Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Endilega komið með!

Langar að bjóða ykkur með mér á nýjan stað!

Ég kem til með að skrifa reglulega pistla á Barnapressuna um allt sem mér dettur til hugar þótt börnin mín og fjölskyldulífið í öllum sínum myndum verði í forgrunni.

Hægt er að finna okkur með því að fara inn á http://pressan.is/ og velja Barnapressan eða með því að velja Pressupennar og finna svo nafnið mitt í listanum til vinstri.

Hér er fyrsta færslan mín þar http://pressan.is/pressupennar/Lesa_Kristinu_Bjarna/augnablik 

Endilega komið með mér.

 


Á nýjum stað

Jæja þá erum við að færa okkur um set, á nýjan vef og á nýjum forsendum.

 

Við erum í svipuðum sporum og flestir í þjóðfélaginu í dag. Höfum það hvorki verra né betra og varla frá neinu að segja sem viðkemur upprunalegum tilgangi Reisubókarinnar, þeim að veita innsýn í líf venjulegrar fjölskyldu á óvenjulegum tímum.

 

Þess vegna kom aldrei til greina að hafa hér almennar vangaveltur eða léttmeti.

 

En mig langar að skrifa.

 

Ég vona að þið fylgið okkur áfram þótt á annan hátt sé og ég læt vita nánar þegar allt er tilbúið.

 

Bestu kveðjur til ykkar allra xxxxx

 

Litið til baka

Humh, varð heldur lengra hlé gert hér en til stóð. Ástæðan er einfaldlega sú að eftir því sem dagarnir liðu varð minni þörf á að skrifa sig í gegnum hlutina.

Get ekki líst því hvernig upplifun það var að finna smátt og smátt frostið fara úr hjartanu, finna krumluna gefa eftir. Þora aftur.

Daglegt líf er nánast orðið eins og það var, fyrir utan óvissuna sem við búum öll við. Við bæði í vinnu þótt Árni vinni óreglulega og er því í skólanum með.

Þótt við reyndum eins og við gátum að láta þetta allt saman sem minnst koma við krakkana þá fundu þau auðvitað fyrir þessu. Fundu hvernig okkur leið, voru dugleg að lesa á milli línanna.

Um leið og þau fundu öryggi og bjartsýni stafa aftur frá okkur var þungu fargi af þeim létt.

Sátum úti í sumar, á einum af þessum dýrðardögum, þegar kreppan kom til tals og Bjarna (8) svelgdist á og spurði gáttaður er kreppan ennþá? Hans eina viðmið um þetta kreppuástand var líðan foreldranna og um leið og þeim leið betur var kreppan yfirstaðin.

Þegar ég lít til baka til sama tíma í fyrra trúi ég varla hvernig þetta var. Minningin er dimm. Í dimmunni sé ég fólk flakka á milli hræðslu og afneitunar, kjarks og vonleysis. Í örvæntingarfullri leit að dug til að drepast ekki.

Og fann. Sem betur fer.


Everything is Amazing and nobody is happy

Ágætis áminning og auðvitað bráðfyndið........

 


Heima og að heiman

Skrapp aðeins út í morgun.  Ég vakti Bjarna (8) sem var ennþá sofandi og sagði honum hvert ég væri að fara og hvað ég yrði lengi.

Þegar ég kom heim var miði á hurðinni.

Hvar varst þú?

Ef ég verð ekki heima þá er ég hjá Birki en ef ég verð heima þá er ég heima.


Botninn dottinn úr þessu?

Færslufæðin undanfarið úskýrist af því að ég hef verið í mestu vandræðum með hvað eigi að gera við reisubókina.

 

Yfirlýstur tilgangur var að veita innsýn inn í líf venjulegrar fjölskyldu í óvenjulegum aðstæðum en þar sem við bæði höfum fengið vinnu hefur hversdagsleikinn tekið við.

 

Ef það orð á við. Við, ekkert frekar en aðrar fjölskyldur á Íslandi, teljumst seint venjuleg fjölskylda í venjulegum aðstæðum því venjulegar aðstæður verða líklega aldrei venjulegar eins og þær voru skilgreindar hér áður fyrr.

 

Ég á því við að lífið gengur sinn vanagang á þann hátt að við náum endum saman og við mætum í okkar vinnu, skóla og tómstundir.  Það óvanalega er að við, líkt og svo margar aðrar íslenskar fjölskyldur lifum fyrir einn mánuð í einu.  Með snöruna um hálsinn.

 

Ljótt að segja það en það er satt.

 

Árni er búinn að fá vinnu jú og þótt það verk sé á vegum Reykjavíkurborgar, sem hlýtur að teljast öruggur framkvæmdaraðili þá stendur það og fellur með því hvort lífeyrissjóðina langar að lána fé til framkvæmdanna.

 

Enginn veit svo hvernig flugbransinn kemur til með að þróast á árinu þótt maður voni það besta. Getur svínaflensan takk fyrir beðið þar til betur stendur á?

 

Verkefnið sem efnahagsástandið bar á borð fyrir okkur í vetur er leyst eins vel og hægt var en framtíðin er ótrygg og óráðin.  Hlutirnir breytast dag frá degi og maður hefur ekki hugmynd um hvort maður getur staðið við skuldbindingarnar. Við tókum auðvitað lán í vetur til að lifa veturinn af, hækkuðum þar með greiðslubyrðina og höfum ekki hugmynd um hvort við ráðum við að borga af öllu saman.

 

En gat nú verið að um leið og hversdagsleikinn eða hvað maður á að kalla þetta ástand sem fólk býr við í dag tekur við, byrjar maður að röfla yfir hlutum sem hafa ekki snert mann í allan vetur?  Hlutum eins og lekum gluggum.  Sem er reyndar ágætis röflefni enda telur maður sig yfirleitt vera að kaupa vind- og vatnsþétta eign.

 

Ekki það að maður geri baun í því núna.  Fer varla að eyða krónu í viðhald.  Ekki þegar maður veit ekki hvernig þetta endar. 

 

Muniði þegar maður þóttist geta planað hlutina? Virðist eilífð síðan.

 

Get því ekki sagt að við séum komi í gegnum erfiðleikana en ég þori að segja að við séum millilent.

 

En þess vegna veit ég ekki alveg hvað ég á að gera við reisubókina.

 

Flestir eru betri en ég í að taka púlsinn á þjóðmálunum og áhugi lítill á því hjá mér þótt ég viðurkenni að mann klæjar í puttana að ýta á “blogga um frétt” þegar maður les að hakk hafi hækkað um 67% síðan í febrúar eða að skuldir ríkis og sveitarfélaga séu meiri en áður var haldið.  Svo ég tali nú ekki um þegar því er bætt við daginn eftir að staða heimilanna sé betri en talið var.

 

Skyldi þó ekki vera að til standi að aflýsa skjaldborg heimilanna?

 

Krúttlegar sögur af börnunum mínum eiga svo frekar heima á barnalandi og þótt af nægu væri að taka úr vinnunni er ég hreint ekki viss um að ég mætti deila því öllu með ykkur.

 

Svo hvað á ég að gera?

 

Langar ekki að hætta þótt ég hafi lítið að segja akkúrat núna, því á bak við hverja sagða sögu er önnur ósögð og vona ég að ég geti einhvern tíma sagt ykkur hana.

 

Langar því til að halda reisubókinni opinni þótt lítið verði um færslur í bili.

 

Var spurð um daginn hvort það hefði hjálpa okkur eitthvað að opna svona fyrir hvernig staðan var á okkur í vetur og við því er einfalt svar. Þið sem hafið komið hér við og hlegið og grátið með okkur í gegnum þetta hafið auðveldað okkur að takast á við þetta. Sú aflausn sem felst í því að skrifa sig frá hlutunum getur svo aldrei verið neitt annað en góð.

 

Þótt fáir hafi kvittað-þannig-höfum við fundið og auðvitað séð á heimsóknartölunum að miklu fleiri hugsa til okkar og fylgjast með okkur.  Og það er á hreinu að sá styrkur sem þið senduð okkur skilaði sér.  Klárt mál.

 

Helsti lærdómur vetrarins er að í erfiðum aðstæðum sýnir fólkið í kringum mann sitt rétta andlit. Svo margir hafa reynst okkur svo ótrúlega vel. Merkilegt að uppgötva hvað það þýðir að búa í samfélagi.

 

Upplifa að fólk, án umhugsunar léttir undir með náunganum, náunganum sem það jafnvel þekkir lítið. Veitir hjálp þar sem hjálpar er þörf, telur það ekki eftir sér, vill ekkert í staðinn og veit að margt smátt gerir eitt stórt.

 

En við vorum mjög heppin því við sögðum frá. Fólk verður auðvitað að velja sína leið en ég finn svo til með fólki sem ber þessar byrðar eitt án þess að biðja samfélagið um að bera þær með sér.

 

En það gleddi mig mjög mikið ef okkar saga hefur hjálpað öðrum í vetur til að finnast þeir ekki standa í þessu einir. Það verður ekki of oft sagt að við tókum öll góðar og gildar ákvarðanir miðað við þær forsendur sem voru uppi fyrir mestu efnahagslegu hamfarir sögunnar.

 

Hægist því hér um í bili en hver veit kannski verða hér bráðlega krassandi sögur af baráttu við bankana, uppboði og gjaldþrotaferli.  Auðvitað óskar maður þess ekki en ég hefði þá að minnsta kosti eitthvað til að skrifa um ekki satt?


Af gömlum gildum

Hékk á því í vetur að það eina jákvæða við ástandið væri að nú gæfist tækifæri til að dusta rykið af gömlum og góðum gildum sem týndust einhvers staðar í góðærinu.

 

Hafði oft pirrað mig á að börn í dag fengju allt og þá strax og erfitt væri að setja einhvers staðar mörk.  Það var einhvern veginn gert ráð fyrir að allir ættu allt.  Man hvað ég var hissa þegar ég frétti að sökum hve bekkur í grunnskóla hafði verið duglegur máttu þau koma með ipodana sína daginn eftir í skólann.

 

Var orðið jafn sjálfsagt að eiga ipod eins og pennaveski?

 

Foreldrar mínir byggðu húsið sitt frá grunni, unnu eins og skepnur og uppskáru eins og þau sáðu.  Verðbólga var mikil á þeim tíma og við höfðum lítið á milli handanna.  Þegar maður hækkaði var saumað neðan á buxurnar manns, maður lærði að leita að ódýrasta verðinu þegar maður fór út í búð og ég sver að tannburstinn minn var soðinn eftir að ég missti hann einu sinni ofan í klósettið.

 

Hef oft reyndar velt því fyrir mér hvers konar tannburstunarofbeldi var í gangi á mínu heimili.

 

En svona voru hlutirnir á þeim tíma og maður lærði nyt-, nægju- og sparsemi. 

 

En eins jákvætt eins og það nú er að börn í dag læri þessi gildi þá hef ég oft undanfarið velt fyrir mér hvar línan liggur.  Hvort lærdómurinn fari ekki fyrir lítið þegar aðstæðurnar eru eins og þær hafa verið í vetur?  Hvort þau missi ekki af því hvað er gott að kunna að spara þegar þau tengja það einungis við að heimilið varð tekjulaust?

 

Hvort þessi kríli sem finna kvíða foreldra sinna á hverjum degi læri nokkuð annað en að vera hrædd?

 

Bryndís Inga varð tíu ára í dag.  Áttum yndislegan dag í hópi vina og ættingja.  Síminn hennar var tekinn ófrjálsri hendi um daginn og var ósk hennar að fá peninga í afmælisgjöf til að kaupa nýjan. Áður en hún fór að sofa taldi hún og taldi og fann út himinlifandi að hún gæti keypt símann sem hana langar í.

 

En stuttu eftir að hún fer að sofa læðist hún niður og laumar til mín bréfi. Í bréfinu voru afmælispeningarnir hennar og miði þar sem hún segist elska mig og þetta hjálpi vonandi eitthvað.........


20.maí 1972

Kom til mín farþegi í gær og sagði: the other stewardess, with the blond hair and pointy ponytail-she´s younger than you-I´ve met her before, what is her name?

 

Auðvitað var ekki nóg að nefna að hún væri ljóshærð með tagl.  Auðvitað varð að nefna það að hún væri yngri öðruvísi hefði ég auðvitað aldrei fattað við hverja hann átti.

 

Og hún var bara 5 árum yngri en ég. En svona augljóslega yngri.

 

Á afmæli í dag.  Þurfti ekkert að heyra þetta.


Erda satt?

Brá í vikunni þegar ég einhvers staðar las að það væri ekki á hreinu um hvað Is it True? fjallar. Brá vegna þess að í mínum huga var það borðleggjandi.

 

Ég hélt að lagið fjallaði um efnahagshrunið og hvernig þjóðin hefði vaknað upp af draumi.

 

Lagið er fullt af tilvísunum, þar er vísað í rumours eða allar skýrslurnar sem spáðu fyrir um hrunið en enginn tók mark á,  friend er Bretland og beiting hryðjuverkalaganna og augljós eru falling out of a perfect dream og will I wake from this pain?

 

En svona er ég mikill kjáni.

 

Kom mér líka mjög á óvart að ekki er til íslenskur texti við lagið.  Við höfum í vor sungið viðlagið hástöfum á íslensku og það er kannski rétt fyrst laginu er spáð sigri að skella þýðingunni með ef einhver vill nýta sér hana.

 

erda satt (erda satt)

erda búið

varsu kastað á glæ

varsda þú (varsda þú)

það var ekki sagt mér

bankarnir væru hausnum á

 

ágætt er að draga á-ið aðeins til að tengja við þjóðina og sársaukann.

 

Að lokum fann ég lítinn vin sem minnir mig af einhverjum ástæðum á fyrrum Seðlabankastjóra.

 

Áfram Ísland.

 

Hefnd litla mannsins

Held því oft fram að ég sé ekkert reið út af öllu þessu sem gengið hefur á í vetur.  Reiði sé lamandi tilfinning sem hindri mann í að gera sitt besta.

 

Við Snorri (3) fórum í bankann áðan og á borðinu sat þessi fína nammiskál full af girnilegum brjóstsykri.  Hann teygir fram lúkuna og ég segi af gömlum vana bara einn!  En þegar hann langar í meira gerist eitthvað.

 

Það blossaði upp í mér reiðin og mér fannst út í hött að setja hámark á hvað 3 ára drengur, sem átti einu sinni peninga í þessum banka, sem búið var að leggja reglulega til hliðar fyrir hann frá fæðingu, gæti fengið mikinn brjóstsykur.

 

Ég horfði því á hann taka fulla lúku og sagði ekki orð.

 

Mundi svo eftir Bryndísi og Bjarna og að þau hefðu líka átt fullt af peningum í þessum banka.

 

Gjaldkerinn þurfti á þessum tímapunkti að bregða sér frá og á meðan notuðum við tækifærið og tæmdum skálina í vasana á úlpunni hans Snorra.

 

Sátum svo bæði alsaklaus og hefðum flautað ef við kynnum.

 

Á leiðinni út í bíl rann æðið af mér er ég gerði mér grein fyrir að ég hafði kennt syni mínum að ræna banka.

 

En mikið hrikalega var þetta góður brjóstsykur.

 

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband