Réttur til engra upplýsinga
9.11.2008 | 15:42
Bryndís kom heim úr skólanum fyrstu vikuna í október og spurði mig hvort bankarnir væru að fara á hausinn. Ég spurði til baka af hverju hún héldi það. Kennararnir voru að tala um það. Fyrir hálfum mánuði spurði svo hún hvort Ísland væri að fara á hausinn. Hafði líka heyrt það í skólanum.
Fólk talar skiljanlega varla um annað. Sama hvar það er.
Enda skiljum við hvorki upp né niður í neinu. Þurfum meiri upplýsingar og skýr svör.
Eigum rétt á því.
En kannski eru sumir búnir að fá of mikið af upplýsingum.
Hafa þeir ekki líka rétt?
Langar að deila með ykkur bréfi sem Íris 4 barna móðir sendi mér þar sem hún lýsir þessu einstaklega vel.
Ég er fjögurra barna móðir, ég er svo lánsöm að börnin mín eru öll heilbrigð og ánægðir einstaklingar. Þau er á öllum aldri og eru að læra á lífið hvert á sinn hátt, öll stödd á mismunandi stigum á lífsins þrepum. Þau er afskaplega venjuleg en samt svo einstök hvert fyrir sig, eins og öll börn eru. Þau eru framtíð þessa lands og ríkidæmi okkar liggur í þeim, þessum ungu lífum.
Þau munu erfa landið, þau munu þurfa að takast á við lífið og tilveruna, erfiðleika og allar þær hindranir sem á lífsins göngu verða.
Þannig er lífsins ganga þótt hver og einn hafi sitt göngulag.
Ég er búin að hugsa svo mikið um þetta í þessari umræðu og fjarðafoki sem hefur einkennt ísland síðustu vikur.
Nú er komið nóg. Það þýðir ekki að ég hafi ekki samúð með þeim sem standa uppi slippir og snauðir, að ég átti mig ekki á því að það er fólk þarna úti sem er búið að missa allt sitt....þá meina ég allt því heilsan farin líka. Ég veit að það er gamalt og ungt fólk sem er búið að leggja mikið á sig og stendur uppi með ekki neitt...þetta veit ég allt.
En það er samt komið nóg.
Ég hef ekki vald,auð né neitt annað til að gera þessu fólki lífið eitthvað léttara annað en að hafa það í bænum mínum.
En ég get haft áhrif á hvernig börnin mín koma út úr þessu.
Nú er mál að hlúa sem aldrei fyrr að börnum okkar. Það hlýtur að vekja kvíða,ugg og óöryggi að sjá trekk í trekk fyrirsagnir um að nú sé ísland komið á botninn, verði ekki til matur og fleira og fleira og blessuð börnin skilja þetta á sinn hátt, hvert með sínum skilningi og þroska.
Ég mæli með að við hlúum að heimilinu,höfum heimilið griðarstað þar sem þetta brjálæði nær ekki til. Griðarstað þar sem ríkir kyrrð og kærleikur og gleði, allt eru þetta ókeypis hlutir. Hlýtt faðmlag, bros og hlátur. Ef þau upplifa okkur á þennan hátt anda þau léttar og ábyrgð sú sem þau finna fyrir verður léttari.
Það er öllum börnum sem og okkur fullorðnu hollt að hugsa okkar gang, endurskipuleggja og fara vel með. Breytum þessu neikvæða sem vofir yfir öllu í jákvætt andrúmsloft og hlýlegt viðmót.
Börnin okkar eru það dýrmætasta og eiga það besta í heimi skilið. Þau þurfa ekki að hlusta á okkur hafa áhyggjur af peningamálum og fleiru. Þau eiga eftir að takast á við það í sinni framtíð. Ræðum þessi mál sem koma börnum okkar ekki við þegar þau heyra ekki til, því það er svo merkilegt hve margt er misskilið og ekki rétt heyrt.
Takk Íris fyrir að minna okkur á þetta.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Athyglisvert að svo fá börnin bara þessar upplýsingar og umræður í skólanum. Ég tala nú ekki um þegar Menntamálaráðherra er búinn að senda bréf í alla leik- og grunnskóla þar sem kennarar eru hvattir til að fría börnin frá þessari umræðu. Á mínum vinnustað er þetta umræðuefni t.d. ekkert í boði nema í kaffistofunni.
Við verðum að passa upp á ungana okkar og passa okkur að tapa ekki gleðinni í öllu þessu. Þó ekki sé nema þeirra vegna.
Hrund Traustadóttir, 9.11.2008 kl. 15:53
heyr heyr stúlkur - hlífum börnunum - okkar og annarra
Helga Sigríður Úlfarsdóttir, 10.11.2008 kl. 08:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.