að finna tækifærin

Nú er minna en vika þar til ég byrja aftur að vinna og spenningur farinn að gera vart við sig.

Mikið óskaplega er ég ánægð með fyrirtækið mitt!  Svo ánægð með skilaboðin sem það sendir okkur öllum.

Í kreppunni felast líka tækifæri og það fann það og greip það.

Vona að ákvörðun Icelandair verði öðrum fyrirtækjum hvatning, þau ákveði að láta slag standa þótt óvissan sé enn mikil.

Krafturinn kemur líka með vorinu.

Við höfum öll svolítið haldið niðrí okkur andanum í vetur og beðið þess sem verða vill en nú látum við hendur standa fram úr ermum og vinnum saman.

Nema auðvitað þessi einstöku sem gleyma að þeir eru hluti af heild og grafa undan batanum.

 

Samantekt á aðgerðum ráðuneytanna

Kvartandi sem ég endalaust er gaf ég mér tíma til að lesa 39 blaðsíðna “Samantekt ráðuneyta á aðgerðum vegna falls bankanna og áhrifa þess á efnahagslífið” sem var birt á Island.is í gær.

Samantektin er rosalega flott og margt talið upp sem gert hefur verið.  En kaffilyktin fór þó að stíga frá tölvuskjánum við endalausar upptalningar á starfshópum, stýrihópum og nefndum.

Nú er ég svo sem ekki buguð af fundarsetum í gegnum árin en hef þó setið nógu marga skemmtilega fundi til að gera mér grein fyrir að maður er manns gaman og að oft er erfitt að halda sig við efnið.

Vona bara að hóparnir og nefndirnar vinni hratt og vel að brýnum og þörfum verkefnum sem á endanum skila sér til okkar.

Hef bara áhyggjur af því hvað þetta kostar.

Auðvitað þarf að vanda sig, gera hluti vel og fara eftir lögum og reglum.

En.

Fékk í gær sent 2 blaðsíðna bréf um að fjármálaráðherra hafi skipað umsjónaraðila fyrir íslenska lífeyrissjóðinn og bla bla bla.  Renndi í gegnum bréfið og fleygði því.

Ég hef ekki grænan grun um meðlimafjölda í íslenska lífeyrissjóðnum en segjum að þeir væru bara 1000.  Það kostar 70 krónur að póstleggja sem þýðir að sendingarkostnaður var 70.000 kr! Eflaust eru mun fleiri í þessum lífeyrissjóði og upphæðin því hærri.

Var ekki nóg að birta þessa tilkynningu bara á heimsíðu fjármálaráðuneytisins eða á heimasíðu íslenska lífeyrissjóðsins?  Jafnvel báðum til að vera grand.

Röfl yfir smámunum?  70.000 er nánast matarkostnaður fjölskyldunnar og dygði fyrir tómstundum barnanna á vorönn!  Hvað ætli mörg svona bréf með upplýsingum sem flestum er sama um hafi verið send undanfarið?

Sinnum 70?

Kannski bar þeim lagaleg skylda að upplýsa mig sem meðlim en þetta á bara ekki við í dag.  Ég fer fram á það við stofnanir og sérstaklega stofnanir ríkisins að spara í þessum efnum því safnast þegar saman kemur, eins og allir vita.

En loks að plagginu.

Sumt hafði ég áður heyrt eins og með frestun nauðungarsölu og niðurfellingu á skuldajöfnun barnabóta en annað kom mjög á óvart.

Komst að því að:

Í lok október 2008 skipaði félags- og tryggingamálaráðherra hóp sérfræðinga til að skoða leiðir til aðbregðast við vanda lántakenda vegna verðtryggingar. Hópurinn lagði til að tekin yrði upp greiðslujöfnunfasteignaveðlána til einstaklinga til að mæta vaxandi greiðslubyrði verðtryggðra lána samhliðaminnkandi kaupmætti. Þetta var gert með lagabreytingu í nóvember." 

“Heimildir Íbúðalánasjóðs til að koma til móts við lántakendur í greiðsluvanda hafa verið rýmkaðar oginnheimtuaðgerðir stofnunarinnar mildaðar. Til nýrra úrræða telst heimild sem leyfir afturköllunnauðungarsölu gegn greiðslu þriðjungs vanskila í stað helmings vanskila áður. Þá var rýmingarferliuppboðsíbúða lengt úr einum mánuði í þrjá. Heimildir til greiðslufrestunar vegna sölutregðu á eldri íbúðhafa verið rýmkaðar. Þessar heimildir koma til viðbótar eldri úrræðum Íbúðalánasjóðs til að mæta fólki ígreiðsluvanda, svo sem um skuldbreytingu vanskila, lengingu lána og frystingu afborgana (af höfuðstól,verðbótum og vöxtum) um allt að þrjú ár.”

“Með breytingu á lögum um húsnæðismál sem samþykkt var á Alþingi í desember 2008 var heimilað aðlengja lánstíma lána vegna greiðsluerfiðleika í allt að 30 ár í stað 15 ára og hámarkslánstími hjá sjóðnumer lengdur úr 55 árum í 70 ár. Lenging hámarkslánstíma í 70 ár er gerð til að tryggja að allir geti nýtt sérheimild til skuldbreytingar láns í 30 ár.”

Þetta er ótrúlega flott!   Greiðslujöfnun verðtryggðra lána, alfrysting á lánum í 3 ár, greiðsluerfiðleikalán í 30 ár og 70 ára hámarkslánstími.

Auðvitað borga lántakendur lánin sín skrilljónfallt tilbaka ef það nýtir sér þenna aukna lánstíma en þetta er þó að minnsta kosti valkostur sem leið út úr vandanum.  Kannski er jafnvel uppgreiðslumöguleiki í boði?

En.

Um miðjan október 2008 beindi ríkisstjórnin tilmælum til fjármálastofnana að bjóða fólki ígreiðsluerfiðleikum sömu úrræði og bjóðast viðskiptavinum Íbúðalánasjóðs.”

Virðist ekki sem þessum tilmælum hafi verið tekið.  Að minnsta kosti er ekkert af þessu í boði hjá okkar lánastofnunum.

Áttaði mig ekki á að björgunaraðgerðir heimilanna ættu bara við um heimili sem hefðu tekið lán hjá ÍLS.

En þá er spurningin getur ÍLS keypt lánin mín?

“Íbúðalánasjóði hefur verið veitt heimild til að kaupa skuldabréf fjármálafyrirtækja sem tryggð eru meðveði í íbúðarhúsnæði hér á landi að því tilskildu að kaupin séu til þess fallin að tryggja öryggi lána áíbúðalánamarkaði og hagsmuni lántakenda. Heimildin á jafnt við um lán í íslenskum krónum ogerlendum gjaldmiðlum en sem stendur hafa ekki verið teknar ákvarðanir um yfirtöku sjóðsins áerlendum lánum.”

Hvað haldið þið?


Fasteign eða heimili?

Komið hálft ár síðan heimilið varð tekjulaust.  Ótrúlega góð tilfinning að hafa náð hingað án stórra áfalla.

Hefðum auðvitað aldrei getað það nema með góðri hjálp.

Stefnum í eina átt núna og erum farin að kveðja í huganum.

Ótrúleg aðlögunarhæfnin sem maðurinn býr yfir, finnum hvernig við erum farin að slíta tilfinningatengslin og undirbúa breytingarnar.

Suma daga tel ég sjálfri mér meira að segja trú um að ég verði fegin að fara héðan, einblíni á gallana og leiðindin við að eiga steypuhjall!  Hlakka til einfaldara lífs með minna viðhaldi og minni pirringi.

Aðra daga get ég ekki ýtt minningum frá mér.

Sé börnin mín í gegnum árin á ýmsum stöðum í húsinu.

Hér bættust þau yngri í hópinn, hér voru þau skírð og tóku fyrstu skrefin sín.

Hér lærðu þau stóru að lesa, hvernig maður er góður vinur og hvað skiptir máli.

Hér hefur fjölskyldan elskað, hlegið, dansað og greinilega tapað líka.

Þessa daga er steypuhjallurinn heimili!


Stund minninganna

Eftir nokkar mínútur er ár síðan við eignuðumst Snædísi Tinnu.  Hvað tíminn líður hratt!  Og hve margt hefur breyst.

Þið þekkið þetta eflaust.  Þekkið hvernig maður fer í huganum aftur um þetta eina ár, lifir aftur kraftaverkadaginn.

Lítur á klukkuna og man hvar maður var staddur í ferlinu.

Upplifir aftur í huganum einstaka stund.

Hef allt þetta ár verið meyr yfir áföngum í lífi litlu konunnar.  Því þó þeir marki upphaf, marka þeir einnig endalok.

Endalok ákveðins kafla í mínu lífi.

Allt sem gerist í fyrsta skipti hjá henni, gerist í síðasta skipti hjá mér.

Síðasta fyrsta brosið, síðustu fyrstu skrefin, síðasta skipti sem einhver segir í fyrsta skipti mamma.

Á morgun höldum við upp á síðasta fyrsta afmælisdaginn.


kafað ofan í kok

Fór með ¾ barna í sund í kvöld í yndislegu veðri.  Jafnast fátt á við að sitja í fimbulkulda í heitum potti í faðmi barnanna.

Finnst alltaf jafn töfrandi að fara í sund á vetrarkvöldum.  Rómantískt jafnvel.

Og það fannst parinu við hliðina á okkur líka.  Var varla komið ofan í fyrr en hún sest klofvega ofan á hann og þau taka til við laugarmetið í keleríi.

Því miður ekki í fyrsta skipti sem við verðum vitni að svona löguðu og skiptir þá engu hvort um sé að ræða dag eða kvöld, Ísland eða sólarströnd.

Myndi fólk undir einhverju öðrum kringumstæðum gera þetta?  Hefði hún sest ofan á hann og sleikt hann að innan í afgreiðslunni?

Það er staður og stund fyrir allt.

Það er enginn svo yfirkominn af tilfinningum að hann geti ekki hamið sig innan um annað fólk.  Svo ég tali nú ekki um börn.

Ef þetta væri í lagi þá gerðu þetta fleiri.

 

Lagt til hliðar

Bryndís (9) fór að segja mér í gær hvað vinkonur hennar ættu mikinn pening.

Ein ætti xxx þúsund, ein xxx þúsund og ein xxx þúsund.  Útskýrði svo fyrir mér að foreldrar þeirra legðu mánaðarlega inn á reikning fyrir þær eða hefðu læst einhverja upphæð inn á bók til 18 ára aldurs.

Allt hennar fas gaf til kynna hve miklar fréttir hún væri að segja mér og hvað henni finndist þessir foreldrar sniðugir.

Mikið var ég fegin að við ákváðum á sínum tíma að segja börnunum okkar ekki að við legðum mánaðarlega peninga til hliðar í þeirra nafni.

Veit ekki alveg hvernig ég hefði útskýrt að fyrst hefði Peningamarkaðssjóðurinn tekið 30% og við síðan notað restina í mat og reikninga.

 

Að stela öskudeginum

Fjölskyldan brá sér úr bænum síðustu helgi.  Yfirlýstar ástæður voru vetrarfrí barnanna og þörf fyrir tilbreytingu.  Dulda ástæðan var sú að hafa öskudaginn af börnunum.  Ekki það þetta er frábær dagur í alla staði þegar börnin eru í leikskóla en þetta vesen með að ganga á milli staða til að betla nammi finnst mér hinn mesti ósiður.  Finn svo til með þessu eftirvæntingafullu greyjum, lufsast um í hvaða veðri sem er og við misjafnar undirtektir.

Svo er ástæðan líka e.t.v sú að ég hef staðað á bak við búðarborðið í sjoppu á öskudegi og það er eitthvað sem ég óska engum og fæ mig því ekki til að gera neinum.  Meðvirkni-já mætti segja mér það.

En það kemur í hausinn á manni að vera svona ófyrirleitinn.  Heiti potturinn virkaði ekki, uppþvottavélin dó, Bjarni (8) var veikur nánast allan tímann og svo veiktist Snædís Tinna (1).

Eftir tvær andvökunætur lögðum við mæðgur land undir fót og keyrðum í næsta bæjarfélag.  Skautandi í glerhálku á okkar annars yndislega SUV sem ég hef aldrei náð hvað þýðir en áttaði mig á í þessari ferð að þýddi Senn Utan Vegs og símalausar þar sem síminn gafst upp eftir hálftíma.

Á svipuðum stað þar sem maður getur nánast valið um út í hvaða á maður vill renna.

Á undan okkur inn á heilsugæslustöðina rúlluðu svo sjúkraflutingamenn börum með slösuðum manni sem hafði farið út af á svipuðum slóðum og leið okkar lá.

Ég var í svo miklu uppnámi yfir að þurfa að leggja í heimferðina við sömu aðstæður að samtal mitt við lækninn var súrrealískt.  Hann spyr hvað barnið hafi verið með mikinn hita um morguninn og ég svara að ég hafi ekki mælt hana heldur rokið af stað.  Hann spyr þá hvernig ég viti að hún hafi verið með hita!  Skellir svo mæli í eyrað á henni og fær út að ekki aðeins sé hún hitalaus heldur nánast með köldu barasta.

Þar með var málið afgreitt.  Enginn hiti kom fram á mælum og þar með amaði ekkert að barninu.  Við höfum lagt í þessa hættuför til einskis.

Ég kom því ekkert að að ég hefði gefið henni stíl áður en við lögðum af stað, að hún hefði verið brennandi heit, glaseygð og grátið nánast stanslaust.

Ekki laust við að mig langaði bara að keyra heim í stað þess að keyra aftur í bústaðinn-segja þeim hinum bara að taka rútuna heim.  Þessa sem kemur í sumar.

En þetta fær maður fyrir að reyna að ræna börnin öskudeginum.

Enda vorum við með svo mikið samviskubit að við keyptum alltof mikið nammi í Bónus á leiðinni heim, skelltum þeim í búninga og máluðum þau í framan.

Gott ef við erum svo ekki með hugmyndir um að opna sjoppu fyrir næsta öskudag.

 

 


Árni á leið í fimleika

Árni fékk tímabundna vinnu í dag.  Leysir af rekstrarstjóra Gerplu fimleikafélags í tvo mánuði.

Óborganlegur svipurinn á krökkunum þegar við sögðum þeim að pabbi þeirra væri að fara að vinna í Gerplu.  Voru virkilega hissa á að einhverjum dytti til hugar að ráða pabba þeirra sem fimleikaþjálfara, sérstaklega eftir að hann svo eftirminnilega ristarbraut sig á jólasýningu félagsins um árið.

Við erum ótrúlega ánægð og glöð með þetta og erum félaginu óendanlega þakklát fyrir að hugsa til okkar.

 


Hinn hinn skemmtilegi!

Mamma, hinn er skemmtilegur!

Hinn hver?

Hann hinn!

Hvaða hinn?

Ekki hinn heldur hinn heldur hinn heldur hinn heldur HINN.  Hann er skemmtilegur!!!

Á morgun er hinn hjá fjölskyldunni, en meira um það á morgun.


Fryst fyrir finna.

Fjölskyldan fékk fréttamann frá finnska sjónvarpinu í heimsókn í gær.  Hvers vegna?  Jú ef maður byrjar að barma sér í sjónvarpi virðist það vinda upp á sig.

Karrí þessi vinnur fyrir sjónvarpsstöðina MTV3 (nei ekki þá MTV) og fer á öll helstu stríðs-og hamfarasvæðin.  Afganistan, Gazaströndina, Vatnsendablettinn.

Viðtalið fór fram á ensku og gekk vel.  Enskan varð mitt móðurmál allt þar til ég var orðin of örugg, talaði of hratt og fór allt í einu að útskýra lánafrystingu!  Heilinn bremsaði en á meðan hann hugsaði hvernig í ósköpunum lánafrysting væri á ensku heyrði ég sjálfa mig segja:” freezing the loans!”  og bætti svo við hinu íslenska alútskýrandi:”you know.”

Greinilegt var að þetta átti að vera dramatískt innslag um ástandið á Íslandi.  Hann stökk út í slagviðrið og tók myndir af fjölskyldunni drekkandi djús, inn um skítugar rigningarrúðurnar.  Myndaði Amazonfljótið sem rennur hér á milli hálfkláraðra lóðanna og kórónaði svo meistaraverkið með því að taka upp hvininn í vindinum.

Svo settumst við á gólfið og púsluðum saman, svona eins og íslenskar fjölskyldur gera svo mikið.  Bryndís Inga teygði sig eftir púsli inn í skáp og það var auðvitað engin tilviljun að það var púsl af Íslandi, reyndar Larsengerð, framleitt í Noregi.

Er hægt að hafa þetta meira Hollywood?  Þarna situr á gólfinu tæknilega gjaldþrota fjölskyldan flötum beinum og raðar saman litlum brotum af Íslandi.

Karrí kallinn féll í sömu gildru og (jón s.) um daginn og dáðist að ikealjósunum, sérstaklega auðvitað eldhúsljósinu sem hann taldi vera hið sanna Le Klint.  Ljósrofarnir urðu þó ekki tilefni umræðna að þessu sinni enda maðurinn á staðnum og gat því greint á milli plasts og glers.

Merkilegt að hitta mann sem hefur farið svo víða og við spurðum hann spjörunum úr.  Hann og sérlega skemmtileg aðstoðarkona hans enduðu líka á að eyða hér hálfum deginum.

Kreppan hefur þó að minnsta kosti gefið okkur frábæran dag og viðkynningu við skemmtilegt fólk sem ekkert erindi átti við mann áður.

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband