Venjulegt fólk

Við höfum verið beðin um að lýsa því hér reglulega hvernig kreppan fer í okkur. Ekki vegna þess að við séum eitthvað merkilegri en annað fólk, heldur einmitt vegna þess að við erum það ekki. Við erum bara venjulegt fólk, almenningurinn, lýðurinn. Höfum það ekkert betra eða verra en aðrir.

Við áttum auðvitað okkar spretti í góðærinu. Prófuðum að vera flottræflar. Kvittuðum undir nóturnar án þess að skoða upphæðina, fórum til útlanda tvisvar á ári og gott ef sjálfur Herbert Guðmundsson var ekki pantaður hingað í partý.

En við keyptum aldrei hlutabréf, erum ekki með gengislán og áttum aldrei neitt til að setja í peningamarkaðssjóði. Við töpuðum því engum peningum.

En við sjáum á eftir öðru. Árni er búinn að missa fyrirtækið sitt. Fyrirtækjaumhverfi er búið að vera með þeim hætti á þessu ári að það gat ekkert annað gerst. Reksturinn og aðgangur að fjármunum varð erfiðari og erfiðari og flækjustig viðskipta með ólíkindum. Ljóst er að einhverjir fara illa út úr því máli öllu og einnig hefur sannast að enginn er annars bróðir í leik ef leik skyldi kalla.

En við erum ríkari en flestir. Við eigum 4 börn frá 8 mánaða til 9 ára, tvær stelpur og tvo stráka.

Og í upphafi árs fannst okkur upplagt að ég tæki foreldraorlof í framhaldi af fæðingarorlofi. Ég er því launalaus þar til næsta haust. Ég læt mér ekki einu sinni detta til hugar að hafa samband við vinnuveitanda minn, Icelandair og leita eftir að breyta því fyrirkomulagi. Get sagt mér það sjálf að ekki eru miklar líkur á vinnu þegar fyrirtækið er nýbúið að sjá á eftir 134 flugfreyjum og þjónum.

Mikil breyting hefur því átt sér stað og við höfum ekki hugmynd um hvaðan eða hvenær næstu peningar koma.

En sem betur fer höfum við áður staðið í svipuðum sporum. Í síðustu kreppu 2001/2002 missti Árni vinnuna og ég var þá líka í launalausu fæðingarorlofi. Ég segi sem betur fer því fyrri reynsla gerði það að verkum að við höfum passað okkur á að eiga ávallt smá varasjóð. Sá varasjóður gagnast okkur nú líkt og laun í uppsagnarfresti.

Annað sem hefur komið skemmtilega á óvart í þessum aðstæðum er að í haust lét ég gamlan draum rætast og hóf nám í H.Í. Mögulega getum við því sótt um námslán.

Markmiðið með þessum hugleiðingum sem á eftir koma er ekki að velta sér upp úr hlutunum eða kryfja til mergjar ástandið í þjóðfélaginu. Né heldur er þetta vettvangur vorkunnar, sjálfs eða annars konar.

Tilgangurinn er aðeins sá að veita innsýn í líf fólks í kreppunni miklu 2008.

Venjulegs fólks í óvenjulegum aðstæðum.


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú kannt sko að koma fyrir þig orði Didda mín  Bíð spennt eftir framhaldinu

María S Halldórsdóttir (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 22:04

2 identicon

Gaman að lesa um venjulegt fólk eins og okkur hin sem er að fara í gegnum kreppuna

Leitt að heyra með fyrirtækið hans Árna, en maður reynir að líta á björtuhliðarnar á öllum málum. Það besta í lífinu er ókeypis enda eigið þið 4 dásamleg börn :)

bíð spennt eins og fyrri lesandi eftir framhaldinu

Hildur (foreldrafélagi) (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 12:02

3 identicon

Sæl Didda. Ég kíkti aðeins í heimsókn. Ég vil byrja á því að segja "leiðinlegt með fyrirtækið hans Árna" og um leið "gott viðhorf sem þú hefur til alls þessa".

Ég er alveg sammmála þér að við eigum að vera dugleg að horfa til barnanna okkar og þakka fyrir það sem raunverulega skiptir máli. Annað- gaman væri að vita í hvaða námi þú ert...svona fyrir þá sem hafa ekki alveg verið að fylgjast með.

Kveðja Ranghildur

Ragnhildur Þórarinsdóttir (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 13:43

4 identicon

Hæ frænka, það er nú aldeilis gott að bæta þér í blogghringinn hjá sér ;) Ég held nefninlega að maður verði ekki fyrir vonbrigðum með þig sem bloggara, þú munt verða aktífur bloggari ;)
Við verðum að líta björtum augum til framtíðar, annað gengur ekki upp!!!

Kveðja úr Vesturbænum
MAJA

María Björg (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 17:23

5 identicon

Kæra Kristín.

Þetta verður skemmtilegt - þú hefur einstakt lag á að sjá skondnu hliðarnar á lífinu. 

Go - Didda - Go Didda - Go Didda (sönglist með amrískum hreeeiiim).

Katrín Brynja Hermannsdóttir (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 20:06

6 Smámynd: Hrund Traustadóttir

DiddaPidda bara komin á bloggið og kominn tími til  Ég var einmitt að hugsa um það nú í vikunni að ég þyrfti að fara að senda þér aftur linkinn á blog.is svo þú gætir nú farið að opna síðu  En gott að þú fattaðir upp á því sjálf

Knús í hús

Hrund Traustadóttir, 7.11.2008 kl. 20:23

7 identicon

Gaman að kíkja á bloggið þitt, viss um ég á eftir að kíkja oft á það.  Kreppur koma og fara en það er fjölskyldan og vinir sem skipta öllu máli, alveg eins og þú bendir á.  Gangi ykkur alltaf sem allra best

Knús

Dagmar (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 21:22

8 identicon

Hæ skvís. Líst vel á að þú sért farin að blogga, mun fylgjast með framhaldinu. Vona að allt gangi vel hjá ykkur. Verðum að fara að hittast fljótlega.

Knús

Elsa.

Elísabet Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 23:41

9 identicon

Var viss um að þú værir búin að kokka meira.

 Go Didda, Go Didda, Go Didda!

 Ein ÓÞOLANDI :)

Katrín Brynja (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 00:17

10 Smámynd: Helga Sigríður Úlfarsdóttir

Til lukku með síðuna - fátt eins skemmtilegt og að lesa færslur á barnalandi eftir þig mín kæra og hér verður enn skemmtilegra..........  að lesa......

Þú verður komin í "birtingarhópinn" þarna á mbl.is áður en varir - vittu til  

Samúðarkveðjur vegna ástands atvinnumála á heimilinu - vonum að úr því rætist

Helga Sigríður Úlfarsdóttir, 8.11.2008 kl. 09:04

11 identicon

Ánægður með þig, Didda.  Þú ert algjört hörkutól og flottur penni.

Bestu.

Viddi.

Viddi. (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 10:50

12 identicon

Heil og sæl Kristín, takk fyrir skeytið.

Sú manneskja sem skrifar ofangreinda færslu er ekkert nema hæfileikarík, klár og hlaðin innri styrk. Svona manneskju eru allir vegir færir!

Bestu óskir!

Hallgrímur

Hallgrímur Óskarsson (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 00:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband