Sóttkví

Ef við fylgdumst almennt ekki með tímanum, dögunum eða mánuðunum gætum við samt ár hvert auðveldlega sagt okkur að það væri febrúar.

Febrúar er veikindamánuðurinn.  Mánuðurinn þar sem börnin hvert á eftir öðru falla fyrir því sem gengur þá stundina.

3/4 eru nú annað hvort veik eða að stíga upp úr veikindum og 3 gerðir að lyfjum í gangi sem eykur flækjustig heimilisins, sem almennt er frekar hátt.  Enda stakk Árni snuði upp í Bryndísi Ingu (9) í gær.

Við hin eldri stöndum pestirnar yfirleitt af okkur en  nú erum við bæði komin með í magann.

En bara yfir náminu.  Stór verkefni framundan sem lítill tími hefur gefist til að sinna meðfram venjulegum lestri, verkefnavinnu, heimilishaldi og veikindum barna.

Hef aldrei áður stundað nám fyrir peninga.

Eykur pressuna og pínuna til muna.

 

Endalok sýndarheimsins?

Fórum í gærkvöldi í mjög ánægjulegt matarboð.

Sérstaklega ánægjulegt því þótt aðstæður gesta væru mjög misjafnar, ræddu þeir stöðu sína hispurslaust.  Enginn talaði stöðu sína upp og raunar ekki niður heldur.

Spurning hvort við höfum upplifað heimsenda.  Hvort tími sýndarheimsins sé liðinn?

Fólk tali núna um hlutina eins og þeir eru í stað þess hvernig þeir gætu verið eða ættu að vera.

Fólk sé hætt að reyna að vera eitthvað annað en það er.

En kannski var þetta bara svona hreint og beint fólk.

Mynd ársins og bréf fjölskyldu í vanda.

Fréttamynd ársins að mati World Press Photo var birt á mbl.is í dag.

Rosaleg mynd.

Maður getur bara ímyndað sér hvað hefur gengið á, fram að þessum tímapunkti.

http://mbl.is/mm/folk/frettir/2009/02/13/bestu_frettamyndirnar_valdar/

Svo langar mig til að benda ykkur á bréf frá hjónum í vanda sem birtist í dag á visi.is.

http://visir.is/article/20090213/FRETTIR01/978435176

Mjög vel skrifað bréf sem segir allt sem segja þarf.

Okkar allra vegna verður eitthvað að fara að gerast.


Afmæli Bjarna Björgvins

Bjarni Björgvin varð 8 ára í dag.

 

Það sem var ólíkt með þessu afmæli og öðrum sem við áður höfum haldið er að allir komu með eitthvað með sér.

 

Tvöföld ánægja, því í stað þess að eyða deginum í bakstur og brauðréttagerð, bökuðum við bara eina köku og gátum því nýtt tímann saman.

 

Oft fundist leiðinlegt hvernig barnið sem allt á að snúast um týnist í undirbúningnum.

 

Sem betur fer er búið að leysa rotþróarmálið og gátu gestir því æi þið vitið.  Kom bíll hér óvænt og tæmdi, hvers vegna vitum við ekki.  Á sama tíma hvarf líka greiðsluseðillinn sem hangið hefur inni í heimabankanum.

 

Kannski þykir eftir allt eðlilegt að komast á klósettið í Kópavogi?

 

 


TAKK!

Kæru vinir, ég auglýsti um daginn eftir samstöðu.  Hún er fundin!

Þykir vænt um að þið gáfuð ykkur tíma til að skrifa hér á síðuna.  Mjög gaman og gott að lesa frá ykkur athugasemdirnar og sumar bráðfyndnar í ofanálag.  Eins hefur verið gott að heyra frá ykkur hinum með öðrum hætti.

Langar til að biðja ykkur um að sýna áfram þessa samstöðu.  Sýna hana fólkinu í kringum ykkur, það er fullt af fólki í vandræðum en segir ekki endilega frá því.  Fólk sem nær ekki að borga reikningana sína, heldur bara niðrí sér andanum og bíður þess sem verða vill.

Og umfram allt ekki dæma fólk.

Það litu langflestir til beggja hliða áður en þeir gengu yfir í góðærið og þar var ekkert að sjá, ekkert sem varaði fólk við þessu.

Hættum að draga upp að fólk hefði átt að vita betur.  Það skiptir engu máli í dag.  Það sem skiptir máli er að fólk fái tækifæri til að koma undir sig fótunum á ný.  Sem er auðveldara ef það er ekki fellt niður aftur með dómhörku.

Set inn tenginu fyrir ykkur sem sáuð þetta ekki.

Gott að vita af ykkur öllum þarna úti.

 

Gott þegar virkilega er tekið á málunum

Horfðum á beina útsendingu frá Alþingi í dag.  Veit ekki við hverju við bjuggumst en þó ekki þessu.

Er þetta fólk á gulu eða grænu deildinni?

Þjóðfélagið brennur, fyrirtæki og einstaklingar ramba á barmi gjaldþrots og á meðan er heilu dögunum eytt í sandkassanum.

Tragekómídía.

Tragekómídía sem breytist í farsa þegar Jóhanna fór að fikta í farsímanum sínum.

Eða var þetta ipod?

morgunsamskipti feðganna

Snorri (3) tók eitt af sínum aldurstengdu illauppalinn  fýluköstum í morgun, stundum hentar honum alls ekki að hlutirnir séu ekki eftir hans höfði.

Hann fær nú yfirleitt bara að eiga það við sjálfan sig, nema á morgnana þá verða allir að drífa sig af stað.

Árni reyndi að ýta á eftir honum með því að segja að nú yrði hann að koma, pabbi væri að verða of seinn í skólann en þá kemur:

"þú átt ekki að fara í skólann, þú átt að fara í vinnuna!"

Hvers vegna er honum ekki sama?


Flugfreyjustjórnin

20% nýrrar ríkisstjórnar eru flugfreyjur.  Að minnsta kosti í hjarta sínu.

 

Þetta getur ekki klikkað.

 

Því ef það er eitthvað sem flugfreyjur kunna er það að vinna undir álagi-í kappi við tímann.  Þær búa yfir ótal aðferðum til að gera stóru vandamálin agnarsmá.

 

Iss kreppan er bara osl-sto-osl með troðfulla vél á háannatíma.

 

Þær eiga pottþétt eftir að klára daginn þannig að allir ganga brosandi frá borði.

 

Vona bara að þær skilji ekki vélina eftir í rúst............

 

Bjargræðið

Ég hef engan áhuga á stjórnmálum.  Finnst þau leiðinleg.  Enda finnst mér flest það leiðinlegt sem ég botna ekkert í.

Ég botna til dæmis ekkert í að helmingurinn af VANHÆFri RÍKISSTJÓRN sé allt í einu ofsalega hæf núna.

Né því að sá flokkur sem mest hefur talað um að vita ekkert, hafa ekki fengið neinar upplýsingar, vita hreinlega ekkert hvernig staðan er, sé nú flokkurinn með lausnirnar.

 

Viðspyrnan

Já stundum þarf að ná botninum til að geta spyrnt sér upp aftur.  En ég sé eftir að hafa auglýst botnfall mitt á þessum vettvangi.  Það stjórnaðist af eigingirni og reiði.

 

Rétt er að taka fram að í síðustu færslu talaði ég aðeins fyrir sjálfa mig en ekki í nafni okkar beggja líkt og hingað til.  Árni fer ekki bombuleiðir enda kannski meiri bumba en bomba.

 

En án þess að ég ætli að halda því fram að ég hafi með þessu stungið á þjóðfélagslegt mein þá hefur fjöldi fólks haft samband við mig í framhaldi og haft svipaða sögu að segja.  Finnst auka á álagið að þurfa sífellt að réttlæta stöðu sína og það jafnvel gagnvart sínum nánustu.

 

Þarf jafnvel að verja áhyggjur sínar.  Sé reglulega bent á að þetta sé nú ekki það versta sem geti komið fyrir.  Það séu allir á lífi, við hestaheilsu og ekki á götunni.  Ennþá.

 

Gleymist að öllu hugsandi fólki sem bera ábyrgð á öðrum en sjálfum sér ber skylda til að vera áhyggjufullt.  Aðeins þannig nær það að horfast í augu við stöðuna og mögulega lágmarka skaðann.

 

Auðvelt að segja að maður eigi ekki að láta þetta ná til sín, erfiðara í reynd.

 

Við þurfum að fyrirgefa.  Hvort öðru og ekki síst okkur sjálfum.

 

Fyrirgefa okkur fyrir að taka þessar ákvarðanir, hætta að draga upp að við hefðum átt að átta okkur á þessu eða hinu.  Við tókum öll góðar og gildar ákvarðanir miðað við forsendur og ráðleggingar.  Það stendur.  Auðvelt að vera vitur eftir á.

 

Svo eru alltaf einhverjir sem þurfa að fyrirgefa sjálfum sér fyrir að hafa misst af ballinu.

 

En annars hef ég alltaf lagt mikið upp úr því að standa við það sem ég segi.  En þetta eru skrítnir tímar sem við lifum á, allt er í uppnámi, þar með talin persónuleg gildi fólks.  Ég ætla því að ganga á bak orða minna og hætta við að hætta að blogga.

 

Ég biðst afsökunar á því að hafa tekið reiði mína út á ykkur.  Ykkur sem gefið ykkur tíma til að kíkja hér við.  Er mjög þakklát fyrir öll hlýju orðin hér á síðunni, í símtölum, emailum og á facebookinni.

 

Einhvers staðar heyrði ég að maður tengdist umheiminum með því að deila litlu atriðunum í lífi manns.  Síðustu daga hef ég verið mjög vel tengd.

 

Ég lofa að öskra í kodda næst.

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband