Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Á nýjum stað

Jæja þá erum við að færa okkur um set, á nýjan vef og á nýjum forsendum.

 

Við erum í svipuðum sporum og flestir í þjóðfélaginu í dag. Höfum það hvorki verra né betra og varla frá neinu að segja sem viðkemur upprunalegum tilgangi Reisubókarinnar, þeim að veita innsýn í líf venjulegrar fjölskyldu á óvenjulegum tímum.

 

Þess vegna kom aldrei til greina að hafa hér almennar vangaveltur eða léttmeti.

 

En mig langar að skrifa.

 

Ég vona að þið fylgið okkur áfram þótt á annan hátt sé og ég læt vita nánar þegar allt er tilbúið.

 

Bestu kveðjur til ykkar allra xxxxx

 

Litið til baka

Humh, varð heldur lengra hlé gert hér en til stóð. Ástæðan er einfaldlega sú að eftir því sem dagarnir liðu varð minni þörf á að skrifa sig í gegnum hlutina.

Get ekki líst því hvernig upplifun það var að finna smátt og smátt frostið fara úr hjartanu, finna krumluna gefa eftir. Þora aftur.

Daglegt líf er nánast orðið eins og það var, fyrir utan óvissuna sem við búum öll við. Við bæði í vinnu þótt Árni vinni óreglulega og er því í skólanum með.

Þótt við reyndum eins og við gátum að láta þetta allt saman sem minnst koma við krakkana þá fundu þau auðvitað fyrir þessu. Fundu hvernig okkur leið, voru dugleg að lesa á milli línanna.

Um leið og þau fundu öryggi og bjartsýni stafa aftur frá okkur var þungu fargi af þeim létt.

Sátum úti í sumar, á einum af þessum dýrðardögum, þegar kreppan kom til tals og Bjarna (8) svelgdist á og spurði gáttaður er kreppan ennþá? Hans eina viðmið um þetta kreppuástand var líðan foreldranna og um leið og þeim leið betur var kreppan yfirstaðin.

Þegar ég lít til baka til sama tíma í fyrra trúi ég varla hvernig þetta var. Minningin er dimm. Í dimmunni sé ég fólk flakka á milli hræðslu og afneitunar, kjarks og vonleysis. Í örvæntingarfullri leit að dug til að drepast ekki.

Og fann. Sem betur fer.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband