Með rass-báðum megin!
21.11.2008 | 14:47
Við erum búin að hlæja svo mikið upp á síðkastið. Hlæja að þessum gullmolum sem börnin manns sleppa út þegar minnst varir.
Ákvað að deila þessu með ykkur svo þið getið líka hlegið, þótt ekki væri nema að því hvað börnin okkar eru vitlaus.
Bjarni (7) kom heim úr skólanum áðan og sagðist vera hálfviti. Hvers vegna? Jú ef maður er Alvitur þá er maður Alviti og hann veit u.þ.b. helminginn að því sem hægt er að vita í heiminum og er því Hálfviti.
Spurður að því hvort hann sé viss um að hann viti helminginn taldi hann upp að í Kína væru nokkrir á klósettinu, í Bandaríkjunum væru hermenn að fá sér bjór, í Ástralíu væri fólk sofandi........og svona hélt þetta lengi áfram. Líklega þar til hann hafði sannfært mig um að hann væri Hálfviti.
Var nú ansi nálægt hefðbundinni skilgreiningu á orðinu þegar við tókum út smákökurnar um helgina og spurði hvort hann mætti fá sér eina. Hann var beðinn um að bíða því þær væru of heitar en hann kunni nú ráð við því.
Hann setti á sig ofnhanskana!
Umhugsunartíminn eftir að hann var spurður hvort hann héldi ekki að hann brenndi sig í munninum var ca. 3 sekúndum of langur.
Hann er mjög áhugasamur um skólagöngu móður sinnar og finnst hún dugleg. Kom að mér um daginn þar sem las í lesHEFTINU í Þroskasálfræðinni. Spurði svo seinna hvort ég væri enn að lesa í Þroskaheftinu.
Við Snorri (3) fórum svo í sund í gær og í sturtunni er hann eitthvað meira hugsi en venjulega. Enda kom spurningin:Hvað gerðir þú við tippið þitt mamma?
Eftir hefðbundna útskýringu og upprifjun á líkamspörtum stelpna og stráka var hann enn hugsi. Gengur hringinn í kring, skoðar og skoðar og úrskurðar svo:
þú ert bara með rass ..báðum megin!
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:05 | Facebook
Athugasemdir
Dóttir mín, nú háöldruð, 25 ára snót (sem varla kann mér þakkir fyrir þetta), fór með pabba sínum í sund þegar hún var þriggja ára og faðirinn hafði áhyggjur af þessu með tippatalið. Hann hélt því uppi stanslausu málæði í sturtunni en takmörk eru nú fyrir því hve lengi hægt er að tala án þess að draga andann og svo kom að því að hann varð að draga andann.
Þá sagði sú stutta andagtug: Pabbi, þeir eru allir með rass líka!
Nanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 15:19
Hehe, rass báðum megin
Hrund Traustadóttir, 21.11.2008 kl. 16:51
ALLAMALLA yndisleg þessi blessuðu börn - í guðanna bænum mundu að skrifa hjá þér svona gullkorn Didda mín
Helga Sigríður Úlfarsdóttir, 21.11.2008 kl. 19:46
já þessi yndislegu kríli gefa lífinu lit:)
Kristín Bjarnadóttir, 21.11.2008 kl. 23:56
Þú ert rík kona
Hulda (IP-tala skráð) 22.11.2008 kl. 14:23
Kvöldið Didda mín!
Mikið er gaman að lesa pistlana þína þó að tilefni þeirra sé ekki alltaf fyndið!
Knús til þín og þinna
Sigrún sem er líka kölluð Didda
Sigrún Jóns (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 22:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.