við og tæmdi þróna eftir þörfum enda almennt álitið eðlilegt að fólk geti farið á klósettið heima hjá sér.

 

En svo skall kreppan á og allt sem áður þótt eðlilegt og sjálfsagt er það ekki lengur.  Bærinn þarf að spara og nú man enginn eftir að hafa heyrt minnst á að við fengjum losun umfram tveggja ára samninginn.

 

Blessaður sumarbústaðarrotþróarræfillinn er nú orðinn fullur með tilheyrandi blúp blúp hljóðum og ekki nema eitt og hálft ár í næstu tæmingu á kostnað bæjarins!  Ef þörf er á tæmingu fyrr greiðum við það úr eigin vasa, sem ætti að vera létt og löðurmannslegt enda vasarnir fullir af 35.000 köllum.

 

Það er því ljóst að sundlaugarnar verða stundaðar af kappi, börnin beðin um að fara á klóið áður en þau koma heim úr skólanum og ef þú sem lest þetta ert á leiðinni í heimsókn, léttu þá á þér áður en þú kemur!

 

En yfir í annað, mér þykir vænt um íslenskuna.  Ég hef áhuga á íslensku og finnst mjög gaman að velta orðum og orðasamböndum fyrir mér og finnst unun að hlusta á fólk sem er vel máli farið.  En stundum svíkur hún mig.  Stundum á hún ekki orð við hæfi.  Íslenskan er auðvitað eldgamalt mál og á stundum svolítið bágt með að vera hip og kúl.

Ekki það að það þurfi alltaf allt að vera hip og kúl en var í alvöru ekki hægt að finna betra slagorð en "VANHÆF RÍKISSTJÓRN?"

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helena Leifsdóttir


Christian Glitter by www.christianglitter.com

Nú er bara spurning hvoru megin við bæjarmörkin þú býrð Kristín mín...slagorðið í Kópavogi er " Það er gott að búa í Kópavogi" veit ekki hvað Hanna Birna syngur !
Knús til þín
Helena

Helena Leifsdóttir, 21.1.2009 kl. 18:32

2 Smámynd: Hrund Traustadóttir

Júhú, það er sko alveg hægt að finna betra slagorð.

"Helvítis fokking fokk"  

Veit, ekki góð íslenska...

Hrund Traustadóttir, 21.1.2009 kl. 18:53

3 identicon

Jemin....
Búið þið ekki í Kórahverfinu, minnir það allavega.

Fríða Dóra (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 20:42

4 Smámynd: Kristín Bjarnadóttir

hæ stelpur, við búum við Elliðavatn við hliðina á Vatnsendabónda.

Skemmtilegt að rifja það upp að fyrir tveimur árum síðan tók Kópavogsbær allt landið sem bóndinn átti og meira til eignanámi og greiddi 2.35 millarða fyrir.  Það er tók allt nema þess smá ræmu sem við og örfá hús til viðbótar búum á.

Svo það er eiginlega ekki þannig að bóndinn eigi ekki pening til að græja þessa hluti hann bara nennir því ekki, eða þá að þetta er fyrir honum prinsippmál.  Bænum finnst svo eflaust algjört rugl að greiða þetta þegar þeir muna vel hvað hann þurfti að greiða inn á bankabók bóndans

Kristín Bjarnadóttir, 21.1.2009 kl. 21:17

5 identicon

Ekki er nú öll vitleysan eins segi ég nú bara....
Kveðja úr Vesturbænum, p.s. ykkur ef velkomið að kíkja við og kom á klóið hjá okkur ;)

María Björg (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 22:19

6 identicon

Dísjes, það leggst allt á eitt. Ég hef nú aldrei verið hrifin af Gunnari Birgissyni og er temmilega sátt við það að búa ekki nær Goldfinger en ég geri, svona bara svo það sé ekki stutt fyrir bóndann að skella sér. En hvernig hljómar annars "búið ball!"?   Ég treysti reyndar ekki neinum betur svo sem, bið bara allar fallegar vættir og ljós heimsins að vera með landinu okkar sem okkur þykir svo vænt um.  Hvað er eiginlega að þessum bónda? Á hann ekki bara að flytja til Dubai eða eitthvað.. Helvítis fokking fokk.

Drífa Magnúsd. (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 22:24

7 Smámynd: Kristín Bjarnadóttir

Takk María vel boðið og aldrei að vita nema við mætum!

Drífa styð að flytja bæði bæði bóndann, Goldfinger og Gunnar til Dubai!

takk fyrir að kvitta stelpur mínar!

Kristín Bjarnadóttir, 22.1.2009 kl. 02:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband