Að stela öskudeginum

Fjölskyldan brá sér úr bænum síðustu helgi.  Yfirlýstar ástæður voru vetrarfrí barnanna og þörf fyrir tilbreytingu.  Dulda ástæðan var sú að hafa öskudaginn af börnunum.  Ekki það þetta er frábær dagur í alla staði þegar börnin eru í leikskóla en þetta vesen með að ganga á milli staða til að betla nammi finnst mér hinn mesti ósiður.  Finn svo til með þessu eftirvæntingafullu greyjum, lufsast um í hvaða veðri sem er og við misjafnar undirtektir.

Svo er ástæðan líka e.t.v sú að ég hef staðað á bak við búðarborðið í sjoppu á öskudegi og það er eitthvað sem ég óska engum og fæ mig því ekki til að gera neinum.  Meðvirkni-já mætti segja mér það.

En það kemur í hausinn á manni að vera svona ófyrirleitinn.  Heiti potturinn virkaði ekki, uppþvottavélin dó, Bjarni (8) var veikur nánast allan tímann og svo veiktist Snædís Tinna (1).

Eftir tvær andvökunætur lögðum við mæðgur land undir fót og keyrðum í næsta bæjarfélag.  Skautandi í glerhálku á okkar annars yndislega SUV sem ég hef aldrei náð hvað þýðir en áttaði mig á í þessari ferð að þýddi Senn Utan Vegs og símalausar þar sem síminn gafst upp eftir hálftíma.

Á svipuðum stað þar sem maður getur nánast valið um út í hvaða á maður vill renna.

Á undan okkur inn á heilsugæslustöðina rúlluðu svo sjúkraflutingamenn börum með slösuðum manni sem hafði farið út af á svipuðum slóðum og leið okkar lá.

Ég var í svo miklu uppnámi yfir að þurfa að leggja í heimferðina við sömu aðstæður að samtal mitt við lækninn var súrrealískt.  Hann spyr hvað barnið hafi verið með mikinn hita um morguninn og ég svara að ég hafi ekki mælt hana heldur rokið af stað.  Hann spyr þá hvernig ég viti að hún hafi verið með hita!  Skellir svo mæli í eyrað á henni og fær út að ekki aðeins sé hún hitalaus heldur nánast með köldu barasta.

Þar með var málið afgreitt.  Enginn hiti kom fram á mælum og þar með amaði ekkert að barninu.  Við höfum lagt í þessa hættuför til einskis.

Ég kom því ekkert að að ég hefði gefið henni stíl áður en við lögðum af stað, að hún hefði verið brennandi heit, glaseygð og grátið nánast stanslaust.

Ekki laust við að mig langaði bara að keyra heim í stað þess að keyra aftur í bústaðinn-segja þeim hinum bara að taka rútuna heim.  Þessa sem kemur í sumar.

En þetta fær maður fyrir að reyna að ræna börnin öskudeginum.

Enda vorum við með svo mikið samviskubit að við keyptum alltof mikið nammi í Bónus á leiðinni heim, skelltum þeim í búninga og máluðum þau í framan.

Gott ef við erum svo ekki með hugmyndir um að opna sjoppu fyrir næsta öskudag.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Æj úpps..ég fékk alveg hroll við að lesa þessa aksturssögu enda til vandræða bílhrædd hehe

Ragnheiður , 28.2.2009 kl. 17:25

2 identicon

Sæl, fegin að lesa að þið eruð komin heim heilu og höldnu!  Fékk alveg í magan þegar ég sá þig fyrir mér skauta um á SUV'inum ykkar (Skv. wikipedia:  A sport utility vehicle (SUV) is a generic marketing description for a vehicle similar to a station wagon but built on a light-truck chassis.Usually equipped with four-wheel drive for on or off-road ability.  hehe Hef stundum pælt í þessu líka... þarna ýttir þú allavega undir þekkingarleit hjá einni meðsystur þinni  svona í stað meðbræðra...).

Alltaf gaman að lesa bloggið þitt, ákvað að kvitta nú einu sinni fyrir.  Frábær húmor og góður penni, getur ekki klikkað.  Enda líka frábær kona á bak við þetta allt! Hafið það öll sem best

kveðja

Guðrún S. (úr MS)

Guðrún S. Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 10:12

3 Smámynd: Kristín Magdalena Ágústsdóttir

Æi, hvað ég skil þig.  Þetta er með því leiðinlegasta sem við foreldrar þurfum að gera með börnunum. Ég er svo heppin að búa í litlu sveitarfélagi (þorpi) þar sem skóli er til 15:15 og eftir það var öskuball og til sex voru börnin að rölta hér um í þau fáu fyrirtæki sem eru hér á svæðinu til að snýkja.

Strákarnir okkar 3 eru orðnir svo gamlir að ég gat látið þá sjá um hvorn annan og bakaði bara vöfflur hér heima á meðan þeir voru að rölta þetta.

Fyrir þá var þetta hinn besti dagur og fyrir mig, minsta vesen.

Það er gaman að lesa bloggið hjá þér nafna.  

Kristín Magdalena Ágústsdóttir, 2.3.2009 kl. 09:12

4 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Æ þvílík vonbrigði, kannast við nokkur svona tilfelli þegar allt átti að vera svo skemmtilegt og gott og svo klikkar allt sem getur klikkað  Soldið súrt.... Vona að börnin séu orðin hress núna!! Og til hamingju með starfið hans Árna, Gerpla er góður staður, þar kenndi ég fimleika í mörg ár (og æfði í enn fleiri)

Lilja G. Bolladóttir, 2.3.2009 kl. 11:43

5 Smámynd: Kristín Bjarnadóttir

Takk stelpur mínar og takk Guðrún fyrir að fletta þessu upp!  Gaman að vita svona.

bestu kveðjur til ykkar allra

Kristín Bjarnadóttir, 3.3.2009 kl. 14:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband