Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Með svörtum Bic penna

Bjarni Björgvin hefur alltaf verið mjög mikill mömmukall.  7 ára segir hann oftast ennþá mamma MÍN.

 

Hann ætlar aldrei að giftast, hvað þá flytja að heiman.  En einstaka sinnum gerir hann sér grein fyrir að ekki er ætlast til að menn búi endalaust hjá mömmu sinni.  Þá daga getur hann vel hugsað sér að byggja sér hús í garðinum.

 

Hann hefur nýlega fengið mikinn áhuga á að teikna.  Alls konar hluti og persónur.  Semur jafnvel heilu myndasögurnar.

 

Í kvöld tattúveraði hann svo handleggina.

 

Með svörtum Bic penna.

 

Þemað var ógeðslegt. Varla sást í húð fyrir köngulóm, hauskúpum, drekum og slöngum í bland við blóðstorkin augu.

 

Frekar fúll þegar tími kom á að fara í bað. Öll vinnan máðist af.

 

Þegar ég breiddi yfir hann í kvöld sá ég að hann hafði farið vel ofan í eitthvað á vinstri handleggnum.

 

Eitthvað sem skipti máli.

 

Með svörtum Bic penna.

 

Æ lof mæ mom


Geta tölvur frosið en ekki fryst?

Sá í fréttum í síðustu viku að farið væri fram á við lífeyrissjóðina að þeir tæku vel í óskir um lánafrystingar og hringdi því í V.R.

 

Þar er sjálfsagt að skoða frystingu á láninu mínu í allt að ári en greiða þarf áfram vexti og verðbætur á vexti.

 

Það þýðir að ég greiði áfram 2/3 lánsins sem gerir akkúrat ekkert fyrir mig.

 

Eins þarf lánið að vera í skilum ef skoða á frystingu.  Spurði hvað það nákvæmlega þýddi.  Hvort nóg væri að missa úr einn gjalddaga til að ekkert yrði gert fyrir mig.

 

Erfitt er að bakfæra útgefinn gjalddaga en þó mögulegt.  Ef komið er fram yfir gjalddaga byrja eðlilega dráttarvextir og kostnaður að telja og þá er ekkert hægt að gera.

 

Tölvan leyfir það ekki.

 

Engu skipti hvort maður hafi ávallt staðið í skilum og ekkert tillit er tekið til aðstæðna.  Gjalddaginn er ógreiddur og lánið því ekki í skilum.  Punktur.

 

Fólk verður að fatta að það er að lenda í vandræðum.  Hafa samband fyrir gjalddaga.

 

Eftir það er ekkert hægt að gera.

 

Hvað með fólk sem skyndilega fær ekki launin sín?  Skilar inn vinnu fyrir mánuðinn en fyrirtækið getur svo ekki greitt út laun.  Þetta fólk missir úr gjalddaga, fyrirvaralaust.

 

Ekkert hægt að gera fyrir það.

 

Tölvan getur ekki fryst lán eftir gjalddaga.

 

Réttur til engra upplýsinga

Bryndís kom heim úr skólanum fyrstu vikuna í október og spurði mig hvort bankarnir væru að fara á hausinn. Ég spurði til baka af hverju hún héldi það. Kennararnir voru að tala um það. Fyrir hálfum mánuði spurði svo hún hvort Ísland væri að fara á hausinn. Hafði líka heyrt það í skólanum.

Fólk talar skiljanlega varla um annað. Sama hvar það er.

Enda skiljum við hvorki upp né niður í neinu. Þurfum meiri upplýsingar og skýr svör.

Eigum rétt á því.

En kannski eru sumir búnir að fá of mikið af upplýsingum.

Hafa þeir ekki líka rétt?

Langar að deila með ykkur bréfi sem Íris 4 barna móðir sendi mér þar sem hún lýsir þessu einstaklega vel.

Ég er fjögurra barna móðir, ég er svo lánsöm að börnin mín eru öll heilbrigð og ánægðir einstaklingar. Þau er á öllum aldri og eru að læra á lífið hvert á sinn hátt, öll stödd á mismunandi stigum á lífsins þrepum. Þau er afskaplega venjuleg en samt svo einstök hvert fyrir sig, eins og öll börn eru. Þau eru framtíð þessa lands og ríkidæmi okkar liggur í þeim, þessum ungu lífum.

Þau munu erfa landið, þau munu þurfa að takast á við lífið og tilveruna, erfiðleika og allar þær hindranir sem á lífsins göngu verða.

Þannig er lífsins ganga þótt hver og einn hafi sitt göngulag.

Ég er búin að hugsa svo mikið um þetta í þessari umræðu og fjarðafoki sem hefur einkennt ísland síðustu vikur.

Nú er komið nóg. Það þýðir ekki að ég hafi ekki samúð með þeim sem standa uppi slippir og snauðir, að ég átti mig ekki á því að það er fólk þarna úti sem er búið að missa allt sitt....þá meina ég allt því heilsan farin líka. Ég veit að það er gamalt og ungt fólk sem er búið að leggja mikið á sig og stendur uppi með ekki neitt...þetta veit ég allt.

En það er samt komið nóg.

Ég hef ekki vald,auð né neitt annað til að gera þessu fólki lífið eitthvað léttara annað en að hafa það í bænum mínum.
En ég get haft áhrif á hvernig börnin mín koma út úr þessu.

Nú er mál að hlúa sem aldrei fyrr að börnum okkar. Það hlýtur að vekja kvíða,ugg og óöryggi að sjá trekk í trekk fyrirsagnir um að nú sé ísland komið á botninn, verði ekki til matur og fleira og fleira og blessuð börnin skilja þetta á sinn hátt, hvert með sínum skilningi og þroska.

Ég mæli með að við hlúum að heimilinu,höfum heimilið griðarstað þar sem þetta brjálæði nær ekki til. Griðarstað þar sem ríkir kyrrð og kærleikur og gleði, allt eru þetta ókeypis hlutir. Hlýtt faðmlag, bros og hlátur. Ef þau upplifa okkur á þennan hátt anda þau léttar og ábyrgð sú sem þau finna fyrir verður léttari.

Það er öllum börnum sem og okkur fullorðnu hollt að hugsa okkar gang, endurskipuleggja og fara vel með. Breytum þessu neikvæða sem vofir yfir öllu í jákvætt andrúmsloft og hlýlegt viðmót.

Börnin okkar eru það dýrmætasta og eiga það besta í heimi skilið. Þau þurfa ekki að hlusta á okkur hafa áhyggjur af peningamálum og fleiru. Þau eiga eftir að takast á við það í sinni framtíð. Ræðum þessi mál sem koma börnum okkar ekki við þegar þau heyra ekki til, því það er svo merkilegt hve margt er misskilið og ekki rétt heyrt.

Takk Íris fyrir að minna okkur á þetta.


Eiga börn heima í mótmælum?

Takk fyrir frábærar móttökur.  Gaman hvað margir hafa kíkt hérna inn en langt í frá undarlegt miðað við hvað ég auglýsti þetta.

Finn hjá mér þörf til að skrifa mig í gegnum þetta tímabil.  Ekki síst vegna þess að mig grunar að það verði sögulegt. Vona að ég standi undir væntingum, reyni að minnsta kosti mitt besta til að valda ekki vonbrigðum.  Kem líka greinilega til með að fá aðstoð.  Margir búnir að hafa samband með hugmyndir og ábendingar.  Einn vinur okkar er til dæmis mjög áhugasamur um að ég læði því hér inn hvað hann er í góðu formi 36 ára.

Árni ætlar í mótmælin í dag.  Samt ekki alveg viss hverju nákvæmlega er verið að mótmæla.  Skiptir heldur engu máli, ástandið er ömurlegt, sama hvaða vinkill er tekinn á það.  Bara spurning um að taka afstöðu.

Vill taka stóru krakkana með.  Var sjálfur alinn upp við að mótmæla án þess þó að foreldrar hans séu einhverjir atvinnumótmælendur.  Á t.d. góða minningu um rölt með þeim frá Varnarstöðinni í Keflavík til Reykjavíkur.

Árni hefur lagt áherslu á þennan uppeldisþátt og tekið börnin með sér í mótmæli án athugasemda af minni hálfu.  Þau mótmæltu til að mynda Íraksstríðinu og Falun Gong skrípaleiknum kröftuglega, úr köflóttri tvíburakerru.

Bara gott mál.

En nú set ég mig á móti því að þau fari með.  Set spurningamerki við að þau fái ástandið svona beint í æð.  Finnst mikilvægt að hlífa börnunum eins mikið og mögulegt er.  Vona heitt og innilega að þau verði lítið sem ekkert vör við eitt eða neitt.  Fái að vera börn.  Kreppan mikla verði eitthvað sem þau furða sig seinna á að hafa upplifað.

Sé ekki alveg að þau hafi gott af því að fara með pabba sínum að mótmæla því hve allt er ömurlegt á Íslandi.

Vil að þau trúi því áfram að Ísland sé best í heimi og þau séu heppin að búa hér.

Þar til þau eru nógu stór til að mynda sér skoðun á því sjálf.


Venjulegt fólk

Við höfum verið beðin um að lýsa því hér reglulega hvernig kreppan fer í okkur. Ekki vegna þess að við séum eitthvað merkilegri en annað fólk, heldur einmitt vegna þess að við erum það ekki. Við erum bara venjulegt fólk, almenningurinn, lýðurinn. Höfum það ekkert betra eða verra en aðrir.

Við áttum auðvitað okkar spretti í góðærinu. Prófuðum að vera flottræflar. Kvittuðum undir nóturnar án þess að skoða upphæðina, fórum til útlanda tvisvar á ári og gott ef sjálfur Herbert Guðmundsson var ekki pantaður hingað í partý.

En við keyptum aldrei hlutabréf, erum ekki með gengislán og áttum aldrei neitt til að setja í peningamarkaðssjóði. Við töpuðum því engum peningum.

En við sjáum á eftir öðru. Árni er búinn að missa fyrirtækið sitt. Fyrirtækjaumhverfi er búið að vera með þeim hætti á þessu ári að það gat ekkert annað gerst. Reksturinn og aðgangur að fjármunum varð erfiðari og erfiðari og flækjustig viðskipta með ólíkindum. Ljóst er að einhverjir fara illa út úr því máli öllu og einnig hefur sannast að enginn er annars bróðir í leik ef leik skyldi kalla.

En við erum ríkari en flestir. Við eigum 4 börn frá 8 mánaða til 9 ára, tvær stelpur og tvo stráka.

Og í upphafi árs fannst okkur upplagt að ég tæki foreldraorlof í framhaldi af fæðingarorlofi. Ég er því launalaus þar til næsta haust. Ég læt mér ekki einu sinni detta til hugar að hafa samband við vinnuveitanda minn, Icelandair og leita eftir að breyta því fyrirkomulagi. Get sagt mér það sjálf að ekki eru miklar líkur á vinnu þegar fyrirtækið er nýbúið að sjá á eftir 134 flugfreyjum og þjónum.

Mikil breyting hefur því átt sér stað og við höfum ekki hugmynd um hvaðan eða hvenær næstu peningar koma.

En sem betur fer höfum við áður staðið í svipuðum sporum. Í síðustu kreppu 2001/2002 missti Árni vinnuna og ég var þá líka í launalausu fæðingarorlofi. Ég segi sem betur fer því fyrri reynsla gerði það að verkum að við höfum passað okkur á að eiga ávallt smá varasjóð. Sá varasjóður gagnast okkur nú líkt og laun í uppsagnarfresti.

Annað sem hefur komið skemmtilega á óvart í þessum aðstæðum er að í haust lét ég gamlan draum rætast og hóf nám í H.Í. Mögulega getum við því sótt um námslán.

Markmiðið með þessum hugleiðingum sem á eftir koma er ekki að velta sér upp úr hlutunum eða kryfja til mergjar ástandið í þjóðfélaginu. Né heldur er þetta vettvangur vorkunnar, sjálfs eða annars konar.

Tilgangurinn er aðeins sá að veita innsýn í líf fólks í kreppunni miklu 2008.

Venjulegs fólks í óvenjulegum aðstæðum.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband