Litið til baka
14.10.2009 | 14:48
Humh, varð heldur lengra hlé gert hér en til stóð. Ástæðan er einfaldlega sú að eftir því sem dagarnir liðu varð minni þörf á að skrifa sig í gegnum hlutina.
Get ekki líst því hvernig upplifun það var að finna smátt og smátt frostið fara úr hjartanu, finna krumluna gefa eftir. Þora aftur.
Daglegt líf er nánast orðið eins og það var, fyrir utan óvissuna sem við búum öll við. Við bæði í vinnu þótt Árni vinni óreglulega og er því í skólanum með.
Þótt við reyndum eins og við gátum að láta þetta allt saman sem minnst koma við krakkana þá fundu þau auðvitað fyrir þessu. Fundu hvernig okkur leið, voru dugleg að lesa á milli línanna.
Um leið og þau fundu öryggi og bjartsýni stafa aftur frá okkur var þungu fargi af þeim létt.
Sátum úti í sumar, á einum af þessum dýrðardögum, þegar kreppan kom til tals og Bjarna (8) svelgdist á og spurði gáttaður er kreppan ennþá? Hans eina viðmið um þetta kreppuástand var líðan foreldranna og um leið og þeim leið betur var kreppan yfirstaðin.
Þegar ég lít til baka til sama tíma í fyrra trúi ég varla hvernig þetta var. Minningin er dimm. Í dimmunni sé ég fólk flakka á milli hræðslu og afneitunar, kjarks og vonleysis. Í örvæntingarfullri leit að dug til að drepast ekki.
Og fann. Sem betur fer.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Gaman að sjá þig aftur Kristín vona innilega að það gangi vel hjá ykkur,og þú haldir áfram að skrifa kveðja Baldur
Baldur (IP-tala skráð) 15.10.2009 kl. 10:22
Sæll Baldur, vona að þú hafir það líka sem allra best.
kær kveðja, Kristín
Kristín Bjarnadóttir, 21.10.2009 kl. 11:51
Þetta eru erfiðir tímar hjá mörgum. Elsti sonur minn 30 ára berst í bökkum til að geta fætt og klætt sína fjölskyldu, en hann og konan hans eru með fjórar litlar stelpur á aldrinum ca. 1árs til 10 ára aldurs. Ég geri ráð fyrir þvi að maðurinn þinn viti hver sonur minn er, hann heitir Hinrik og býr á Skaganum með sína fjölskyldu.
Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir, 7.11.2009 kl. 19:31
Komdu sæl Guðbjörg, já því miður eru alltof margir í þessum sporum og einmitt þeir er síst skyldi. Vona að úr rætist og allt fari vel.
bestu kveðjur, Kristín
Kristín Bjarnadóttir, 8.11.2009 kl. 01:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.