Sjálfsbjargarviðleitni eða gullgrafarar?
30.3.2009 | 11:44
Einhverjir sem huggu í síðustu setninguna í síðustu færslu.
Já hvað átti ég eiginlega við?
Bara það að það eru alltaf einhverjir sem hugsa meira um eigin hagsmuni en heildarinnar.
Ætli við gerum það ekki öll reglulega. Þegar á reynir?
Forsendur breytast og hagur minn og hagur heildarinnar fer misvel saman.
Eitt dæmi um þetta er að kaupa íslenska vöru. Þegar ég á pening reyni ég að kaupa íslenska vöru en um leið og verðið er það sem skiptir öllu kaupi ég bara það sem er ódýrast.
Þessir sögulegu tímar sem við lifum á hafa auðvitað stillt ansi mörgum upp við vegg og erfitt fyrir fólk að taka ákvörðun um hvað er rétt. Er rétt að hugsa um eigin hag, til að redda sér eða er rétt að hugsa um hag heildarinnar?
Og þegar aðstæður eru þetta erfiðar þá stendur fólk frammi fyrir því að þurfa að velja á milli einhvers veigameira en hvort það kaupir euroshopper kjötbollur eða Goða.
Dæmi eru um að fólk skrái sig atvinnulaust en vinni svo svarta vinnu.
Dæmi eru um að útflytjendur komi ekki með gjaldeyrinn heim, auk þess sem einstaklingar fari úr landi með gjaldeyri, kaupi íslenskar krónur á útsölu og hirði mismuninn.
En hvað á fólk að gera? Hversu langt á fólk að ganga í að hugsa um velferð samfélagsins ef það sér ekki fram úr eigin fjármálaflækju?
Er hægt að fara fram á það?
En hvar eru mörkin á milli sjálfsbjargarviðleitni og græðgi?
Að lokum, það hefur áður komið hér fram að ég hef ekki hundsvit á stjórnmálum en reyni þó að fylgjast með.
Mér fannst stórkostlegt að sjá Jóhönnu Sigurðardóttir í ræðustól við lok landsfundar þar sem hún myndaði eilítið skökkum útréttum örmum sigurmerkið.
Kann ekkert skilgreininguna á jafnaðarhugsjóninni utanbókar en ég hnaut um þetta:
Hagsmunir okkar og hugsjónir snúast um að sækja fram, til meiri jafnaðar, sanngirni og réttlætis fyrir okkar fólk. Stefna okkar er skýr við viljum innsigla sáttmála við þjóðina um ný gildi á traustum grunni jafnaðarstefnunnar.
Okkar fólk? Eins gott að skrá sig í Samfylkinguna!
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:59 | Facebook
Athugasemdir
Já Jóhanna heillar, en ég vil sjá hvað ESB þýðir fyrir þjóðina alla (er sjálf skráð í Samfylkinguna) áður en ég gleypi við að ESB komi til með að bjarga okkur úr þessari kreppu. Aðildin hefur ekki hjálpað öllum þjóðum sem gengu í ESB.
En það er vert að skoða alla möguleika og þær lausnir sem henta öllum á landinu, ekki bara sumum.
Kristín Magdalena Ágústsdóttir, 30.3.2009 kl. 19:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.