Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
Af Grýlu
10.12.2008 | 00:07
Bjarni (7) trúir á jólasveinana. Ekki efi í hans huga. En með restina af fjölskyldunni höfum við ekki verið eins viss.
Þar til í dag.
Hann var niðursokkin í að sauma fyrir rifu á jólasveinafæti þegar hann segir:ef manni þykir mjög vænt um sig ætti maður að ganga um með skæri.
Kom í ljós að ekki aðeins trúir hann á jólasveinana heldur mömmu þeirra líka.
Töluverða líkur eru víst á að hún nappi nútímabörn í pokann sinn og þá er nú eins gott að vera viðbúinn. Geta seilst í vasann eftir skærunum og klippt sig út!
En fyrst er greinilega nauðsynlegt að gera upp við sig hvort manni þykir mjög vænt um sig.
Talandi um skæri þá ákvað ég að munda slíkt á börnin í kvöld.
Dauðkvíði nú fyrir morgundeginum. Ímynda mér að börnin komi grátandi heim úr skólanum eftir að hafa þolað háðsglósur og stríðni allan daginn. Stríðni venjulegu barnanna sem fóru í jólaklippinguna til fagfólks.
Bryndís Inga (9) er reyndar allt í lagi. En strákarnir langt í frá.
Sá það samt ekkert fyrr en ég tók eftir svipnum á Árna.
Annar eins og Emil, hinn eins og munkur.
Eins gott að Grýla tekur bara óþekk börn en ekki asnaleg.
Kannski ég setji samt skæri í vasana þeirra til öryggis næstu daga.
Staðið í bænum
8.12.2008 | 14:52
Félagsþjónustan hefur tekið ákvörðun um að styrkja fjölskylduna um 160.000 kr.
Stóð eitthvað í þeim að húsmóðirin er með gildan ráðningarsamning og var henni nokkrum sinnum bent á að það væri VAL að vera í launalausu leyfi. Sem betur fer tóku þau þó rökum eins og þeim að sú ákvörðun var tekin miðað við allt aðrar forsendur og að því er virðist í öðru lífi.
Merkilegt hvað þessi ráðningarsamningur, eins yndislegur eins og hann er, króar okkur af. Því fyrir utan að standa í þeim hjá Féló get ég ekki heldur sótt um atvinnuleysisbætur.
Lítið svigrúm gefið fyrir að aðstæður geta breyst hjá fólki og þó ég hafi VALIÐ að vera heima og fara í nám, þá er sú ákvörðun tekin miðað við að Árni hafi vinnu og einnig þeim varnagla að ef við réðum ekki við þetta gæti ég farið fyrr að vinna.
Virkar fjarlægt og nánast barnalegt að gefa sér það að við hefðum vinnu og í mínu tilfelli nánast eftir hentisemi.
En þrátt fyrir að við séum mjög þakklát fyrir styrkinn er ljóst að hann dugir skammt fyrir 6 manna fjölskyldu og eru því vonir enn bundnar við námsárangur húsmóðurinnar. Námsárangur sem veitir aðgang að blessuðu námsláninu sem enginn hafði látið sér detta til hugar að VELJA í fávísum forkreppuheimi.
Hristur Stefán
6.12.2008 | 02:53
Hvar eru svona snillingar í dag?
http://www.youtube.com/watch?v=FQ2o5Apl2UU
veit að mitt fólk kveikir og langar að heyra hvaða minningar það tengir við þetta lag!
Ég man eftir að sofna með risastór heyrnatól tengd í RISAstórar græjur.............
Aðfangadagur í sveitinni
3.12.2008 | 12:35
Vegna fjölda áskoranna birtum við hér færslu sem skrifuð var eftir jólin í fyrra.
Þetta byrjaði allt voðalega vel enda húsbændur orðnir alvanir veislu-og jólahaldi. En sjálfstraustið var komið að hrokamörkum og ákveðið að tjalda öllu til fyrst venjulegur jólamatur hafði hingað til runnið áreynslulaust úr pottum og pönnum húsfreyjunnar.
Dagurinn fór því í að gera einfalda hluti flókna eins og með því að þreyta frumraun við ekta ris a la mande með tilheyrandi karamellubráð og dúlleríi. Heimilisfólkið dæsti og naut þess að undirbúa aðfangadagskvöld í afslöppun og rólegheitum.
En svo allt í einu hafði eitthvað gerst-tíminn hafði flogið frá okkur. Blóðþrýstingur fór að hækka og ris a la mandið varð hégómi og gaf fyrirfram óbragð í munninn. Allt í einu áttu allir eftir að fara í bað, það átti eftir að ryksuga og skúra og dekka borðið. Húsbóndinn rýkur í að ryksuga og þegar hann er með ryksuguna í annarri og skúringagræjurnar í skotstöðu er hringt úr Baughúsunum-hálffimm-og hann boðaður að sækja jólapakka niður í Sólheima. Hver vissi að einhver í fjölskyldu húsbóndans væri svona fyndinn?
Næsti hálftími er óljós í minningunni. Öllum var hent í bað (einhver hafði haft hugmynd um rólegheita jólabað en ó nei ekki í ár), húsmóðirin fór að gefa skipanir í skeytaformi og velti fyrir sér hvort öllum væri ekki sléttsama þótt hún væri enn í náttfötunum með svuntuna, ómáluð þegar gestirnir kæmu. Á meðan hún tók svo steikina út úr ofninum var húsbóndinn settur í að klæða alla í jólafötin-en nei nei þá kom spurningin: í hvaða föt eiga þau að fara?!!!!!
Hvers vegna telja karlmenn sig almennt ekki þurfa að þekkja jólaföt barnanna sinna? Hvers vegna urðu föt ábyrgð húsmæðra? Tekið skal fram að hann valdi sjálfur helminginn af fötunum og hafði séð þau öll og verið tilkynnt að þetta væru jólaföt......gætu mæður GLEYMT því hvaða föt þær hefði hugsað sér sem jólaföt? Og þar með gleymt að hafa þau þvegin og strokin til reiðu?
En svo kom reiðarslagið-húsmóðirin í sínu hrokakasti yfir afrekum í eldhúsinu hafði bara steingleymt að reikna með þvílíkt risastykki jólasteikin var og hún ekki næstum til. Allt í einu gafst því tími til að draga andann, fara úr náttfötunum, hægja á talandanum og ná augnkontakt við heimilisfólkið. Ris a la mandið fór aftur að freista og gott ef tilhlökkun náði ekki að láta á sér kræla.Jólin gengu svo í garð kl.18 eins og ráð er fyrir gert. En þá tók við bið-nei ekki bara eftir steikinni heldur bróður húsmóðurinnar. Nú gæti einhver sagt að það hefði ekki komið að sök þar sem maturinn var hvort eð ekki til en þegar börnin bíða spenntari eftir honum en pökkunum þá flokkast þetta með öðrum sökum viðkomandi.
Þegar hann svo gekk inn eins og kvikmyndastjarna heilum KLUKKUTÍMA of seint afsakaði hann sig með SKIPULAGSLEYSI! Hvað þarf 29 ára gamall piparsveinn að skipuleggja? Hvort hann eigi að senda hægri eða vinstri fyrst fram úr rúminu? Eða hvort hann eigi að vera með toppinn niður eða nett til hliðar?
Kvartaði svo undan því seinna um kvöldið að hafa ekki fengið Cocoa Puffs um morguninn.............sem er kannski ekki svo skrítið miðað við að síðast þegar við vissum var hann enn að fá páskaegg............ef til vill var það ástæðan fyrir óstundvísinni- kannski vantaði kú-kú-kókópöffs lestina til að vekja hann?
Á svipuðum tíma var svo steikin til en þá sló eldavélin út!!!! Smá tíma tók að kippa því í liðinn en stuttu síðar voru allir sestir niður til að borða hrikalega vel heppnaðan mat. Þetta sem maður hefur heyrt um að fólk verði að gefa tilfinningar í matargerð til að hún heppnist vel er sem sagt algjört kjaftæði. Eins og gefur að skilja var lítil elska í gangi síðustu mínúturnar í eldamennskunni og niðurstaðan því sú að annað hvort kann fólk að elda eða ekki. Tilfinningar hafa ekkert með þetta að gera!
Pakkarnir voru svo opnaðir hver á fætur öðrum og ótrúlega vorum við stolt að fylgjast með börnunum okkar. Bryndís opnaði sína og lagði þá snyrtilega á borð með merkimiða hvers á hverjum svo allir gætu áttað sig á hver gaf hvað, Bjarni var rólyndið uppmálað og alltaf jafnglaður þegar hann opnaði sína pakka og Snorri opnaði einn í einu og lék sér helling með það sem kom upp úr pakkanum áður en hann fór í næsta pakka. Mátaði m.a.s mjúku pakkana og speglaði sig.
En amman opnaði sinn pakka og guð hvað þetta var allt flott og sniðugt og frábært og nauðsynlegt í ferðalög sem hún var einmitt að fara í tveimur dögum síðar. En af einhverjum ástæðum reynir hún samt að gefa langömmunni innihaldið!!!!
Henni er snarlega bent á að sleppa því-en þá sat langamman eftir, súr yfir því að fá ekki innhaldið þar sem hún er líka að fara í ferðalag á næstunni. Finna varð því langömmupakkann á nóinu til að létta lund langömmunnar sem tók þá heldur betur gleði sína að nýju, enda þetta svona gasalega sniðug gjöf í ferðalög.
Húsmóðurbróðirinn tók ástfóstri við myndavélina á þessum tímapunkti með tilheyrandi flassböðum og brosa hrópum. Risaeðlan sem Snorri fékk þrusaði um á gólfinu og Transformerskarlarnir hans Bjarna kepptust við að segja :I am Optimus Prim hærra en næsti karl.
Hávaðinn var því kominn að hættumörkum með tilheyrandi flassblindunum og þá og akkúrat þá ákveður afinn að hringja til Svíþjóðar!!!!!!
Eins og það er nú gott að heyra í þeim og það sérstaklega á jólunum, þá var þetta ekki besti tíminn. Síminn gekk á milli fólks sem hækkaði röddina yfir transformerskarlana og risaeðluna. Bryndís greyið endaði á því að fela sig á bak við jólatréð til að geta heyrt í frænku sinni.
Langamman endurtók svo samtalið við alla meðlimi sænsku fjölskyldunnar með tilheyrandi raddbreytingum ofan í húsmóðurina sem á þessum tímapunkti var allt eins farin að reikna með að ellefu álfarnir stökkvandi stykkju næst út úr jólatrénu.
Hvers vegna er alltaf talað um hvernig börn hegða sér á jólunum? Fólk lýsir æsingnum og spenningnum sem brýst fram í þeim og oft á neikvæðum nótum. Það eina sem börnin gera kröfu um er að jólin komi, það sé gaman og þau fái gjafir. Ef það gengur upp eru þau alsæl og æðisleg.
Það eru ekki þau sem koma of seint, reyna að gefa gjafirnar sínar áfram eða taka upp gemsann þegar hæst ber leik......
Hvaða snillingur fattaði upp á því í þessari ameríku að hafa jólin á jóladagsmorgunn? Miklu sniðugra að opna alla pakkana í faðmi heimilisfólks í náttfötunum, nývaknaður. Restina af deginum er þá hægt að nota í að búa til ómögulega eftirrétti og enginn missir sig yfir hvenær steikin er til.
Seinna um kvöldið horfðu svo húsbændur á hvort annað og hugsuðu bæði það sama. Ef loforðið hefði verið: vilt þú ganga að eiga þennan/þessa mann/konu sem hlið þér stendur, þola skipanir í skeytaformi, gleymsku, dónaskap og fyndni ættingja á elleftu stundu, ásakandi pirring yfir að rafmagnið fer af eldavélinni og hávaða sem fer yfir viðurkennd hættumörk?Hefðum við sagt JÁ?
Besta jólagjöfin kom svo daginn eftir þegar yngsti fjölskyldumeðlimurinn svaf til hádegis............
Mánudagur til mæðu
1.12.2008 | 21:23
Hlaut að koma að því. Eins og við erum nú að reyna að vera bjartsýn þá auðvitað koma svona dagar inn á milli.
Það styngur allt.
Ekki síst að sjá allt of stóra slummu fara út af bankareikningnum.
Vélarnar hans Árna boðnar upp í dag, hans virðist ok með það en hlýtur að vera mjög skrítin tilfinning. Að standa í verksmiðjunni og fylgjast með fólki bjóða í vélar sem hann batt miklar vonir við. Sjá fyrirtækið leyst upp.
Fór til féló í síðustu viku og viðkomandi starfsmaður hefur ekki einu sinni fyrir því að svara beiðninni. Áttum að fá svar síðasta fimmtudag en hún hringdi ekki og svarar ekki skilaboðum. Fékk nú líka mest á tilfinninguna að við teldumst í sjálfskaparvíti.
Skrítin staða og vond.
Ekki mikið meira um það að segja.Dansað eftir bók
30.11.2008 | 00:51
Ég á í ástar/haturssambandi við bókasöfn. Ég elska að fara með börnin mín í barnadeildina, eiga þar góða stund, fletta bókum og taka þær bestu heim.
En ég hata bókasöfn þegar ég þarf að finna efni fyrir mig. Þær bækur sem ég hef tilefni til að leita að eru nefnilega ALDREI inni. Bækur út um allt, í réttri röð, í réttri hillu. Nema þær sem mig vantar!
Og þar sem ég er mjög dugleg við að telja mér trú um einhver ástæða sé fyrir því að akkúrat mínar bækur eru ekki inni kemst ég fljótt að þeirri niðurstöðu að ekki aðeins séu bækurnar á rangri hillu, heldur líka ég.
Röng manneskja á röngum stað í röngu námi leitandi að rangri bók.
Fór á bókasafnið í dag og það var sama sagan, bók sem sannarlega var merkt í Gegni í hillu var auðvitað ekkert í hillu.
Yfir mig heltist venjubundinn efi og vanmáttur. Ég á ekki heima á bókasafninu, bókasafn er fyrir aðra gerð af fólki, fólki sem veit að hverju það leitar, og hvar það finnur það. Fólk sem bækurnar bíða eftir í hillu.
Á leiðinni út rak ég augun í svarið. Ég á ekki heima á bókasafninu. Ég á gjörsamlega ekkert sameiginlegt með fólki sem sækir slíkan stað.
Ég á ekkert sameiginlegt með fólki sem heldur að það geti lært magadans af bókinni How to Bellydance
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 00:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Litningalottóið
27.11.2008 | 22:12
Ég er brennimerkt pabba mínum. Við erum það lík að það fer ekki á milli mála, þekki fólk pabba á annað borð, hvers dóttir ég er.
Sumir spyrja hvort ég sé Bjarnadóttir, aðrir spyrja beint út í fréttir af pabba og enn aðrir kynna sig bara og biðja fyrir kveðju heim.
Fyrst var ég voða upptekin af því að spyrja hvernig fólk kveikti en þá var yfirleitt horft góðlátlega á mig og sagt: ÞIÐ ERUÐ ALVEG EINS!
Ég er hætt að spyrja. Nenni ekki að heyra það einu sinni enn að ég líti út eins og 63 ára gamall karl.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Brotið á Árna
25.11.2008 | 23:23
Við Bryndís (9) fórum í IKEA í gær að kaupa jólapappír utan um gjafirnar til Svíþjóðarfólksins.
Skrítið að kaupa sænskan jólapappír til að senda til Svíþjóðar.
Maturinn er kominn á borðið þegar við komum heim. Eftir matinn fer Árni út með ruslið en þegar hann kemur inn aftur heyrist lítill smellur. Lítill smellur sem verður samt svo risastór-vegna afleiðinganna.
Getum enn heyrt hann í huganum.
Hann og niðurbældar stunurnar í Árna sem tókst einstaklega vel upp með að bíta á jaxlinn.
Ýmsir aðilar í þjóðfélaginu hafa undanfarið skorast undan ábyrgð á gjörðum sínum.
En ekki ég.
Ég viðurkenni það.
Ég henti kæruleysislega frá mér sænska jólapappírnum í forstofunni.
Ég braut á rétti Árna til að ganga hindrunarlaust um heimili sitt.
Ég braut á Árna litlu tána.
Vinir og fjölskylda | Breytt 26.11.2008 kl. 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Nám er vinna
24.11.2008 | 10:46
Skrítið hvernig hlutirnir þróast. Mig hefur langað í nám í mörg ár. Fann aldrei neitt sem mig langaði að læra en ákvað á endanum að drífa mig bara samt.
Ætlaði að taka þetta bara rólega, sjá hvernig gengi. En allt í einu er námsmaðurinn undir gífurlegri pressu sem eina fyrirvinna heimilisins. Skiptir öllu máli að ná til að fá námslánin.
Samkvæmt framfærslutöflu miðað við 3 börn, ekki er gert ráð fyrir að námsmenn eigi 4 börn, ættum við að fá 800000 í lán fyrir haustönnina, sem er frábært. Þori varla að trúa því ennþá, enda ekki búið að afgreiða lánið og ekki búið að ná prófunum.
En það myndi hjálpa heilmikið til.
Árni er kominn með vinnu við 2 hús eftir áramót. Frábært og æðislegt en virkar frekar ósennilegt að af verði ekki satt? En við vonum það besta.
Bryndís (9) er búin að vera hvumpinn upp á síðkastið. Fyrst velti ég fyrir mér hvort hún væri að ganga inn í gelgjuna alltof snemma en svo finnst mér líklegra að ástandið sé að ná til hennar. Við höfum auðvitað reynt að hlífa þeim við þessu öllu en hún hefur alltaf verið ótrúlega dugleg í að lesa í líðan okkar og ósögð orð.
Auðvitað verður hún vör við breytingu þótt við látum eins og allt sé í himnalagi. Er ekkert vön því að pabbi hennar sé heima allan daginn og getur alveg sagt sér sjálf að ef hann er ekki í vinnu fær hann engin laun.
Eins líka hlýtur að hafa áhrif að ef hún stingur upp á einhverju sem kostar peninga er svarið alltaf nei. Ekki nei ekki núna eða nei seinna. Bara NEI. Og þótt mig langi ekki að viðurkenna það fylgir svarinu eflaust einhver tilfinning, eitthvað vonleysi, einhver leiði sem er óvenjulegur og hún áttar sig á.
Spurning um að taka upp á því á gamals aldri að lofa upp í ermina á sér, ýta hlutunum á undan sér og vona að uppástungurnar gleymist.
Takk annars öll fyrir að lesa okkur og kvitta, gott að fá kveðjur frá ykkur öllum.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Með rass-báðum megin!
21.11.2008 | 14:47
Við erum búin að hlæja svo mikið upp á síðkastið. Hlæja að þessum gullmolum sem börnin manns sleppa út þegar minnst varir.
Ákvað að deila þessu með ykkur svo þið getið líka hlegið, þótt ekki væri nema að því hvað börnin okkar eru vitlaus.
Bjarni (7) kom heim úr skólanum áðan og sagðist vera hálfviti. Hvers vegna? Jú ef maður er Alvitur þá er maður Alviti og hann veit u.þ.b. helminginn að því sem hægt er að vita í heiminum og er því Hálfviti.
Spurður að því hvort hann sé viss um að hann viti helminginn taldi hann upp að í Kína væru nokkrir á klósettinu, í Bandaríkjunum væru hermenn að fá sér bjór, í Ástralíu væri fólk sofandi........og svona hélt þetta lengi áfram. Líklega þar til hann hafði sannfært mig um að hann væri Hálfviti.
Var nú ansi nálægt hefðbundinni skilgreiningu á orðinu þegar við tókum út smákökurnar um helgina og spurði hvort hann mætti fá sér eina. Hann var beðinn um að bíða því þær væru of heitar en hann kunni nú ráð við því.
Hann setti á sig ofnhanskana!
Umhugsunartíminn eftir að hann var spurður hvort hann héldi ekki að hann brenndi sig í munninum var ca. 3 sekúndum of langur.
Hann er mjög áhugasamur um skólagöngu móður sinnar og finnst hún dugleg. Kom að mér um daginn þar sem las í lesHEFTINU í Þroskasálfræðinni. Spurði svo seinna hvort ég væri enn að lesa í Þroskaheftinu.
Við Snorri (3) fórum svo í sund í gær og í sturtunni er hann eitthvað meira hugsi en venjulega. Enda kom spurningin:Hvað gerðir þú við tippið þitt mamma?
Eftir hefðbundna útskýringu og upprifjun á líkamspörtum stelpna og stráka var hann enn hugsi. Gengur hringinn í kring, skoðar og skoðar og úrskurðar svo:
þú ert bara með rass ..báðum megin!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)