Fleira fólk með frumkvæði?
6.5.2009 | 21:40
Hitti gamla vinkonu mína í sundi um helgina. Sú er ótrúlega huguð og ég er ótrúlega stolt af henni.
Hún stofnaði nefnilega fyrirtæki á þessum síðustu og æ þið vitið. Hún byrjaði með 3 milljónir í eigið fé. Lengri tíma tók en áætlað var að opna og því lágu millurnar óhreyfðar í einhverja mánuði inn á bók. Hún hefur staðgreitt allt og stendur óaðfinnanlega að málum.Henni datt til hugar að nefna það við bankann hvort hún gæti mögulega seinna fengið 50.000 yfirdrátt ef eitthvað óvænt kæmi upp. En bara ef.
Svarið var: Við hjálpum ekki nýjum fyrirtækjum! Hjálpum? Í hvaða stöðu telur bankinn sig vera? Getur hjálp einhvern tíma borið 20% vexti? Hrokafullt svo ekki sé meira sagt og í engum takti við orð Steingríms og Jóhönnu rétt fyrir kosningar. Eflaust sögðu þau fleiri en ég man þau svo vel frá þeim, enda horfir maður til þeirra í von um úrlausnir.Þau sögðu: stjórnmálamenn búa ekki til störf það er fólkið í landinu sem það gerir.
Má ég gera smá kröfu um samræmi hérna? Það er ætlast til að fólkið í landinu, fólk eins og þessi kunningjakona mín taki sig til og skapi sér og vonandi fleirum störf án þess að eiga kost á lánsfé, hér var ég næstum búin að skrifa hjálp, til dæmis til að brúa bil milli innkaupa og sölu.
Ég hef áður minnst hér á það óréttlæti sem verktökum er sýnt með því að greiðsluaðlögunarúrræðið stendur þeim ekki til boða og þetta litla dæmi bætir gráu á svart. (http://www.althingi.is/altext/136/s/0845.html)
Stjórnmálamenn vonast eftir fólki sem hefur kjark til að taka áhættu við verstu aðstæður sögunnar, kraft til að ýta pikkföstum hjólum atvinnulífsins upp úr skítnum og greinilega fulla vasa af peningum.
Við horfum líka til þessa fólks. Vonum að það skapi okkur og okkar atvinnu.
En getum við í alvöru farið fram á það að einhver taki þessa áhættu? Án hjálpar frá Ríkisbönkunum? Og getum við farið fram á það við fólk að það gefi frá sér neyðarúrræði ef allt fer á versta veg?
Er það svolítið eins og að hvetja einhvern til að setjast upp í bremsulausan bíl og vona að hann drepist ekki?
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Þetta er undalegur tími sem sem að við lifum á og við líðum fyrir mistök sem að aðrir gerðu.Vinkona þín hefði frekar átt að biðja um 100 miljónir þá hefði verið sagt já já alveg sjálfsagt engin trygging enga ábyrðarmenn.Gaman að frétta af þér og vona að þú og þín fjölskylda hafi það sem allra best Kveðja Baldur
Baldur (IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 17:58
já algjörlega! Annars gaman að sjá Vikuna í dag;) Flotta kona!
Ásta Kristín (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 00:09
Kæri Baldur, takk fyrir innlitið og kveðjuna.
Hæ Ásta Kristín, takk sömuleiðis!
Kristín Bjarnadóttir, 9.5.2009 kl. 15:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.