Eiga börn heima í mótmælum?
8.11.2008 | 12:04
Takk fyrir frábærar móttökur. Gaman hvað margir hafa kíkt hérna inn en langt í frá undarlegt miðað við hvað ég auglýsti þetta.
Finn hjá mér þörf til að skrifa mig í gegnum þetta tímabil. Ekki síst vegna þess að mig grunar að það verði sögulegt. Vona að ég standi undir væntingum, reyni að minnsta kosti mitt besta til að valda ekki vonbrigðum. Kem líka greinilega til með að fá aðstoð. Margir búnir að hafa samband með hugmyndir og ábendingar. Einn vinur okkar er til dæmis mjög áhugasamur um að ég læði því hér inn hvað hann er í góðu formi 36 ára.
Árni ætlar í mótmælin í dag. Samt ekki alveg viss hverju nákvæmlega er verið að mótmæla. Skiptir heldur engu máli, ástandið er ömurlegt, sama hvaða vinkill er tekinn á það. Bara spurning um að taka afstöðu.
Vill taka stóru krakkana með. Var sjálfur alinn upp við að mótmæla án þess þó að foreldrar hans séu einhverjir atvinnumótmælendur. Á t.d. góða minningu um rölt með þeim frá Varnarstöðinni í Keflavík til Reykjavíkur.
Árni hefur lagt áherslu á þennan uppeldisþátt og tekið börnin með sér í mótmæli án athugasemda af minni hálfu. Þau mótmæltu til að mynda Íraksstríðinu og Falun Gong skrípaleiknum kröftuglega, úr köflóttri tvíburakerru.
Bara gott mál.
En nú set ég mig á móti því að þau fari með. Set spurningamerki við að þau fái ástandið svona beint í æð. Finnst mikilvægt að hlífa börnunum eins mikið og mögulegt er. Vona heitt og innilega að þau verði lítið sem ekkert vör við eitt eða neitt. Fái að vera börn. Kreppan mikla verði eitthvað sem þau furða sig seinna á að hafa upplifað.
Sé ekki alveg að þau hafi gott af því að fara með pabba sínum að mótmæla því hve allt er ömurlegt á Íslandi.
Vil að þau trúi því áfram að Ísland sé best í heimi og þau séu heppin að búa hér.
Þar til þau eru nógu stór til að mynda sér skoðun á því sjálf.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:30 | Facebook
Athugasemdir
Sammála. Þau eiga að fá að vera í friði með þetta - eru ekki nógu gömul til að melta það sem þau gætu séð - og hafa kannski séð............. egg í Alþingishúsið.....
Katrín (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 19:56
Nákvæmlega. Börn eiga ekki erindi. Þau hafa heldur ekki forsendur til að skilja fyllilega hvað er í gangi og þau gætu farið að hafa áhyggjur af þessu ástandi og það er eitthvað sem við viljum vernda börnin okkar frá, ikke?
Hrund Traustadóttir, 8.11.2008 kl. 21:45
Góður pistill.
Guðrún B. (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 03:28
Einmitt - rétt ákvörðun - ég var alveg á báðum áttum hvort ég ætti að fara í gær eður ei - tók svo þá ákvörðun að bjóða frekar í kaffi þar sem sá allra minnsti á heimilinu hefði orðið að fara með mér - ekkert smá létt þegar ég sá fréttirnar í gærkveldi þar sem fólk missti sig alveg og lét reiðina bitna á þessu líka flottasta húsi sem við eigum Alþingishúsinu - hefði ekki getað ímyndað mér hve ég hefði orðið að hlaupa hratt á brott með vesalings barnið sem hefði eflaust fengið vægt sjokk yfir reiðu fólki í þúsundatali!!!
Helga Sigríður Úlfarsdóttir, 9.11.2008 kl. 11:15
Með þetta í huga datt mér í hug að benda ykkur á vef Lýðheilsustöðvar. Þar undir "Fréttir-Lýðheilsustöð" er hægt að lesa ábendingar um þetta til fólks.
Hrund Traustadóttir, 9.11.2008 kl. 12:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.