Venjulegt fólk

Við höfum verið beðin um að lýsa því hér reglulega hvernig kreppan fer í okkur. Ekki vegna þess að við séum eitthvað merkilegri en annað fólk, heldur einmitt vegna þess að við erum það ekki. Við erum bara venjulegt fólk, almenningurinn, lýðurinn. Höfum það ekkert betra eða verra en aðrir.

Við áttum auðvitað okkar spretti í góðærinu. Prófuðum að vera flottræflar. Kvittuðum undir nóturnar án þess að skoða upphæðina, fórum til útlanda tvisvar á ári og gott ef sjálfur Herbert Guðmundsson var ekki pantaður hingað í partý.

En við keyptum aldrei hlutabréf, erum ekki með gengislán og áttum aldrei neitt til að setja í peningamarkaðssjóði. Við töpuðum því engum peningum.

En við sjáum á eftir öðru. Árni er búinn að missa fyrirtækið sitt. Fyrirtækjaumhverfi er búið að vera með þeim hætti á þessu ári að það gat ekkert annað gerst. Reksturinn og aðgangur að fjármunum varð erfiðari og erfiðari og flækjustig viðskipta með ólíkindum. Ljóst er að einhverjir fara illa út úr því máli öllu og einnig hefur sannast að enginn er annars bróðir í leik ef leik skyldi kalla.

En við erum ríkari en flestir. Við eigum 4 börn frá 8 mánaða til 9 ára, tvær stelpur og tvo stráka.

Og í upphafi árs fannst okkur upplagt að ég tæki foreldraorlof í framhaldi af fæðingarorlofi. Ég er því launalaus þar til næsta haust. Ég læt mér ekki einu sinni detta til hugar að hafa samband við vinnuveitanda minn, Icelandair og leita eftir að breyta því fyrirkomulagi. Get sagt mér það sjálf að ekki eru miklar líkur á vinnu þegar fyrirtækið er nýbúið að sjá á eftir 134 flugfreyjum og þjónum.

Mikil breyting hefur því átt sér stað og við höfum ekki hugmynd um hvaðan eða hvenær næstu peningar koma.

En sem betur fer höfum við áður staðið í svipuðum sporum. Í síðustu kreppu 2001/2002 missti Árni vinnuna og ég var þá líka í launalausu fæðingarorlofi. Ég segi sem betur fer því fyrri reynsla gerði það að verkum að við höfum passað okkur á að eiga ávallt smá varasjóð. Sá varasjóður gagnast okkur nú líkt og laun í uppsagnarfresti.

Annað sem hefur komið skemmtilega á óvart í þessum aðstæðum er að í haust lét ég gamlan draum rætast og hóf nám í H.Í. Mögulega getum við því sótt um námslán.

Markmiðið með þessum hugleiðingum sem á eftir koma er ekki að velta sér upp úr hlutunum eða kryfja til mergjar ástandið í þjóðfélaginu. Né heldur er þetta vettvangur vorkunnar, sjálfs eða annars konar.

Tilgangurinn er aðeins sá að veita innsýn í líf fólks í kreppunni miklu 2008.

Venjulegs fólks í óvenjulegum aðstæðum.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband