Fleira fólk með frumkvæði?
6.5.2009 | 21:40
Hitti gamla vinkonu mína í sundi um helgina. Sú er ótrúlega huguð og ég er ótrúlega stolt af henni.
Hún stofnaði nefnilega fyrirtæki á þessum síðustu og æ þið vitið. Hún byrjaði með 3 milljónir í eigið fé. Lengri tíma tók en áætlað var að opna og því lágu millurnar óhreyfðar í einhverja mánuði inn á bók. Hún hefur staðgreitt allt og stendur óaðfinnanlega að málum.Henni datt til hugar að nefna það við bankann hvort hún gæti mögulega seinna fengið 50.000 yfirdrátt ef eitthvað óvænt kæmi upp. En bara ef.
Svarið var: Við hjálpum ekki nýjum fyrirtækjum! Hjálpum? Í hvaða stöðu telur bankinn sig vera? Getur hjálp einhvern tíma borið 20% vexti? Hrokafullt svo ekki sé meira sagt og í engum takti við orð Steingríms og Jóhönnu rétt fyrir kosningar. Eflaust sögðu þau fleiri en ég man þau svo vel frá þeim, enda horfir maður til þeirra í von um úrlausnir.Þau sögðu: stjórnmálamenn búa ekki til störf það er fólkið í landinu sem það gerir.
Má ég gera smá kröfu um samræmi hérna? Það er ætlast til að fólkið í landinu, fólk eins og þessi kunningjakona mín taki sig til og skapi sér og vonandi fleirum störf án þess að eiga kost á lánsfé, hér var ég næstum búin að skrifa hjálp, til dæmis til að brúa bil milli innkaupa og sölu.
Ég hef áður minnst hér á það óréttlæti sem verktökum er sýnt með því að greiðsluaðlögunarúrræðið stendur þeim ekki til boða og þetta litla dæmi bætir gráu á svart. (http://www.althingi.is/altext/136/s/0845.html)
Stjórnmálamenn vonast eftir fólki sem hefur kjark til að taka áhættu við verstu aðstæður sögunnar, kraft til að ýta pikkföstum hjólum atvinnulífsins upp úr skítnum og greinilega fulla vasa af peningum.
Við horfum líka til þessa fólks. Vonum að það skapi okkur og okkar atvinnu.
En getum við í alvöru farið fram á það að einhver taki þessa áhættu? Án hjálpar frá Ríkisbönkunum? Og getum við farið fram á það við fólk að það gefi frá sér neyðarúrræði ef allt fer á versta veg?
Er það svolítið eins og að hvetja einhvern til að setjast upp í bremsulausan bíl og vona að hann drepist ekki?
Próftími
2.5.2009 | 14:06
Próf á mánudag og miðvikudag. Úff! Spyr sjálfa mig aðra hvora mínútu hvort þetta sé þess virði. Eins og þetta hefur verið gaman í vetur þá er aldrei gaman þegar kemur að prófum.
En þetta á auðvitað ekki að vera bara gaman, þetta verður að vera erfitt líka þótt ekki sé nema bara til að upplifa feginleikann þegar þau eru búin.
Ólýsanleg tilfinning sem fylgdi því annars að fá útborguð laun! Get eiginlega ekki lýst því. Búin að hringja nokkrum sinnum í bankasímann bara til að heyra fallegu karlmannsröddina segja mér hver staðan á reikningnum mínum sé.
Reikna og reikna í huganum og reyni að ráðgera framtíðina til að koma sem best undir okkur fótunum á ný.
Enda er nokkuð skrítið að maður láti hugann reika frá námsefninu?Kveðjustund
25.4.2009 | 22:22
Amma hans Árna lést aðfararnótt sumardagsins fyrsta. Stórkostleg kona og á undan sinni samtíð á svo margan hátt.
Hún átti 5 börn, 18 barnabörn og 17 barnabarnabörn en setti sig inn í líf þeirra allra. Mundi ekki aðeins afmælisdaga og stórviðburði heldur litlu hversdagslegu atriðin sem skipta svo miklu máli.
Man svo vel hvað ég var hissa þegar hún hringdi í okkur eftir að Birgitta Haukdal vann í eurovision um árið til að samgleðjast Bryndís Ingu sem sá auðvitað ekki sólina fyrir Birgittu á þeim tíma.
Mér þótti svo vænt um hvað hún sýndi börnunum mínum, mér, fjölskyldu minni og vinum áhuga. Hún vissi sem er að blóðtengslin ein mynda ekki fjölskyldu og hún lét mér líða eins og ég væri hluti af sinni.
Mig langaði svo að segja henni hvað mér þætti vænt um hana og hvað mér þykir vænt um hvernig hún tók mér.
Vissi ekki þá að kveðjustundin ein væri eftir.
Tryggjum börnum dýrt morgunkorn!
20.4.2009 | 23:03
Búin að liggja í rúminu meira og minna í þrjá daga. Er það ekki týpískt að um leið og ganga fer betur, bresta einhverjar varnir og maður leggst í rúmið?
Er ekki líka týpískt að þegar ég hafði legið í rúminu í tvo tíma, opnaði Snorri (3) hurðina hægt, horfði á mig eins og ég væri eitruð og spurði af hverju ertu ALLTAF veik?
Komum annars við í Krónunni áðan, gripum tvo kassa af morgunkorni og þvottaefni og vorum beðin um 2800 krónur við kassann.
2800 krónur.
Þvottaefnið átti að kosta um 1700, annar morgunkornspakkinn um 700 og hinn um 400.
Snorri varð eðlilega svolítið súr yfir að skilja morgunkornið eftir í búðinni, þó hann sæi ekkert eftir þvottaefninu.
Á leiðinni heim hljómaði framboðsauglýsing á milli laga og ákveðin konurödd talaði um að bæta þyrfti hag heimilanna, hlúa að fjölskyldunum og byggja velferðarbrú.
Mamma heyrðirðu?
Ha?
Mamma heyrðirðu? Konan sagði að dýrt morgunmat væri fyrir börn!
Og gott ef það var ekki það sem hún sagði. Þýðir ekki velferðarbrú að ég geti keypt allan venjulegan mat fyrir fjölskylduna mína?
Og þvottaefni líka?
frábær frétt
16.4.2009 | 11:39
Frábær umfjöllunin um skjaldborg heimilanna á stöð 2 í kvöld. Skjaldborgina sem lögfræðingurinn sem rætt var við vildi meina að væri ekki einu sinni tjaldborg.
Endilega gefið ykkur tíma til að horfa á þetta ef þið sáuð þetta ekki.
Við umfjöllunina má bæta að fjármálastofnanir alfrysta aðeins fasteignaveðlán á fyrsta veðrétti. Fólk fær því ekki að velja að losa sig við óhagstæðari lán á seinni veðréttum og það þrátt fyrir að lán sé samt á öruggum veðrétti miðað við fasteignamat. Í þessu sambandi er heldur ekkert tillit tekið til atvinnustöðu fólks, reglur eru reglur.
Svo gildir greiðsluaðlögunin ekki fyrir verktaka.
Lögin ná ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hafa borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hafa lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hafi verið hætt og þær skuldir sem stafa frá atvinnurekstrinum séu tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra. (http://www.althingi.is/altext/136/s/0845.html)
Skrítið að einn hópur fólks sé tekinn svona út úr.
Er það virkilega vilji Alþingis að makar og börn verktaka njóti ekki sömu úrræða og aðrir?
Getur það verið að maður sem tekur lán með veði í fasteign sinni og kaupir sér fjórhjól og crossara geti nýtt sér úrræðið en ekki ef hann keypti sér gröfu og traktor til að sinna eigin atvinnustarfssemi?
Um daginn var það búsáhaldabyltingin.
Hvað segiði um heimilistækjabyltingu? Best ég mæti með flatskjáinn minn og safapressuna, slái þeim saman og öskri.....æ hvað var það aftur?
Æ já vanhæf ríkisstjórn.
http://vefmidlar.visir.is/VefTV/?channelID=STOD2&programID=b2fab606-e8f9-4500-a4d9-15008d8978da&mediaSourceID=6ddd04a6-8a02-4fd1-92a8-682f1dbca6b4&mediaClipID=dc282104-9bd3-45ef-8324-5ff4fae6fa62
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Og hefst þá moksturinn!
13.4.2009 | 13:12
Árni byrjar í nýrri vinnu á morgun. Ef vel gengur gæti það verkefni tekið ár.
Skyndilega höfum við tækifæri til að snúa hlutunum við og ótrúleg vellíðan sem fylgir því að vera aftur gerandi í eigin lífi.
Nú er undir okkur komið að snúa vörn í sókn, bæta stöðu okkar eins og hægt er þar til lán losna úr frystingu.
Vitum auðvitað ekkert hvernig þetta verður ef lán halda áfram að rjúka upp úr öllu valdi og við það bætast afborganir af láninu sem við höfum lifað á í vetur.
En í fyrsta skipti í marga mánuði finnst mér eins og þetta hljóti að fara allt vel.
Gott ef ég næ ekki aftur djúpa andanum.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Spenna í loftinu
6.4.2009 | 10:07
Fór í fyrsta flugið mitt í gær.
Mikil spenna var í heimilisfólki kvöldið fyrir flug. Bjarni (8) sveimaði í kringum mig og þurfti að koma við mig og faðma í tíma og ótíma, ef hægt er að segja að börn faðmi mann í ótíma, enda kom í ljós að hann var mjög áhyggjufullur. Róaðist þó á endanum eftir að hann hafði spurt nægu sína um brotlendingar og hvað hann ætti að gera ef ég kæmi ekki aftur heim.
Öll börn á heimilinu sem kunna og geta farið fram úr rúminu komu svo upp í um nóttina og á einum tímapunkti áttaði ég mig á að þau héldu öll í mig.
Á leiðinni til Keflavíkur fann ég svo í veskinu mínu ástarbréf frá Bryndís Ingu (9).
Er hægt að biðja um betra veganesti?
á rauðu ljósi
3.4.2009 | 22:22
Ótrúlega gaman að vera byrjuð aftur að vinna.
Er síðustu 3 daga búin að vera á mjög svo nauðsynlegu og skemmtilegu upprifjunarnámskeiði. Fékk að hoppa út í neyðarrennu, príla upp í björgunarbát, slökkva eld með kæfandi reykhettu á hausnum, hnoða og blása lífi í dúkku og kynna mér allt sem er búið að breyta.
Sem er meira en lítið enda búin að vera frá í eitt og hálft ár.
Tekur smá tíma að finna taktinn eftir öll þægilegheitin og því búið að ganga á ýmsu við að koma öllum út og á rétta staði á réttum tíma.
Gekk þó ágætlega í morgun. Þurfti bara að hlaupa stigann 3 sinnum að ná í eitthvað sem gleymdist, nestið fór með og allir mættu á réttum tíma. Á rétta staði.
Á stórum gatnamótum leit ég í baksýnisspegilinn. Það vantaði bara eitt.
Ég gramsaði í töskunni, fann varalitinn og varalitaði mig,
með túrtappa.
Klippt
30.3.2009 | 21:02
Fór síðast í klippingu í júní.
Árni hefur síðan þá tekið að sér að breyta gráum hárum í ljós með lit úr apótekinu.
Þó nokkrar útlitskröfur eru gerðar í vinnunni og fór ég því í morgun á hárgreiðslustofuna Salahár þar sem klipping kostar aðeins 4000 krónur.
Var nýkomin heim þegar krakkarnir koma úr skólanum.
Bjarni (8) gengur inn, sér mig og segir vvvvváááááá hvað þú ert flott!
Og Bryndís (9) bætir við þú ert eins flott og þú varst einu sinni!
Þá spyr Bjarni var ég lifandi þá?
Sjálfsbjargarviðleitni eða gullgrafarar?
30.3.2009 | 11:44
Einhverjir sem huggu í síðustu setninguna í síðustu færslu.
Já hvað átti ég eiginlega við?
Bara það að það eru alltaf einhverjir sem hugsa meira um eigin hagsmuni en heildarinnar.
Ætli við gerum það ekki öll reglulega. Þegar á reynir?
Forsendur breytast og hagur minn og hagur heildarinnar fer misvel saman.
Eitt dæmi um þetta er að kaupa íslenska vöru. Þegar ég á pening reyni ég að kaupa íslenska vöru en um leið og verðið er það sem skiptir öllu kaupi ég bara það sem er ódýrast.
Þessir sögulegu tímar sem við lifum á hafa auðvitað stillt ansi mörgum upp við vegg og erfitt fyrir fólk að taka ákvörðun um hvað er rétt. Er rétt að hugsa um eigin hag, til að redda sér eða er rétt að hugsa um hag heildarinnar?
Og þegar aðstæður eru þetta erfiðar þá stendur fólk frammi fyrir því að þurfa að velja á milli einhvers veigameira en hvort það kaupir euroshopper kjötbollur eða Goða.
Dæmi eru um að fólk skrái sig atvinnulaust en vinni svo svarta vinnu.
Dæmi eru um að útflytjendur komi ekki með gjaldeyrinn heim, auk þess sem einstaklingar fari úr landi með gjaldeyri, kaupi íslenskar krónur á útsölu og hirði mismuninn.
En hvað á fólk að gera? Hversu langt á fólk að ganga í að hugsa um velferð samfélagsins ef það sér ekki fram úr eigin fjármálaflækju?
Er hægt að fara fram á það?
En hvar eru mörkin á milli sjálfsbjargarviðleitni og græðgi?
Að lokum, það hefur áður komið hér fram að ég hef ekki hundsvit á stjórnmálum en reyni þó að fylgjast með.
Mér fannst stórkostlegt að sjá Jóhönnu Sigurðardóttir í ræðustól við lok landsfundar þar sem hún myndaði eilítið skökkum útréttum örmum sigurmerkið.
Kann ekkert skilgreininguna á jafnaðarhugsjóninni utanbókar en ég hnaut um þetta:
Hagsmunir okkar og hugsjónir snúast um að sækja fram, til meiri jafnaðar, sanngirni og réttlætis fyrir okkar fólk. Stefna okkar er skýr við viljum innsigla sáttmála við þjóðina um ný gildi á traustum grunni jafnaðarstefnunnar.
Okkar fólk? Eins gott að skrá sig í Samfylkinguna!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)