Af gömlum gildum
27.5.2009 | 00:38
Hékk á því í vetur að það eina jákvæða við ástandið væri að nú gæfist tækifæri til að dusta rykið af gömlum og góðum gildum sem týndust einhvers staðar í góðærinu.
Hafði oft pirrað mig á að börn í dag fengju allt og þá strax og erfitt væri að setja einhvers staðar mörk. Það var einhvern veginn gert ráð fyrir að allir ættu allt. Man hvað ég var hissa þegar ég frétti að sökum hve bekkur í grunnskóla hafði verið duglegur máttu þau koma með ipodana sína daginn eftir í skólann.
Var orðið jafn sjálfsagt að eiga ipod eins og pennaveski?
Foreldrar mínir byggðu húsið sitt frá grunni, unnu eins og skepnur og uppskáru eins og þau sáðu. Verðbólga var mikil á þeim tíma og við höfðum lítið á milli handanna. Þegar maður hækkaði var saumað neðan á buxurnar manns, maður lærði að leita að ódýrasta verðinu þegar maður fór út í búð og ég sver að tannburstinn minn var soðinn eftir að ég missti hann einu sinni ofan í klósettið.
Hef oft reyndar velt því fyrir mér hvers konar tannburstunarofbeldi var í gangi á mínu heimili.
En svona voru hlutirnir á þeim tíma og maður lærði nyt-, nægju- og sparsemi.
En eins jákvætt eins og það nú er að börn í dag læri þessi gildi þá hef ég oft undanfarið velt fyrir mér hvar línan liggur. Hvort lærdómurinn fari ekki fyrir lítið þegar aðstæðurnar eru eins og þær hafa verið í vetur? Hvort þau missi ekki af því hvað er gott að kunna að spara þegar þau tengja það einungis við að heimilið varð tekjulaust?
Hvort þessi kríli sem finna kvíða foreldra sinna á hverjum degi læri nokkuð annað en að vera hrædd?
Bryndís Inga varð tíu ára í dag. Áttum yndislegan dag í hópi vina og ættingja. Síminn hennar var tekinn ófrjálsri hendi um daginn og var ósk hennar að fá peninga í afmælisgjöf til að kaupa nýjan. Áður en hún fór að sofa taldi hún og taldi og fann út himinlifandi að hún gæti keypt símann sem hana langar í.
En stuttu eftir að hún fer að sofa læðist hún niður og laumar til mín bréfi. Í bréfinu voru afmælispeningarnir hennar og miði þar sem hún segist elska mig og þetta hjálpi vonandi eitthvað.........
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 00:49 | Facebook
Athugasemdir
Sæl Kristín
Ég kannast við þig bæði úr Kórsölunum og héðan úr hverfinu.
Ég les gjarnan bloggið þitt og dáist af hugrekki þínu og skemmtilegum skrifum.
Ég varð að skrifa hér smá línu og deila því með þér að ég fékk barasta tár í augun við lestur síðustu lína.
Hún er alveg hreint dásamleg hún dóttir þín, til hamingju með hana.
Dagrún (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 01:27
Til hamingju með dóttur þína, hún fær nýjan síma þegar fjárhagurinn breytist aftur til hins betra.
En þetta er mjög mikið sem hún gerði og mikil fórn fyrir. Þetta er heilsteyptur einstaklingur og þið megið svo sannarlega vera stolt af henni.
Kristín Magdalena Ágústsdóttir, 27.5.2009 kl. 10:41
Innilega til hamingju með frænku mína, við biðjum kærlega að heilsa henni. Hún er algjör snillingur.
Við þurfum að fara að hittast, verðið þið eitthvað fyrir austan í Sæló um helgina næstu?
Kveðja úr Vesturbænum
María Björg
María Björg (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 18:09
Sæl Dagrún takk fyrir að lesa og fylgjast með okkur og fyrir að kvitta. Það er svo gaman að sjá hverjir taka þátt í þessu með okkur.
María takk fyrir, við verðum ekki næstu helgi þar sem ég verð í vinnu en reikna með hverri helgi annan hvorn dag eða jafnvel báða í júní. Verður frábært að sjá ykkur þá.
Kæra Kristín, við erum að springa úr stolti yfir dóttur okkar. En hún fékk ekki að gefa okkur peninginn sinn. Við útskýrðum fyrir henni að hún hjálpaði okkur á hverjum degi með því að vera svona dugleg og frábær sem hún er og hennar og systkina hennar vegna bitum við á jaxlinn. Við fórum líka yfir að nú gengur betur þar sem við erum bæði komin í vinnu og minntum hana á að þetta færi allt vel. En hún fékk að bjóða bróður sínum í bíó í dag:)
kær kveðja til ykkar allra af Vatnsendanum.
Kristín Bjarnadóttir, 27.5.2009 kl. 22:28
Hæhæ Didda og fjölskylda! :)
Vildi bara kvitta fyrir mig, kíki stundum á ykkur hérna!
Bryndís er alveg yndisleg stelpa, æðislegt að lesa þetta!
Gangi ykkur sem allra best með allt saman! Gott að vita af því að hlutirnir séu að lagast!
Kær kveðja til ykkar allra!
Björk (þjálfari Bryndísar) (IP-tala skráð) 30.5.2009 kl. 20:26
Ég fékk svo mikla gæsahúð! Og nú er ég með tár í augunum.
Þetta er einstakt.
Katrín Brynja (IP-tala skráð) 2.6.2009 kl. 00:32
Takk Björk fyrir að fylgjast með okkur og kvitta. Æðislega gaman á sýningunni í dag og stelpurnar frábærlega duglegar.
Takk fyrir Katrín mín!
Kristín Bjarnadóttir, 7.6.2009 kl. 01:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.