Botninn dottinn úr þessu?
7.6.2009 | 01:03
Færslufæðin undanfarið úskýrist af því að ég hef verið í mestu vandræðum með hvað eigi að gera við reisubókina.
Yfirlýstur tilgangur var að veita innsýn inn í líf venjulegrar fjölskyldu í óvenjulegum aðstæðum en þar sem við bæði höfum fengið vinnu hefur hversdagsleikinn tekið við.
Ef það orð á við. Við, ekkert frekar en aðrar fjölskyldur á Íslandi, teljumst seint venjuleg fjölskylda í venjulegum aðstæðum því venjulegar aðstæður verða líklega aldrei venjulegar eins og þær voru skilgreindar hér áður fyrr.
Ég á því við að lífið gengur sinn vanagang á þann hátt að við náum endum saman og við mætum í okkar vinnu, skóla og tómstundir. Það óvanalega er að við, líkt og svo margar aðrar íslenskar fjölskyldur lifum fyrir einn mánuð í einu. Með snöruna um hálsinn.
Ljótt að segja það en það er satt.
Árni er búinn að fá vinnu jú og þótt það verk sé á vegum Reykjavíkurborgar, sem hlýtur að teljast öruggur framkvæmdaraðili þá stendur það og fellur með því hvort lífeyrissjóðina langar að lána fé til framkvæmdanna.
Enginn veit svo hvernig flugbransinn kemur til með að þróast á árinu þótt maður voni það besta. Getur svínaflensan takk fyrir beðið þar til betur stendur á?
Verkefnið sem efnahagsástandið bar á borð fyrir okkur í vetur er leyst eins vel og hægt var en framtíðin er ótrygg og óráðin. Hlutirnir breytast dag frá degi og maður hefur ekki hugmynd um hvort maður getur staðið við skuldbindingarnar. Við tókum auðvitað lán í vetur til að lifa veturinn af, hækkuðum þar með greiðslubyrðina og höfum ekki hugmynd um hvort við ráðum við að borga af öllu saman.
En gat nú verið að um leið og hversdagsleikinn eða hvað maður á að kalla þetta ástand sem fólk býr við í dag tekur við, byrjar maður að röfla yfir hlutum sem hafa ekki snert mann í allan vetur? Hlutum eins og lekum gluggum. Sem er reyndar ágætis röflefni enda telur maður sig yfirleitt vera að kaupa vind- og vatnsþétta eign.
Ekki það að maður geri baun í því núna. Fer varla að eyða krónu í viðhald. Ekki þegar maður veit ekki hvernig þetta endar.
Muniði þegar maður þóttist geta planað hlutina? Virðist eilífð síðan.
Get því ekki sagt að við séum komi í gegnum erfiðleikana en ég þori að segja að við séum millilent.
En þess vegna veit ég ekki alveg hvað ég á að gera við reisubókina.
Flestir eru betri en ég í að taka púlsinn á þjóðmálunum og áhugi lítill á því hjá mér þótt ég viðurkenni að mann klæjar í puttana að ýta á blogga um frétt þegar maður les að hakk hafi hækkað um 67% síðan í febrúar eða að skuldir ríkis og sveitarfélaga séu meiri en áður var haldið. Svo ég tali nú ekki um þegar því er bætt við daginn eftir að staða heimilanna sé betri en talið var.
Skyldi þó ekki vera að til standi að aflýsa skjaldborg heimilanna?
Krúttlegar sögur af börnunum mínum eiga svo frekar heima á barnalandi og þótt af nægu væri að taka úr vinnunni er ég hreint ekki viss um að ég mætti deila því öllu með ykkur.
Svo hvað á ég að gera?
Langar ekki að hætta þótt ég hafi lítið að segja akkúrat núna, því á bak við hverja sagða sögu er önnur ósögð og vona ég að ég geti einhvern tíma sagt ykkur hana.
Langar því til að halda reisubókinni opinni þótt lítið verði um færslur í bili.
Var spurð um daginn hvort það hefði hjálpa okkur eitthvað að opna svona fyrir hvernig staðan var á okkur í vetur og við því er einfalt svar. Þið sem hafið komið hér við og hlegið og grátið með okkur í gegnum þetta hafið auðveldað okkur að takast á við þetta. Sú aflausn sem felst í því að skrifa sig frá hlutunum getur svo aldrei verið neitt annað en góð.
Þótt fáir hafi kvittað-þannig-höfum við fundið og auðvitað séð á heimsóknartölunum að miklu fleiri hugsa til okkar og fylgjast með okkur. Og það er á hreinu að sá styrkur sem þið senduð okkur skilaði sér. Klárt mál.
Helsti lærdómur vetrarins er að í erfiðum aðstæðum sýnir fólkið í kringum mann sitt rétta andlit. Svo margir hafa reynst okkur svo ótrúlega vel. Merkilegt að uppgötva hvað það þýðir að búa í samfélagi.
Upplifa að fólk, án umhugsunar léttir undir með náunganum, náunganum sem það jafnvel þekkir lítið. Veitir hjálp þar sem hjálpar er þörf, telur það ekki eftir sér, vill ekkert í staðinn og veit að margt smátt gerir eitt stórt.
En við vorum mjög heppin því við sögðum frá. Fólk verður auðvitað að velja sína leið en ég finn svo til með fólki sem ber þessar byrðar eitt án þess að biðja samfélagið um að bera þær með sér.
En það gleddi mig mjög mikið ef okkar saga hefur hjálpað öðrum í vetur til að finnast þeir ekki standa í þessu einir. Það verður ekki of oft sagt að við tókum öll góðar og gildar ákvarðanir miðað við þær forsendur sem voru uppi fyrir mestu efnahagslegu hamfarir sögunnar.
Hægist því hér um í bili en hver veit kannski verða hér bráðlega krassandi sögur af baráttu við bankana, uppboði og gjaldþrotaferli. Auðvitað óskar maður þess ekki en ég hefði þá að minnsta kosti eitthvað til að skrifa um ekki satt?
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt 13.6.2009 kl. 18:42 | Facebook
Athugasemdir
Hef fylgst með ykkur þótt ég þekki ykkur ekki og gleðst yfri betri stöðu ykkar í dag. Þið hafið án efa hjálpað mörgum með því að deila sögu ykkar.
Gangi ykkur vel,
GBK
Guðrún (IP-tala skráð) 7.6.2009 kl. 03:16
Reisubók er orð sem segir manni að þetta sé ferðalag, lífið er ferðalag og það ber okkur á nýja staði, millilendingar meðtaldar! Endilega ekki loka bókinni. frábær síða og margir hafa notið góðs af. Bestu kveðjur og gangi ykkur vel. Ásta
Ásta Kristín (IP-tala skráð) 7.6.2009 kl. 11:14
Gott að þið eruð millilent, enginn okkar veit hvað gerist næst! Gangi ykkur vel.
Júlía (IP-tala skráð) 8.6.2009 kl. 08:27
Elsku Kristín, takk fyrir skrifin þín. Það hefur verið gaman að fylgjast með þér og fjölskyldu þinni. Hef sagt það áður þú er frábær penni =)
Gangi ykkur vel, en ég mun nú samt koma hérna við og við á bloggið þitt áfram til að sjá hvort þú hafir skrifað eitthvað skemmtilegt.
Bestu kveðjur til ykkar.
Inga Rós (IP-tala skráð) 8.6.2009 kl. 10:18
Takk kærlega fyrir stelpur mínar!
Kristín Bjarnadóttir, 8.6.2009 kl. 10:45
Virkilega fróðlegt og gott fyrir mitt litla sálartetur að fylgjast með ykkur. Við getum öll sett okkur betur í ykkar spor við lesturinn og líka áttað okkur á því að við erum svo stutt frá því að vera í nákvæmlega sömu stöðu og þið. Lifum fyrir einn dag í einu og vonandi vöknum við fljótlega af þessari martröð! Knús í hús!
Sigrún Þorsteinsdóttir (IP-tala skráð) 8.6.2009 kl. 13:30
Það hefur verið gott og gaman að fylgjast með ykkur Kristín en stundum skilja leiðir og það er vonandi farið að ganga vel hjá þér og þínum.Og spáðu í þetta að setja saman bók um lífið hjá ykkur og hvernig að þið unnuð úr þessu því allir hafa gott af því að sjá að þótt syrtir í álin þá birtir aftur hjá okkur,samanber með afmælis peningana hjá barninu þínu sem að ég las um á blogginu hjá þér hafðu það sem allra best og vonandi hef ég tækifæri til að heilsa þér á förnu vegi. Þakka fyrir mig kveðja Baldur
Baldur (IP-tala skráð) 8.6.2009 kl. 22:17
sæl Kristín
Ég hef verið dyggur lesandi en aldrei kvittað fyrir innlitið. Ég hef rekist á margt í blogginu þínu sem hefur fengið mig til að hugsa, nærtækt dæmi hvort öll börn eigi að eiga I-pod. Get sagt þér að mín eiga ekki þannig græjur.
Lífið með snöruna um hálsinn er lífið sem við erum mörg að lifa þessa dagana. Hver mánaðarmót er beðið með smá kvíðahnút hvort uppsagnarbréf berist eða ekki. Erfitt og varla hægt að undirbúa tekjumissi eins og staðan er í dag.
Ég gleðst með ykkur að vera millilent. Það er snilld. Það væri líka snilld ef þú myndir halda áfram að deila með okkur þeim hlutum og atriðum í lífinu sem þú hnýtur um því ég þori að fullyrða að margt af því sem þér finnst sérkennilegt, skrítið eða skemmtilegt finnst okkur það sama.. það þarf bara stundum að benda okkur á :) Takk fyrir skemmtilega og hreinskilningslega innsýn í líf ykkar í erfiðum aðstæðum.
kv.Lilja
Lilja María (IP-tala skráð) 9.6.2009 kl. 20:26
Hæ Sigrún mín, ótrúlega gaman að sjá að þú hefur komið hér við. Vona að það gangi allt vel og hlakka til að sjá þig.
Kristín Bjarnadóttir, 10.6.2009 kl. 23:29
kæri Baldur, þú lofar mér að hnippa í mig um leið og þú mætir mér? Það hefur verið gott að fá frá þér kveðjurnar í vetur og við erum innilega þakklát fyrir þær.
Bestu kveðjur og ég vona að þér og þínum gangi sem allra best.
Kristín Bjarnadóttir, 10.6.2009 kl. 23:31
Kæra Lilja, bestu þakkir fyrir fallega kveðju. Rétt sem þú bendir á að það er erfitt og nánast vonlaust að undirbúa tekjumissi eins og staðan er í dag.
Vona svo innilega að við komumst öll í gegnum þetta tímabil fljótlega þótt maður sé alltaf vonminni með það.
Bestu kveðjur með ósk um að allt gangi vel hjá þér.
Kristín Bjarnadóttir, 10.6.2009 kl. 23:36
Kæru vinir! ég hef verið að fá pósta á facebook með kommentum á þessa færslu.
Skil vel að það langar ekki alla að kvitta hér fyrir allra augum. Ef ykkur langar til að hafa samband við okkur þá getið þið líka alltaf sent póst á diddab@islandia.is
Gefur mér ótrúlega mikið að heyra frá ykkur og sjá hverjir hafa hjálpað okkur í gegnum þetta.
bestu kveðjur til ykkar allra og takk fyrir samfylgdina.
Kristín Bjarnadóttir, 10.6.2009 kl. 23:38
Af hverju eiga frásagnir af börnunum frekar heima á Barnalandi?
Ég vil frásagnir af daglegu lífi. Allt sem þú skrifar er skemmtilegt, svo ég segi:
MEIRA, MEIRA, MEIRA!!!!
:D
Katrín Brynja (IP-tala skráð) 10.6.2009 kl. 23:57
hæ hæ ég les bloggið hjá þér út í gegn og er alltaf að tékka hvort komin er ný færsla. En er léleg að commenta. Við hittumst svo sjaldan að það er gott að sjá hvernig gengur hér á blogginu - og ofboðslega gott að heyra að þið eruð millilent. Við dettum inn í óvissutímann 1.sept þegar Einar missir vinnuna þangað til er það aðhald, sparnaður og brainstorming fyrir nýjum hugmyndum um framtíðina. Knús á línuna. Bryndís Inga er náttúrulega bara alveg mögnuð það er ekki hægt að segja annað. Þvílík eðalpersóna sem hún er.
Sjöfn (IP-tala skráð) 11.6.2009 kl. 11:50
Já Katrín mín, þetta er gaman að heyra.
Ég er auðvitað ekki að lýsa því hér yfir að ég sé hætt, bara að það verði færri færslur og veit ekki um hvað......
Kristín Bjarnadóttir, 11.6.2009 kl. 18:03
Hæ Sjöfn gott að heyra frá þér en mjög vont að heyra að þið eruð á leið inn í óvissuna. En ég hef nú litlar áhyggjur af ykkur, þið eruð svo skipulögð að þið eruð eflaust með þetta allt græjað og eins vel tilbúin í slaginn eins og hægt er.
Mundu bara að það er ekkert mál að biðja um aðstoð-tala nú ekki um fólk sem hefur fengið að njóta hennar
Bestu kveðjur heim
Kristín Bjarnadóttir, 11.6.2009 kl. 18:06
innlitskveðjur...
Ævar Rafn Kjartansson, 16.6.2009 kl. 15:40
Takk Ævar gaman að "sjá" þig!
Kristín Bjarnadóttir, 17.6.2009 kl. 10:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.