Kreppunni gefið langt nef

Jól fjölskyldunnar voru fullkomnlega frábær.  Fyrstu jól Snædísar Tinnu ( 9 mán.) og eiginlega Snorra (3) líka.  Fyrstu jólin þar sem hann skildi allt, tók fullan þátt í öllu og smitaði þar af leiðandi alla af bullandi jólagleði.

 

Ég fór í jólaköttinn en er samt hér enn.  Annað hvort er ég því farin að þrána eða málið er að ef maður kaupir sér ógeðslega dýran kjól á árinu dugir það til að halda dýrinu frá.

 

Verslunarferðin sem farin var áður en tilveran fór á hvolf bjargaði svo börnunum frá kettinum og gjafaflóðinu.  Góssið hafði beðið í nokkra mánuði stillt í töskunum og bar góðan keim af góðærinu.

 

Sem við vorum ofsalega fegin.  Það hefur það mikið í lífi Bryndísar Ingu (9) og Bjarna Björgvins (7) breyst að það var gott að upplifa dag þar sem allt var eins og það var vant að vera.  Þau eru því miður farin að taka vel eftir að hlutirnir eru langt í frá eins og þeir voru og tala um hvað þau langar að gera þegar kreppan er búin eða næst þegar við eigum pening.  Láta okkur svo fá það óþvegið þegar við sínum álíka óráðsíu eins og stinga upp á að fara að gefa öndunum brauð.  Skilja ekkert í okkur að láta okkur detta til hugar að henda mat út í tjörn.

 

Það eina sem bar vott um breyttar aðstæður var jólamaturinn.  Kannski vorum við þau einu sem lentum í þessu og ég vona það.  Vínberin voru gul og lin, kartöflurnar trénaðar og fóru í mauk við skrælingu, eplin brún að innan eða urðu það á meðan þau biðu eftir að komast í salatið.  Við höfum venjulega keypt Nóatúnhamborgarhrygg en núna gripum við Ali hamborgarhrygg á 30% afslætti í Bónus.  Ekkert á pakkningunni benti til að við værum að kaupa ógeðslegt kjöt.  En við hefðum auðvitað átt að segja okkur það sjálf að það er ekkert gefins.  Síst af öllu jólasteik.

 

Fyrsta skipti sem afgangar eru ekki borðaðir í hádeginu á jóladag heldur hent út í garð fyrir krumma.

 

Las um daginn að verðbólga mældist 18%.  Miðað við hvað vörugæði hafa breyst er maður að kaupa mun verri vöru á mun hærra verði og því hlýtur verðbólgan að vera í raun mun meiri.

 

Að lokum langar okkur að benda þeim, sem ekki tóku eftir, á atvinnuauglýsingasíðuna í Fréttablaðinu í morgun.  Auðvitað eru jól og lítið um að vera en það er ein auglýsing á einni síðu. EIN.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Var að lesa hjá þér bloggið mikið ertu æðrulaus og tekur vel á ástandinu og mættu margir taka þig til fyrirmyndar,gangi ykkur rosa vel í lífinu kveðja Baldur

Baldur (IP-tala skráð) 28.12.2008 kl. 14:56

2 Smámynd: Kristín Bjarnadóttir

Kæri Baldur, bestu þakkir fyrir hlý orð í minn garð.  Gefur mér mikið að þú hafir gefið þér tíma til að lesa um okkur.

Vona að þú hafir það sem allra best!

kveðja, Kristín

Kristín Bjarnadóttir, 28.12.2008 kl. 17:21

3 identicon

Hæ Kristín....jú við í sama pakka og það er bara verkefni eða þannig tökum við á því....við vorum greinilega heppin því Ali borgarinn okkar úr bónus var svakalega góður en karöflurnar frekar harðar moooaaahhhaaaaa þá bara meira af ávaxtarsalati ;-) Krakkar sáttir við sitt og litla ljósið okkar hún Sóllilja var svo yfirsig hrifin af mjallhvítarkjólnum sem hún fékk frá mömmu og pabba að hún hefur ekki farið úr honum......Eins og við vitum þá er það innihaldið sem telur. Kristín mín við höldum bara baráttunni áfram með bros á vör, það er ekkert annað hægt að gera hvort sem er :-) Gangi ykkur vel mín kæra.

Iris (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 11:29

4 Smámynd: Helena Leifsdóttir

Sæl,
Leit við hjá þér smá stund Kristín mín, leitt að heyra með svínið en krummi hefur sennilega orðið alsæll.

Ég hengi 5 hjörtu út í glugga hver jól,hjörtu sem ég saumaði sem jólaskraut. Hjörtun eru til að minna mig á að allt hefur sinn tíma,bæði ríkidæmi og fátækt. Hjörtun minna mig á árin þegar við hjónin  þurftum að horfast í augu við skuldir eftir hrun fyrirtækisins og uppáskrift fyrir ættingja allt á einu bretti.

Hjörtun minna mig á að með þrautsegju og hjálp Guðs lagðist okkur til nýjar hugmyndir og leyndir hæfileikar sem breyttust í peninga. Ég segi stundum  ekki hafa áhyggjur " Þetta fer allt vel" Guð er snillingur í að Opna nýjar dyr !
Guð gefi ykkur nýjar dyr fyrir árið 2009 til blessunar.

Kærleiks kveðja
Helena

Helena Leifsdóttir, 29.12.2008 kl. 19:56

5 Smámynd: Kristín Bjarnadóttir

Kæra Helena, mikið ofsalega er gott að heyra frá þér.

Við deilum þeirri vissu með þér að við erum í góðum höndum og við verðum leidd á rétta braut.  Bara óvissan sem er að fara með okkur núna.

En eins og þú bendir á Íris þá er þetta verkefni sem þarf að takast á við og miðað við þau slæmu verkefni sem eru í boði þá er þetta langt i frá það versta.  Hér eru allir við hestaheilsu, bjartsýnir og góðir hver við annan.  Ekki má gleyma að þetta litla verkefni hefur yndislega hliðarverkun.  Árni hefur nú nægan tíma til að vera frábær pabbi og eiginmaður.

Kær kveðja og takk fyrir að líta við og kvitta.

Kristín Bjarnadóttir, 30.12.2008 kl. 00:07

6 identicon

Sæl og blessuð, hef verið að lesa hjá þér bloggið undanfarið og mikið hugsað til ykkar. Hræðilegt hvað margir eru í þessari aðstöðu, bara venjulegt fólk sem vill vinna en ekkert í boði. Ég sé að þið standið saman og haldið vel utanum hvort annað. Vildi bara láta vita að ég hugsa til ykkar.

Kveðja Stella

Stella María óladóttir (IP-tala skráð) 30.12.2008 kl. 12:40

7 Smámynd: Kristín Bjarnadóttir

Elsku Stella, takk innilega fyrir að fylgjast með okkur!

Vona að þið hafið það sem allra best!

kv.Didda

Kristín Bjarnadóttir, 31.12.2008 kl. 00:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband