Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Staða um áramót

Árni er búinn að skrá sig í H.Í. í pakkadíl sem settur var upp fyrir fólk í kreppunámi.  Blanda af sagnfræði, fornleifafræði og heimspeki.  Þar með opnast möguleiki á að hengja sig á LÍN spenann, ekki það að við sjáum í augnablikinu hvernig LÍN stendur undir lánum til 1600 kreppunema.

 

En hvort sem Árni fær námslán eður ei er hann að minnsta kosti kominn með eitthvað skemmtilegt að lesa og lestur er eitthvað sem er tilvalið að dunda sér við á köldum vetrarkvöldum ef úr verður að hann fari til Osló en þangað á hann pantað flug á mánudag eftir viku.  Maður sem þekkir mann sem þekkir mann þekkir mann sem sagði Árna að mæta á staðinn.

 

Svo er spurningin með parhúsið sem hann tryggði sér í haust.  Það verk átti að hefjast í desember en er enn ekki komið í gang.  Mörkin milli neikvæðni og raunsæis eru oft óljós en eru miklar líkur á að það verk fari í gang?

 

Svo er einn möguleiki í viðbót en því miður er málið á viðkvæmu stigi og því ekki rétt að greina frá því að svo stöddu miðað við aðstæður sem þessar en guð gefi að gott á viti. 

 

Grínlaust.

 

Ég get svo mögulega fengið vinnuna mína aftur í byrjun apríl eða maí.

 

Óvissuferð

Venjulega upplifi ég áramót með gleði í hjarta.  Nýtt ár ber með sér ný tækifæri, ný ævintýri mín og minna.

Nú líður mér eins og ég sé efst í risastórum rússíbana.  Rétt áður en maður steypist niður hæstu brekkuna á ógnarhraða.

Á andartakinu þar sem manni finnst maður vera laus í beltinu.  Getur ekkert gert nema skorðað sig af, haldið niðrí sér andanum og beðið þess sem koma skal.

Óvissan.

En þó ég kastist upp og niður, til hliðar og á hvolf, niður í myrkustu göngin, upp í erfiðustu flækjurnar, skal ég halda mér þar til hnúarnir hvítna, garga þangað til ég kem ekki upp hljóði.

Standa svo upp úr sætinu og hlæja.

Jafnvel geðveikislegum taugaveiklunarhlátri.

Fegin að ferðin sé búin.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband