Fryst fyrir finna.

Fjölskyldan fékk fréttamann frá finnska sjónvarpinu í heimsókn í gær.  Hvers vegna?  Jú ef maður byrjar að barma sér í sjónvarpi virðist það vinda upp á sig.

Karrí þessi vinnur fyrir sjónvarpsstöðina MTV3 (nei ekki þá MTV) og fer á öll helstu stríðs-og hamfarasvæðin.  Afganistan, Gazaströndina, Vatnsendablettinn.

Viðtalið fór fram á ensku og gekk vel.  Enskan varð mitt móðurmál allt þar til ég var orðin of örugg, talaði of hratt og fór allt í einu að útskýra lánafrystingu!  Heilinn bremsaði en á meðan hann hugsaði hvernig í ósköpunum lánafrysting væri á ensku heyrði ég sjálfa mig segja:” freezing the loans!”  og bætti svo við hinu íslenska alútskýrandi:”you know.”

Greinilegt var að þetta átti að vera dramatískt innslag um ástandið á Íslandi.  Hann stökk út í slagviðrið og tók myndir af fjölskyldunni drekkandi djús, inn um skítugar rigningarrúðurnar.  Myndaði Amazonfljótið sem rennur hér á milli hálfkláraðra lóðanna og kórónaði svo meistaraverkið með því að taka upp hvininn í vindinum.

Svo settumst við á gólfið og púsluðum saman, svona eins og íslenskar fjölskyldur gera svo mikið.  Bryndís Inga teygði sig eftir púsli inn í skáp og það var auðvitað engin tilviljun að það var púsl af Íslandi, reyndar Larsengerð, framleitt í Noregi.

Er hægt að hafa þetta meira Hollywood?  Þarna situr á gólfinu tæknilega gjaldþrota fjölskyldan flötum beinum og raðar saman litlum brotum af Íslandi.

Karrí kallinn féll í sömu gildru og (jón s.) um daginn og dáðist að ikealjósunum, sérstaklega auðvitað eldhúsljósinu sem hann taldi vera hið sanna Le Klint.  Ljósrofarnir urðu þó ekki tilefni umræðna að þessu sinni enda maðurinn á staðnum og gat því greint á milli plasts og glers.

Merkilegt að hitta mann sem hefur farið svo víða og við spurðum hann spjörunum úr.  Hann og sérlega skemmtileg aðstoðarkona hans enduðu líka á að eyða hér hálfum deginum.

Kreppan hefur þó að minnsta kosti gefið okkur frábæran dag og viðkynningu við skemmtilegt fólk sem ekkert erindi átti við mann áður.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Magdalena Ágústsdóttir

Takk fyrir falleg orð á síðunni minni.

Jú, við verðum bara að standa af okkur þennan olgu sjó. Það þykir vera orðið slæmt ástand þegar leikskólakennari fær ekki vinnu, hvorki í grunnskóla eða í leikskóla.

Það er ekki fyrr en næsta haust sem ég get aftur sótt um vinnu í skólanum sem ég hef verið að vinna hjá undanfarin ár, þar sem ég er leikskólakennari en ekki grunnskólakennari (allavega ekki ennþá, en er að vinna í því).

Kristín Magdalena Ágústsdóttir, 19.2.2009 kl. 13:34

2 identicon

Diddan mín!

Ég hló svo mikið að ég fékk tár í augun!!!

Knús

Eldri Diddan sem er svo hrifin af pennafæru, orðheppnu fólki!

Sigrún Jónsdóttir (IP-tala skráð) 19.2.2009 kl. 15:47

3 Smámynd: Kristín Bjarnadóttir

Hæ Kristín já hver hefði trúað ástandinu á atvinnumarkaði.  Mjög skrítið að upplifa svona algjöran viðsnúning.

Sigrún-það er gaman að hlæja þig

Kristín Bjarnadóttir, 19.2.2009 kl. 22:33

4 Smámynd: Helga Sigríður Úlfarsdóttir

Þreytist aldrei á því að dást að þinni frábæru, hnittnu orðsnilld  Elska að lesa bloggið þitt - er alveg húkkt á því eins og hlaupunum

Helga Sigríður Úlfarsdóttir, 20.2.2009 kl. 14:01

5 identicon

Didda mín!

Ég hef aldrei skilið afhverju við tölum um ,,orðheppni" þar sem þetta hefur lítið með ,,heppni" að gera. Er að spá í að taka upp orðið ,,orðsnilld" sbr. orðsnillingur"

Bestu kveðjur

Sigrún

Sigrún Jónsdóttir (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 13:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband