Aðfangadagur í sveitinni
3.12.2008 | 12:35
Vegna fjölda áskoranna birtum við hér færslu sem skrifuð var eftir jólin í fyrra.
Þetta byrjaði allt voðalega vel enda húsbændur orðnir alvanir veislu-og jólahaldi. En sjálfstraustið var komið að hrokamörkum og ákveðið að tjalda öllu til fyrst venjulegur jólamatur hafði hingað til runnið áreynslulaust úr pottum og pönnum húsfreyjunnar.
Dagurinn fór því í að gera einfalda hluti flókna eins og með því að þreyta frumraun við ekta ris a la mande með tilheyrandi karamellubráð og dúlleríi. Heimilisfólkið dæsti og naut þess að undirbúa aðfangadagskvöld í afslöppun og rólegheitum.
En svo allt í einu hafði eitthvað gerst-tíminn hafði flogið frá okkur. Blóðþrýstingur fór að hækka og ris a la mandið varð hégómi og gaf fyrirfram óbragð í munninn. Allt í einu áttu allir eftir að fara í bað, það átti eftir að ryksuga og skúra og dekka borðið. Húsbóndinn rýkur í að ryksuga og þegar hann er með ryksuguna í annarri og skúringagræjurnar í skotstöðu er hringt úr Baughúsunum-hálffimm-og hann boðaður að sækja jólapakka niður í Sólheima. Hver vissi að einhver í fjölskyldu húsbóndans væri svona fyndinn?
Næsti hálftími er óljós í minningunni. Öllum var hent í bað (einhver hafði haft hugmynd um rólegheita jólabað en ó nei ekki í ár), húsmóðirin fór að gefa skipanir í skeytaformi og velti fyrir sér hvort öllum væri ekki sléttsama þótt hún væri enn í náttfötunum með svuntuna, ómáluð þegar gestirnir kæmu. Á meðan hún tók svo steikina út úr ofninum var húsbóndinn settur í að klæða alla í jólafötin-en nei nei þá kom spurningin: í hvaða föt eiga þau að fara?!!!!!
Hvers vegna telja karlmenn sig almennt ekki þurfa að þekkja jólaföt barnanna sinna? Hvers vegna urðu föt ábyrgð húsmæðra? Tekið skal fram að hann valdi sjálfur helminginn af fötunum og hafði séð þau öll og verið tilkynnt að þetta væru jólaföt......gætu mæður GLEYMT því hvaða föt þær hefði hugsað sér sem jólaföt? Og þar með gleymt að hafa þau þvegin og strokin til reiðu?
En svo kom reiðarslagið-húsmóðirin í sínu hrokakasti yfir afrekum í eldhúsinu hafði bara steingleymt að reikna með þvílíkt risastykki jólasteikin var og hún ekki næstum til. Allt í einu gafst því tími til að draga andann, fara úr náttfötunum, hægja á talandanum og ná augnkontakt við heimilisfólkið. Ris a la mandið fór aftur að freista og gott ef tilhlökkun náði ekki að láta á sér kræla.Jólin gengu svo í garð kl.18 eins og ráð er fyrir gert. En þá tók við bið-nei ekki bara eftir steikinni heldur bróður húsmóðurinnar. Nú gæti einhver sagt að það hefði ekki komið að sök þar sem maturinn var hvort eð ekki til en þegar börnin bíða spenntari eftir honum en pökkunum þá flokkast þetta með öðrum sökum viðkomandi.
Þegar hann svo gekk inn eins og kvikmyndastjarna heilum KLUKKUTÍMA of seint afsakaði hann sig með SKIPULAGSLEYSI! Hvað þarf 29 ára gamall piparsveinn að skipuleggja? Hvort hann eigi að senda hægri eða vinstri fyrst fram úr rúminu? Eða hvort hann eigi að vera með toppinn niður eða nett til hliðar?
Kvartaði svo undan því seinna um kvöldið að hafa ekki fengið Cocoa Puffs um morguninn.............sem er kannski ekki svo skrítið miðað við að síðast þegar við vissum var hann enn að fá páskaegg............ef til vill var það ástæðan fyrir óstundvísinni- kannski vantaði kú-kú-kókópöffs lestina til að vekja hann?
Á svipuðum tíma var svo steikin til en þá sló eldavélin út!!!! Smá tíma tók að kippa því í liðinn en stuttu síðar voru allir sestir niður til að borða hrikalega vel heppnaðan mat. Þetta sem maður hefur heyrt um að fólk verði að gefa tilfinningar í matargerð til að hún heppnist vel er sem sagt algjört kjaftæði. Eins og gefur að skilja var lítil elska í gangi síðustu mínúturnar í eldamennskunni og niðurstaðan því sú að annað hvort kann fólk að elda eða ekki. Tilfinningar hafa ekkert með þetta að gera!
Pakkarnir voru svo opnaðir hver á fætur öðrum og ótrúlega vorum við stolt að fylgjast með börnunum okkar. Bryndís opnaði sína og lagði þá snyrtilega á borð með merkimiða hvers á hverjum svo allir gætu áttað sig á hver gaf hvað, Bjarni var rólyndið uppmálað og alltaf jafnglaður þegar hann opnaði sína pakka og Snorri opnaði einn í einu og lék sér helling með það sem kom upp úr pakkanum áður en hann fór í næsta pakka. Mátaði m.a.s mjúku pakkana og speglaði sig.
En amman opnaði sinn pakka og guð hvað þetta var allt flott og sniðugt og frábært og nauðsynlegt í ferðalög sem hún var einmitt að fara í tveimur dögum síðar. En af einhverjum ástæðum reynir hún samt að gefa langömmunni innihaldið!!!!
Henni er snarlega bent á að sleppa því-en þá sat langamman eftir, súr yfir því að fá ekki innhaldið þar sem hún er líka að fara í ferðalag á næstunni. Finna varð því langömmupakkann á nóinu til að létta lund langömmunnar sem tók þá heldur betur gleði sína að nýju, enda þetta svona gasalega sniðug gjöf í ferðalög.
Húsmóðurbróðirinn tók ástfóstri við myndavélina á þessum tímapunkti með tilheyrandi flassböðum og brosa hrópum. Risaeðlan sem Snorri fékk þrusaði um á gólfinu og Transformerskarlarnir hans Bjarna kepptust við að segja :I am Optimus Prim hærra en næsti karl.
Hávaðinn var því kominn að hættumörkum með tilheyrandi flassblindunum og þá og akkúrat þá ákveður afinn að hringja til Svíþjóðar!!!!!!
Eins og það er nú gott að heyra í þeim og það sérstaklega á jólunum, þá var þetta ekki besti tíminn. Síminn gekk á milli fólks sem hækkaði röddina yfir transformerskarlana og risaeðluna. Bryndís greyið endaði á því að fela sig á bak við jólatréð til að geta heyrt í frænku sinni.
Langamman endurtók svo samtalið við alla meðlimi sænsku fjölskyldunnar með tilheyrandi raddbreytingum ofan í húsmóðurina sem á þessum tímapunkti var allt eins farin að reikna með að ellefu álfarnir stökkvandi stykkju næst út úr jólatrénu.
Hvers vegna er alltaf talað um hvernig börn hegða sér á jólunum? Fólk lýsir æsingnum og spenningnum sem brýst fram í þeim og oft á neikvæðum nótum. Það eina sem börnin gera kröfu um er að jólin komi, það sé gaman og þau fái gjafir. Ef það gengur upp eru þau alsæl og æðisleg.
Það eru ekki þau sem koma of seint, reyna að gefa gjafirnar sínar áfram eða taka upp gemsann þegar hæst ber leik......
Hvaða snillingur fattaði upp á því í þessari ameríku að hafa jólin á jóladagsmorgunn? Miklu sniðugra að opna alla pakkana í faðmi heimilisfólks í náttfötunum, nývaknaður. Restina af deginum er þá hægt að nota í að búa til ómögulega eftirrétti og enginn missir sig yfir hvenær steikin er til.
Seinna um kvöldið horfðu svo húsbændur á hvort annað og hugsuðu bæði það sama. Ef loforðið hefði verið: vilt þú ganga að eiga þennan/þessa mann/konu sem hlið þér stendur, þola skipanir í skeytaformi, gleymsku, dónaskap og fyndni ættingja á elleftu stundu, ásakandi pirring yfir að rafmagnið fer af eldavélinni og hávaða sem fer yfir viðurkennd hættumörk?Hefðum við sagt JÁ?
Besta jólagjöfin kom svo daginn eftir þegar yngsti fjölskyldumeðlimurinn svaf til hádegis............
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Frábær lýsing! Þetta er nú bara eins og í einu áramótaskaupsatriðinu í fyrra, það er þessi stund rétt fyrir sex :)
Gangi þér vel í próflestrinum!
Kv. Harpa
Harpa V (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 12:55
Þú ert stórbrotin í lýsingum - svo skemmtileg lesning - og takk fyrir vörnina á blogginu mínu - nenni ekki að dedúa við að svara svona lúðaleppum en þú varst góð
Helga Sigríður Úlfarsdóttir, 3.12.2008 kl. 18:14
Ji minn eini hvað ég hló af þessu í fyrra og ég hlæ enn. Það er svo gaman að þessu, sérstaklega þegar maður þekkir vel til persónanna í sögunni. Frábært!!!!
Kveðja
MAJA
María Björg (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 18:52
Oh mæ god ég er að leka hérna niður úr sófanum af hlátri Þú ert snillingur Didda.... sé þetta svo innilega allt fyrir mér...... Knús til ykkar!!!
Maja og co. (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 22:13
Jesús minn eini hvað þessi saga setur jólahaldið í réttan búning. Þetta er allt svo satt og rétt. Gaman að fá svona hláturgusu þegar mar er þreyttur eftir Orlando hahahaa.
Gangi þér vel í próflestrinum
Ásta (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 13:43
Þarna þekki ég þig sykurpúði
Hrund Traustadóttir, 8.12.2008 kl. 20:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.