Meira en að segja upp Stöð 2

Við veltum því oft fyrir okkur hversu slæm kreppan verði, hversu mikil áhrif hún komi til með að hafa á okkur og hversu lengi.

 

Talað er um að þetta sé mesta efnahagslægð síðan í kreppunni miklu 1930.  Þá stóð fólk í röðum eftir mat og atvinnuleysi var gífurlegt.  Nú þegar hafa fjölmargir misst vinnuna og útlit fyrir að mun fleiri fylgi á eftir en einhvern veginn getum við ekki í myndað okkur að almenningur á Íslandi komi til með að standa í röð eftir mat þótt það sé auðvitað raunveruleiki fólks á alltof mörgum stöðum í heiminum.

 

Hér á Íslandi hljóta að vera til úrræði til að koma í veg fyrir að fólk svelti.

 

Fyrirséður er vöruskortur en við veltum fyrir okkur hvar línan liggur?

 

Hvað þýðir djúp efnahagskreppa í nútímasamfélagi?  Hvað kemur illa við fólk í dag? Hvers getum við ekki verið án?

 

Heimurinn hefur breyst svo mikið að í dag eru hlutir sem raunverulega flokkast undir lúxusvöru nauðsynjavara.  Flestir fara ekki fet án farsímans, berjast þarf við fráhvarfseinkenni þegar tölvan bilar og strætó er tekinn til að gera eitthvað öðruvísi með krökkunum.  Á þessu heimili er iðulega keyrt sérstaklega út í sjoppu ef gleymst hefur að kaupa Diet Coke!  Enda ekki sjens að lifa kvöldið af án þess.

 

Við erum af þeirri kynslóð þar sem allir eiga allt sem þeir mögulega þurfa og miklu meira en það.  Við vitum ekki hvað skortur er.

 

Hvað kemur til með að standa í sögubókum framtíðarinnar?

 

Var vöruskortur það mikill í landinu að fólk neyddist til að þrífa klósettið án niðursturtanlegu Harpic-klútanna!”

 

Eða kemur fólk til með að standa í röð eftir einhverju sem skiptir meira máli?

 

Undanfarin ár höfum við og vinir okkar stækkað við okkur húsnæði og hlaðið niður börnum.  Við höfum lifað tímabil þar sem sýna þarf forsjá og fyrirhyggju.  En fólk hefur haft það mikið á milli handanna að sparsemin náði varla mikið lengra en að segja upp stöð 2 og mogganum.  Ónotaða líkamsræktarkortið hélt áfram að tikka og heimilisfólk fann lítinn mun.  Þannig.

 

En nú þarf að ganga lengra en áður.

 

Við erum búin að skera niður allt sem hægt er en það dugir ekki til.

 

Lítur allt út fyrir að börnin okkar fari á mis við meira en Sveppa á morgnana um helgar.

 

Góð kona benti mér á að hafa samband við Hönd í hönd.  Mér fannst lítið mál að hringja þangað, bara svona til að tékka á hlutunum.  Hitti á vinalegan mann sem andvarpaði bara yfir stöðu hringjandans.  Skrítið hvað ástandið á okkur varð raunverulegra við að draga það saman fyrir mann út í bæ.

 

Hann benti mér á að hafa samband við Félagsþjónustu Kópavogs.

 

Fyrstu viðbrögð voru auðvitað bara djöfuls rugl er þetta í manninum!  Neikvæðnin streymdi fram.  Var maðurinn að grínast, það er bara fólk í vandræðum sem leitar til féló!  Við erum ekki þannig fólk!

 

En við erum það bara víst!  Við erum fólk í vandræðum.

 

Og ef takmarkið er að börnin okkar verði lítið sem ekkert vör við ástandið, þá erum við fólk sem leitar til Féló.

 

Það þarf líka að skera niður stoltið.

 

Ég tók því á mig rögg og hringdi í Féló.

Úr farsímanum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Sigríður Úlfarsdóttir

jamm ég hef einmitt verið að velta fyrir mér þessum sömu hlutum "hversu mikið verður nóg þegar kemur að niðurskurði/sparnaði"??????

Helga Sigríður Úlfarsdóttir, 20.11.2008 kl. 21:09

2 Smámynd: Hrund Traustadóttir

Ég dreg mörkin við Harpic klútana  Ég er til í að hamstra 50 kílóum af þeim  Kem sennilega til með að gera það, þ.e. hamstra þá.

Hrund Traustadóttir, 21.11.2008 kl. 16:49

3 Smámynd: H G

Fyrirgefið gamlingja sem hefur haldið "sínum" salernum þokkalega hreinum í tæp 50 ár.  Harpic-klútur, hvað er það?      Minni á útikamra og flór"aðstöðu" víða á bæjum langt fram yfir miðja síðustu öld. 

Athugið að samt eru aðstæður ungra barnafjölskyldna erfiðari (Harpic or no Harpic) og barnfjandsamlegri nú en þá.  Þessa fullyrðingu set ég fram - get rökstutt - en nenni ekki rétt í bili.

H G, 27.11.2008 kl. 23:34

4 Smámynd: Kristín Bjarnadóttir

Takk fyrir bráskemmtilegar athugasemdir H G.

Harpicklútar eru tuskur sem eru notaðar til að þrífa klósett.  Tuskunum má svo sturta niður.

Eiga að vera umhverfisvænar og eru mjög húsmóðurvænar.

bestu kveðjur, Kristín

Kristín Bjarnadóttir, 28.11.2008 kl. 12:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband